Föstudagur 07.06.2024 - 11:09 - FB ummæli ()

Sannleiksgildi sögunnar?

Skrifaði fyrir 2 árum pistil á fésbókinni af tilefni útgáfu bókar Bergsveins Birgissonar. – Þormóður Torfason, en sem á nú betur heima á blogginu mínu og sem horfið getur síður í algleymið eins og hendi sé veifað.

Til hvers lesum við bækur? Sennilega mest til að hafa ánægju af og bæta innsýn okkar í lífið. Bæta jafnvel okkar innsæi og dómgreind. Skáldsögur eru oftast hreinn hugaburður höfundar þótt hann byggi á reynslu. Sagnaskáldsögur byggjast á heimildum, því betri sem hægt er að vísa í heimildirnar jafnóðum, en þar sem höfundur gefur sér leyfi að fylla í eyður til að skapa andrúmloft, líf og jafnvel spennu eftir best sannfæringu.

Það er ekki ónýtt að út komi bók sem samtengir forn- og miðaldabókmenntir okkar Íslendinga við ævisögu manns sem ætti að eiga okkar mestu þakkir skildar fyrir að fá að njóta sagnaarfs forfeðra okkar. Arfs sem margir telja dýrast djásnið í íslenskri menningu. Manns sem samt þjóðin gleymdi og var látinn falla í suggamyrkrið. Kannski mest til að varpa ekki skugga á þann sem sérhagsmunaaðilar og elítan töldu að ætti að eiga sviðsljósið. Svo einstakan að hann fengi einn að njóta um ókomna framtíð með t.d. nafngiftinni, stofnun Árna Magnússonar.

Hvað var það sem truflaði íslensku elítuna og ekki mátti kenna og ræða? Varð sagan og sagnaritunin að vera bara einföld og skýr, á kostnað þess raunverulega? Hverjar eru fórnir þess að skapa bara eina menningasögu sem okkur og börnunum okkar eru kenndar um forn og miðaldir? Hvað um sögu sem segir okkur meira en aðrar um hvernig sögurnar urðu til? Með litabrigðum þess samtíma þegar þær eru skrifaðar og síðan sagðar eða lesnar gegnum aldirnar, allt til okkar dags. Hvaða skuggahliðar voru skildar eftir í endursögnum eða skrifum? Hvað með mannlega þáttinn, sögu og líf þeirra sem komu menningararfinum mesta, eins vel og þeir gátu, til okkar? Hverjir áttu e.t.v mestar þakkir skyldar að bjarga fornhandritunum okkar frá tortímingu og sjá til þess að þeim væri komið til skila í örugga geymslu?

Lestur bókar Bergsveins Birgissonar um Þormóð Torfason er eins og himnaríki á jörðu niðri. Gædd lífi og mikill frásagnagleði. Vissri opinberun um horfna tíma og mannlega þrautagöngu vísinda- og menntamanns um miðja 17 öld og fram á þá 18. Og samtímasöguhetjurnar hans eru flestar þaulkunnugar, en verða persónulegar og líflegar. Hvernig getur góð saga orðið betri?

Eftir stendur jafnframt mikilvæg gagnrýni á aðra fræðimenn og vísindasamfélagið. Að vilja halda jafnvel sannleikanum og því rétta utan umræðunnar, ef hún er ekki þeim nógu þóknanleg eða rekst á þeirra hugmyndafræði. Þetta sjáum við daglega í þjóðfélagsumræðu dagsins og stjórnsýslunni. Umræða sem er metin svo að hún þoli ekki dagsins ljós. Vísindaþekking og reynslan jafnvel látin víkja með einföldustu aðferðafræði sögunnar. Þögguninni. Eða gera bara orð annarra eða kenningar að sínum af hentisemi og sem heitir þá ritstuldur.

Bók Bergsveins um Þormóð Torfason er besta kennsluefni sem hugsast getur um menningaarfinn okkar, þrautseigju einstaklings og baráttunni fyrir að fá viðurkenningu í samfélaginu og sögunni.

Flokkar: Óflokkað · Dægurmál · Menning og listir · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn