Mánudagur 13.1.2025 - 19:29 - FB ummæli ()

Fuglaflensan og Vatnsmýrin í dag

Engin lýsing tilVið segjum stundum börnum ævintýri og hvernig konungssonurinn leystist úr álögum þegar prinsessan kyssti dauða svaninn í sögunni um Dimmalimm. Ekki það að í dag væru sennilega aldrei skrifuð ævintýri eins og Muggur gerði þegar hann skrifaði eitt frægasta ævintýri nokkurs Íslendings, Dimmalimm (1921). Sagan segir að hann hafi hugsað sér svaninn sem tákngerving íslensku þjóðarinnar sem var undir álögum Dana og kossinn hafi verið sjálfstæðisbarátta okkar Íslendinga og sigur til fullveldis, þótt opinbera sagan hafi átt sér einfaldari skýringar enda Muggur búsettur í Danmörku. Enginn myndi heldur þora að kissa dauðan fugl í dag af hræðslu við að smitast af fuglaflensu.

H3N2 stofninn (vetrarinflúensan sem nú er í gangi) er mjög smitnæmur sjúkdómur milli manna, og inflúensan almennt eins meðal anarra dýra. Erfitt er að fullyrða um smitmöguleika milli þessara lífvera sín á milli. Frá mönnum í dýr eða öfugt, frá t.d. fuglum og köttum í menn. Oft þarf aðeins litla genabreytingu/stökkbreytingu (antigen drift or shift) svo það verði. Oftast er manneskjan lokahlekkurinn meðal spendýra. Svínainflúensan 2009 (N1H1 – sami grunnstofn og olli spænskuveikinni 2018) er talin mögulega  kominn frá svínum – áður etv. frá fuglum og í svínin. Út braust heimsfaraldur þannig þegar svínainflúensustofninn hafði undirgengist „antigen drift“ og fór þá að vera mjög smitnæmur milli manna. Nýir stofnar geta eins alltaf komið upp og sagan sannar.

Fuglaflensustofninn nú er að stofni H5N5 og sem ekki hefur greinst í köttum áður í heiminum, fyrr en nú á Íslandi fyrir jól og aftur nú nýlega. Sá stofn hefur heldur enn sem komið er ekki orðið smitnæmur milli manna. Það gæti gerst með meiri breytinu antingen shift- þ.e. stökkbreytingu væntanlega -eða með samblandi erfðaefnis veira sem sýkt hefur einstakling á sama tíma, þ.e. vetrarflensunni (H3N2) og fuglaflensusmiti (H5N5)
Fólk getur orðið mjög alvarlega veikt ef smitast beint frá fugli eða ketti sem er alltaf möguleiki þótt ólíklegt sé að það smit dreifist milli manna í byrjun. Dánarhlutfall er þá allt að 50%!

Engin lýsing tilNú bíðum við eftir endanlegri stofngreiningu á inflúensunni sem drepur gæsirnar í Vatnsmýrinni – Væntanlega H5N5 og hefur fyrir verið að greinast hér á landi einkum í gæsum og álftum í vetur og því vonandi sami stofninn. Sá stofn er hinsvegar einnig farinn að smita ketti hér á landi sem er einstakt á heimsvísu og því mögulegt að fari að styttast í mannainflúensu og þar með nýjum heimsfarldri (ólíkt verður samt að teljast að það gerist á litla Íslandi, en maður veit ekki!) Og eins og áður sagði hefur H5N5 stofninn ekki greinst í köttum annar staðar í heiminum, sem nánr tiltekið er með mótefnavakan N5 og sem er mjög sérstakt.

Engin lýsing tilRáðlegg því fólki sem er með veikan kött á heimilinu og sem haft hefur áður frjálsa útigöngu, en sem fær síðan ILI (inflúenslík einkenni) að það láti taka PCR póf (svipað og gert var í Covid19 faraldrinum). Svar gæti verið komið degi síðar. Eins er auðvitað skynsamlegar að hefta frjálsa útigöngu katta tímabundið strax eins og reyndar yfirvöld mæla með í dag.

https://www.cdc.gov/flu-in-animals/index.html

Fuglaflensur og uppruni kjötsins

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · útivist

Mánudagur 16.12.2024 - 18:09 - FB ummæli ()

„Heilsugæslan“ líka í apótekið!!

Engin lýsing til

 

Fáfræði almennings þegar kemur að vitneskju um rétta lyfjanotkun er mikil hér á landi og krafan á bráðalausnir er meiri en í nágranalöndunum. Skortur á heilsugæsluþjónustu á daginn, en áhersla á skyndiþjónustu og lausnir í apótekunum á kvöldin ræður þar miklu um. Allskyns kúrar þrífast sem og pýramídasölukerfi þar sem maður er settur á mann og sem skýrir ágengnina í sölumennskunni. Sem oft eru í besta falli peningaplokk, en í versta falli hættulegt kukl. Skrifað grein fyrir áratug um sölu lausasölulyfja apótekanna og þar sem allt stendur við það sama í dag.   https://blog.dv.is/vilhjalmurari/2014/01/24/virusar-i-apotekinu/   Mitt doktorsnám var gæðaþróunarverkefni í skynsamlegri notkun lyfja og voru sýklalyf sérstaklega fyrir valinu og þar sem mátti meta samfélagslegar afleiðingar ofnotkunar. Mikilvægast var að ræða kosti og galla lyfjameðferðar áður en hún hæfist miðað við sjúkdómsástand og einkenni. Fræðsla um eigið heilbrigði og forvarnir var mikilvægt. Standa átti vörð um of mikil áhrif auglýsinga á lyfjamarkaði og í fjölmiðlum.

Lyfjafræðingar sækjast nú í vaxandi mæli að leysa af hólmi heilsugæslulækna og afgreiða lyfin án aðkomu lækna. Þekking í sjúkdómafræði hins vegar lítil sem engin á þeim bæ. Söluhagnaðarvon ræður mestu og þar sem þeir vilja ávísa lyfjum um leið og þeir selja. Ýmislegt getur fylgt með í kaupunum að ósk viðskiptavinarins. Nýlega birti heilbrigðisráðuneytið á síðu sinni innan stjórnarráðsins, skýrslu starfshóps á vegum heilbrigðisráðuneytis sem er ætlað að vera stöðumat á lyfjafræðilegri þjónustu íslenskra apóteka, svokölluð „hvítbók“. https://samradapi.island.is/api/Documents/43ff6389-3db6-ef11-9bc8-005056bcce7e

Þar er rætt m.a að það skuli stefnt að meiri samvinnu og ráðgjöf við lækna og um skerpingu á mikilvægi fræðslu um lausasölulyf sem er gott. Eins nú með innleiðingu miðlægs lyfjakorts og þar sem skráning á lyfjum er sú sama í heilsufarssjúkraská einstaklings og á lyfjalista apótekanna. Lyf eru þar flokkuð sem föst lyf og sem má endurnýja eftir þörfum, en helst með aðkomu læknis álega eða sem lyfjakúrar sem ekki eru endurnýjanleg nema eftir nýtt læknisfræðilegt mat. Eins svokölluð PN lyf og sem má leysa út aftur og aftur við ákveðnar skilgreindar aðstæður.

Lyfjafræðingar fá heimild til að ávísa ákveðnum lyfjum og apótek verða fyrsti viðkomustaður í veikindum samkvæmt tillögunum. Formaður Lyfjafræðingafélagsins segir lyfjafræðinga í apótekum lengi hafa beðið eftir þessu. Í fyrsta áfanga sem getur hafist strax eru lagðar til ýmsar breytingar sem sagðar eru myndu stuðla að meiri skilvirkni í heilbrigðiskerfinu, til að mynda með því að veita lyfjafræðingum heimild til að ávísa ákveðnum lyfjum fyrir minniháttar heilsufarsvandamál og endurnýja lyfjaávísanir. Í öðrum áfanga, sem á að hefjast innan þriggja ára, er lagt til að lyfjafræðingum verði heimilt að endurnýja lyfjaávísanir og að þeim verði veitt heimild til útgáfu lyfjaávísunar í neyðartilfellum. Í þriðja fasa eiga apótek til dæmis að verða fyrsti viðkomustaður, til að létta álag á heilsugæslu og bráðadeildum.

Margir læknar misstu hökuna í gólfið eins og Már Egilsson heilsulæknir lýsir í grein sinni á Vísi um helgina. Sér í lagi við lestur svokallaðs „þriðja áfanga“ í skýrslunnar. Ekki er einungis tekið skref aftur á bak þegar kemur að hagsmunaárekstrum, heldur einnig gert lítið úr kröfum á menntun og reynslu sem þarf til að greina og meðhöndla sjúkdóma. https://www.visir.is/g/20242663608d/lyfsalar-og-heilbrigdisraduneyti-i-bergmalshelli-

Enginn læknir var hafður með í starfshópi heilbrigðisráðuneytisins við gerð hvítbókarinnar svokölluðu..!!

Með hvítbókinni svokölluðu á að notfæra sér helbrennt heilbrigðiskerfi og “moka öskunni í eldinn”, í stað þess að slökkva elda. Ofnotkun margra lyfja, ekki síst lausasölulyfja hefur verið stór hluti oflækninga í dag. Nú á síðan að bæta í og gefa lyfjafræðingum möguleika á að reka eigin heilsugæslu innan apótekanna, skrifa út lyfseðla og selja síðan lyfin sjálfir. Söluhagnaðardrifinn markaður sem kann ekki góðri lukku að stýra fyrir lýðheilsuna og þar sem söluaðilinn, apótekarinn, er beggja vegna borðs. Gjaldfelling læknisfræðinnar á Íslandi að mínu mati, sér í lagi hvað lyflæknisfræðina varðar. Kannski eitthvað í ætt við grasalækningarnar forðum og þegar hver var oft sjálfum sér næstur með lyfjablöndur hverskonar.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál

Föstudagur 29.11.2024 - 09:53 - FB ummæli ()

Kreppur í þjóðarkroppnum

Engin lýsing til

Langafjara – Sólmundarhöfði, Akranesi á aðventu

Sennilega má líkja heilbrigðiskerfinu okkar í dag við aldraðan sjúkling sem endurtekið hefur þurft að leita á Bráðamóttöku háskólasjúkrahússins (BMT LSH) til lækninga og hjúkrunar vegna úræðaleysis annars staðar. Án þá heildrænna lausna og möguleika á samfelldri þjónustu. Háþrýstingur, verkir, svimi og mæði eru meðal helstu líkamlegu einkenna sjúklingsins.

Löngu fyrr hefði mátt bregðast við vandanum og ef tímar fengjust fengjust í heilsugæslunni eða heimaaðhlynningu. Streita og vöðvabólgueinkenni ásamt kvíða og þunglyndi eru annars meðal algengustu ástæðna þeirra sem leita til heilsugæslunnar, ásamt öllum lýðheilsusjúkdómunum. Flest allt einkenni sem oft eru í bland við þjóðfélagsleg vandræði og kapphlaup um tímann. Við þurfum að geta meðhöndlað sjúklingana okkar eins og við best getum.
Mörg úrræði eru til boða. Eitt að því algengasta gegnum árin hefur verið að kenna sjúklingum mikilvægi teygjuæfinga til að losna við vöðvahnúta og festumein. Sál-líkamlegu einkennin og hvernig hugur og hönd tala saman. Það þarf oft að teygja á þjóðarkroppnum með allar sínar kreppur. Láta handleggina dingla í allar áttir og finna með fingurgómum hinnar handarinnar hvar þá hnútarnir og strengirnir liggja. Öruggasta ráðið gegn spennuhöfuðverknum. Að kunna að spila á fiðluna sína, sjálfum sér til heilunar. Lengja í vöðvunum og slaka á spennunni í festingunum.
Nú þarf að velja vinstri eða hægri hönd fyrir komandi alþingiskosningar. Best að finna nákvæmlega hvar strengirnir liggja. Hagsmunir heilbrigðiskerfisins eru í húfi og við öll læknirinn. Mörg okkar líka orðin gömul og þar sem spennuhöfuðverkurinn er augljós og alltaf að versna. Samfylkingin nálgast að mínu mati þjóðareinkennin best með sinni stefnumótun í heilbrigðismálum til framtíðar. Eins í flestum öðrum málaflokkum sem snerta félagslegt heilbrigði og lýðheilsu almennt. Missum ekki af þeirri lækningu.
Sent 3m ago

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál

Fimmtudagur 14.11.2024 - 14:04 - FB ummæli ()

Vindmyllubaráttan í íslenska heilbrigðiskerfinu!

Engin lýsing til

Á Plaza de Espana 26.5 2024

Flestir í dag setja vindmyllur í samhengi við hugmyndir um að virkja eða ekki vindinn, til raforkuframleiðslu og sitt sýnist hverjum með tilliti til efnahagslegrar hagkvæmni annars vegar og land- og náttúruspjalla á víðlendum landsins, hins vegar. Tálsýn eða raunveruleikinn? Sennilega er skáldsagan frá 16 öld um riddarann Don Kíkóta á Spáni frægust fyrir árangursleysis hugsjónamanns á Spáni. Í persónu hans og fylgisveins, Sansjó Pansa, kristallast andstæður hugsjóna og veruleika, sannleika og tálsýnar, glópsku og skynsemi, listar og lífs. Barátta og elja Kíkóta má líka að sumu leiti túlka sem baráttu velviljaðs einstaklings gegn póltísku valdi eins og þeir blása hverju sinni. Meðfylgjandi mynd af styttunni af Kíkóta og fylgisveini tók ég í Madrid sl. sumar og þegar ég átti þar leið um á Plaza de España. Fann þar fyrir sterkum vindblæ og um leið hugrænni tengingu.

Alla mína starfstíð sem læknir hef ég fundið fyrir blæstri frá vanköntum í íslenska heilbrigðiskerfinu. Framan af var ég samt bjartsýnn á að flest mætti bæta með árunum og heimilislæknisfræðin varð fyrir valinu sem mín sérgrein. Álagið í vinnunni var mikið og vaktirnar margar, en sérgreinin ung og setti sér metnaðarfull markmið til framtiðar eins og marklýsing sérfræðináms í heimilislækningum bar með sér. Sat þá í stjórn FÍH og var virkilega stolltur af framsýninni. Gleðin stóð þó ekki lengi enda baráttan fljótt meiri varnarbarátta en framsókn. Breyttu litlu þótt ég stundaði gæðarannsókn m.a. í ávísanavenjum lækna í yfir áratug og sem að lokum var mitt doktorsverkefni. Niðurstöðurnar þóttu þó merkilegar og birtust í víðlesnum læknatímaritum um allan heim. Sumir telja að aðrar þjóðir gætu margt lært af reynslu íslendinga í þessum efnum og sem skilað gæti heilbrigðiskerfum miklu hagræði og lækkað heilbrigðiskostnað. Samdar voru jafnvel nýjar erlendar klínískar leiðbeiningar sem tóku tillit til rannsóknanna á Íslandi. Önnur gleðistund í starfsferlinum og fljótlega á eftir var ég líka skipaður klínískur dósent og tilnefndur sem fulltrúi LÍ í Sóttvarnaráð Íslands í tæp tvö kjörtímabil, skipaður af heilbrigðisráðherra.

Samhliða störfum í heilsugæslu á höfuðborgarsvæðinu og úti á landi, starfaði ég í um 40 ár á BMT LSH. Brann fyrir faginu og þar sem áskornair voru miklar. Fljótlega snerust hugrenningar mínar í vaxandi mæli um það sem miður fór í heilbrigðiskerfinu, yfirflæði og vöntun á þjónustu hverskonar. Öldrunarmálin og þjónustu við geðsjúka vó þar þungt. Lengi framan starfsævinni af taldi ég þó að starfsreynsla mín og þekking hlyti að ráða einhverju um framvindu úrbóta. Að stjórnvöld tækju mark á skoðunum, myndaðar af reynslu úr grastótinni. Að stjórnvöld væru að minnsta kosti tilbúin að hlusta. Það var minn misskilningur. Þau hafa aldrei viljað hlusta á einstaka raddir úr grasrótinni til stefnumótunar. Sama hver á í hlut og sérstaklega ef raddirnar gagnrýna fyrirliggjandi stefnumótun. Ekki einu sinni svarað neyðarópum, ekki svarað bréfum eða öðrum skilaboðum um viðtal. Vindhögg af minni hálfu?

Fyrir rúmum áratug fór ég virkilega að verða svartsýnn. Ég virtist alltaf vera að berjast við vindmillur og þótt ég teldi ekki vindmilluspaðana dreka eins og Don Kíkóte á sínum verstu stundum. Álagið í móttöku og yfirflæðið á BMT jókst stöðugt og starfsfólk þurfti einfaldlega að hlaupa hraðar. Löngu fyrirséð vöntun á lofuðum úrbótum t.d. í öldruna-og geðheilbrigðismálum og þjónustan bara versnaði ár frá ári. Jafnvel ríkisfjölmiðillinn RÚV ohf. virtist vera sem öxull í vélvirki vindmillanna og sem blés gagnrýnisröddum á haf út. Ekki vantaði þó loforðflaum hinna ýmsu stjórnmálaflokka fyrir einstakar alþingiskosningar gegnum árin, en sem féllu síðan í dúnalogn gleymskunnar.

Um þessar hugmyndir mínar hef ég skifað hundruð greina á blogginu mínu á gömlu Eyjunni. Mín vindhögg en sem voru engu að síður viðleitni til málsins. Allar verstu spár sem þar koma fram hafa því miður rætts. Í læknaeiðnum sverjum við þess heit að ganga ekki framhjá sjúklingi í neyð. Sama hlýtur að eiga við um heilbrigðiskerfið okkar og sem í dag er líklega stærsti og sjúkasti sjúklingur okkar allra. Engu breytir þar um að enn Í DAG er ungbarnadauði á Íslandi hvað lægstur í heiminum og langlífi þjóðarinnar telst gott. Þegar svo ráðherra vildi síðan ekki einu sinni hlusta á sína skipaða fulltrúa í sínu æðsta ráði sóttvarna landsins, Sóttvarnaráði Íslands, í heimsfaraldri Covid19 2020-2022, var nóg komið. Ráð sem ráðherra bar að leita til, til ráðgjar í stefnumótun sóttvarna hverju sinni samkvæmt stjórnsýslulögum. Þegar slagorð stjórnvalda var samt sem áður “gerum þetta saman”. Undirritaður sagði sig því frá ráðinu. Millistjórnendur í stjórnsýslupíramídanum, oftast með pólitíska tengingu að ofan, vildu bara fá að ráða í skjóli ráðherra. Vindmillurnar voru þannig ósigrandi!

Ég vildi samt óska að komandi kosningar snúist ekki enn einu sinni bara um vindmillur og að íslensk stjórnsýslulög fái a.m.k. haldið. Að lýðræðið viðhaldi sér ekki eingöngu með pólitískum vindblæstri á Íslandi. Stundum veit ég ekki heldur hvar setja á skilgreininguna milli vindhögga frá vindmillunum og sem fanga þig og þeirra sem jafnvel tengjast spillingaróveðri. Annars ætti samtalið, og sem er heilsugæslunni og bráðaþjónustunni heilagast gagnvart sínum skjólstæðingum, að vera sterkasta vopnið gegn vindgustri stjórnsýslunnar. En ef til vill verður annars bara sagan að dæma um Don Kíkóta heilkennið hjá okkur sumum í dag. Um tálsýnina eða raunveruleikann?

https://salvor.blog.is/blog/salvor/entry/2171761/

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál

Þriðjudagur 15.10.2024 - 18:25 - FB ummæli ()

Hver er þín staða með lungnabólgu-bólusetningu?

Engin lýsing tilGegnum aldirnar hefur pneumókokkalungnabólga verið ein algengasta dánarorsök aldraða. Eftir heimsfaraldur Covid19 sl. ár og hvatningu til endurtekinna bólusetninga ásamt árlegri inflúensubólusetningu, eru margir búnir að gleyma einni mikilvægustu bólusetningunni fyrir aldraða og sem er einmitt pneumókokkabólusetningin. Lungnabólga af völdum pneumókokka er algengasta og alvarlegasta afleiðing allra slæmra lungnapesta, þó sérstaklega tengt Inflúensu og jafnvel Covid19.

Landlæknisembættið mælir með pneumókokkabólusetningu (svokölluð lungnabólgubólusetning) eftir 60 ára aldur og sem þarf að endurtakast helst á 5 ára fresti. Ráðlögð bólusetning er fyrr hjá sjúklingum með undirliggjandi alvarlega lungnasjúkdóma og aðra langvinna sjúkdóma og ónæmisbælingu. Á síðu Landlæknis er í dag mælt með fjölsykursbóluefninu Pneumovax (PCV23) sem fyrsta val (virkar ágætlega gegn 90% algengustu stofna pneumókokka sem valda sýkingum) og sem kostar um 6000 krónur. Í sumum tilvikum af læknisráði er frekar ráðlögð bólusetning með próteinbundnu bóluefni sem er virkara og langvinnara gegn alvarlegum ífarandi sýkingum en fjölsykursbóluefnið (Prevnar20, áður Apexxnar) og sem er svipað að gerð og börnum er gefið í ungbarnabólusetningunum undir 2 ára aldri. Þau bóluefni eru yfir helmingi dýrari en í vissum tilvikum er hægt að sækja um svokallað lyfjakort hjá lækni til niðurgreiðslu. Fjölsykursbóluefni eru ekki gefin ef áður hefur verið gefið próteinbundið bóluefni.

Spurning er hvort PCV23 (Pneumovax) ætti ekki að vera frítt fyrir þá sem eru í áhættuhópum á Íslandi. Í Danmörku, 2020-2023, var bóluefnið gefið frítt fyrir 65 ára og eldri með Inflúensu- og Covid19 bólusetningunum með mjög góðum árangri. Lungnalæknar þar vilja áfram slíka tilhögun og reiknað hefur verið út að PCV23 lungnabólgubólusetningin ein og sér fækkað innlögum á sjúkrahús vegna lungnabólgu aldraða um 30% og dauðsföllum um 40%.

Áður hefur verið sýnt fram á mikinn árangur með pneumókokkabólusetningum meðal barna sem byrjað var á á Íslandi 2011, Gangvart alvarlegum miðeyrnabólgum, lungnasýkingum og blóðeitrunum. Vonast var til að verulega væri hægt að draga úr sýklalyfjanotkun barna vegna miðeyrnabólgu sérstaklega og sem er algengasta ástæða sýklalyfjaávísana barna á Íslandi. Erlendar rannsóknir höfðu sýnt upp undir 70% minnkun á sýklalyfjanotkun vegna þeirra tilvika.

Reyndin var reyndar ekki nærri eins góð hér á landi, og þar sem skýringa var að leita í almennum sýklalyfjaávísanavenjum lækna í heilbrigðiskerfinu. Íslendingar nota þannig sýklalyf almennt mest allra á Norðurlöndum og hefur svo verið lengi.

Lungnabólgubólusetning aldraða ætti að minnka þörf á sýklalyfjum eins og barna og sem er út af fyrir sig mikið þjóðþrifamál í heimi vaxandi sýklalyfjaónæmis helstu sýkingarvalda mannsins. Ónæmi gegn vörnum sem bóluefnin framkallar, er hins vegar ekki til, en því þarf að viðhalda. Hér erum við fyrst og fremst að huga um eign vörnum gegn alvarlegum smitsjúkdómi.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál

Þriðjudagur 8.10.2024 - 19:23 - FB ummæli ()

Áfengi – án meiri skaða

Hólmavíkurkvöldkyrrð um daginn – ein útsöluverslun ÁTVR á staðnum.

Nú er mikið rætt frjálsari aðgang að áfengi gegnum netverslanir, jafnvel í matvörubúðirnar, á sama tíma og töluverðar skerðingar hafa verið viðhafðar að aðgengi að öðrum ávana og fíkniefnum. Margir vilja takmarka aðgengið þar enn meira, lýðheilsunnar vegna og vegna hættu á ofnotkun. Það má vel velta fyrir sér eðlismuninum á áfengisvímu og áhrifum slævandi vímuefna. Hver er t.d. skilgreindur eðlismunur á áhrifum af einni töflu af Valíum/Stesolid og einu glasi af sterkri áfengisblöndu eða tveim bjórum? Af hverju eru höfð ströng skilyrði með lyfjaávísunum á sama tíma og ef svo að segja afgreiða má jafnvel ótakmarkað magn af áfengi í matvöruverslunum? Til að fá endurnýjuð flest lyf getur sjúklingur oft óskað eftir endurnýjun gegnum Heilsuveru, en þar sem ávanabindandi og sterk verkjalyf eru undanskilin. Til þess þarf viðtal við lækni. Í dag getur hver sem er sótt um afgreiðslu áfengis gegnum netverslanir og nú jafnvel sótt í matvöruverslun og ef hann hefur aldur til. Til að fá afgreidd lyf með slævandi verkun, svefnlyf og sterk verkjalyf, og örvandi ADHD lyfin, þarf alltaf lyfseðil frá lækni og afgreiðsla er eingöngu gegnum apótek sem hafa lyfsöluleyfi. Vegna meiri og vaxandi notkunar á þessum lyfjum, meira en í nágrannalöndunum, er stefnt að minnka notkunina með meiri fræðslu heilbrigðisstarfsfólks og ráðleggingum í apótekum- með átaki sem kallað er LYF ÁN SKAÐA og töluvert hefur verið í fréttum.

Áfengi er sennilega eitt mesta böl samtímans þótt öll vímuefni (ekkert síst þau ólöglegu) séu í vaxandi mikið þjóðfélagsvandamál, félagslega og heilbrigðislega. Tölur frá SÁÁ og Vogi benda til aukins fjölda sjúklinga sem leita þarf sér aðstoðar við vímuefnavanda, þó ekki síst vegna áfengisvandans. Dagdrykkju eldra fólks er þar ekki síst um að kenna og eins „normaliseringu“ áfengisdrykku almennings. Margir búnir að brenna allar brýr að baki sér og sumum vart bjargandi nema með lágmarks áframhaldandi lyfjaskömmtum eða með svokallaðri skaðaminnkandi meðferð. Færa má góð rök fyrir því að allar takmarkanir á sölu áfengis hafi skaðaminnkandi áhrif í för með sér.

Áfengisvandinn er mikill á Íslandi í dag, hverjar svo sem ástæðurnar eru. Sífellt fleiri á fullorðinsárum verða skaðanum að bráð með miklu heilsutapi. Til skamms tíma var hins vegar neysla léttvína og bjórs með því minnst þekkist meðal Evrópuþjóða. í dag stefnum við sennilega að norðurlandameti eins og staðreyndin er með ávanabindandi lyf. Það er væntanlega til einhvers að vinna að forðast þá stöðu. Árleg áfengisneysla hefur minnkað um hálfan lítra á einstakling í Evrópusambandslöndum frá 2010 til 2020 en á Íslandi hefur hún aukist um 0,6 lítra (DV 15.4.2024).

Sölutölur hafa bent til þess að við erum nú á pari við hinar Norðurlandaþjóðirnar í áfengissölu að Danmörku undanskildari. Að vilja frjálsrar verslunar á að reyna að auka söluna með afnámi einkasöluleyfis ÁTVR. Ekki af mannkærleika heldur vegna gróðasjónamiða. Erlendar netverslanir, jafnvel dótturfélög innlendra aðila hafa verið með áfengisölu hér á landi um árabil með póstsendingum og íslensku birgðarhaldi. Efitir á að setja í lög í ljósi regluverks ESB/EB hvernig þessu verður háttað hér á landi í ljósi þess að ÁTVR hefur eitt verið með einkasöluleyfið gegnum verslanir þess. Færa má góð rök fyrir að með þeirri einokun sé að minnsta kosti lágmarks söluhefting á áfengi, lýðheilusmarkmiðanna vegna.

Maður spyr sig líka, af hverju eru sum lyf lyfsöluskyld með kröfu um læknisávísun og síðan afgreiðslu í apótekum þegar gera á áfengissölu frjálsa í dag. Á áfengi virkilega að skilgreina í dag sem eðlilega neysluvöru sem hægt er að nálgast í matvöruverslunum, ekki sem vímuefni sem það sannarlega er og ákveðin lög gilda um? Hver á þá aðgangur almennings að vera að öðrum sambærilegum vímuefnum og áfengið er og sem flestir eru sammála um að þurfi að takmarka sem mest? Vilja matvöruverslanir afgreiða þau líka án hafta? Ef grundvöllur bregst á rekstri ÁTVR í þeirri mynd sem við þekkjum í dag, taka almennir verslunareigendur alfarið glaðir við keflinu og sem sennilega er lokatakmark þeirra í dag.

„Snúið huganum að því, hvort þið viljið halda áfram að neyta áfengra drykkja, hvort sem það mun vera til hagsmuna eða tjóns fyrir þjóðina, að áfengir drykkir eru hafðir á boðstólnum í vörubúðum og gesthúsum handa hverjum sem hafa vill. Ef gagnsemi áfengis væri meira en tjónið, sem að því hlýst, þá væri það gott og blessað og þá ætti að hafa það til sölu í hverri sveit. En nú hefir því verið haldið fram hér á landi í mörg ár að aðalútkoman af áhrifum áfengis á þjóðina er annars vegar stóreflis bein fjáreyðsla, hins vegar líftjón margra manna og heilsuspjöll á sál og líkama“. (Guðmundur Björnsson, landlæknir árið 1900  Áfengi í vörubúðum og gesthúsum.

Menn og konur hljóta að sjá í hvað stefnir ef sala áfengis verður gefin frjáls í næstu kjörbúð, jafnhliða sælgætinu og gosinu, þar sem við erum margfaldir Norðurlandameistarar í neyslu. Eða þá jafnvel með afgreiðslu áfengis í stað vandaðra blómvanda í blómabúðunum, kannski með einni sölnaðri rós á útsöluverði á flöskunni.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

Sunnudagur 6.10.2024 - 15:59 - FB ummæli ()

Rafhlöðurnar okkar og gönguleiðin besta

Engin lýsing til

Kirkjuklukkuturninn (ófrágengni) á Hólmavík

Fá vestræn ríki hafa eytt jafn litlu til forvarna og heilsugæslu sl. áratug og Ísland. Heildræna stefnu vantar nema í pólitískum ræðum á hátíðisdögum og heilsugæslan er á fallandi fæti. Reiknað hefur verið út að vel yfir þúsund góð æviár gætu verið glötuð í dag vegna aðgerðarleysis heilbrigðisyfirvalda kom m.a. fram í úttekt hjá Guðmundi Löve, framkvæmdastjóra SÍBS fyrir tæpum áratug.

Rannsóknir fyrir áratug sýndu að Íslendingar voru þá þegar þyngstir V-Evrópuþjóða (BMI >25), ungar konur í fyrsta sæti (60.9%) og karlarnir í því öðru (73.6%). Íslendingar fylgdu þar fast á hæla Bandaríkjamanna hvað varðar hraða þróun í ofþyngd og offituÞriðjungur Bandaríkjamanna var þá haldinn mikilli offitu (þyngdarstuðull, BMI > 30%) og 17% barna. Á sl. þremur áratugum hefur feitum í Bandaríkjunum fjölgað um 100%, og þeim sem eru með þyngdarstuðulinn >40, um 400%. Er þetta það sem koma skal hér á landi innan fárra ára? Hér á landi sést vaxandi tíðni offitu (BMI ≥ 30 kg/m2) en árið 2022 voru um 28% fullorðinna (20% 2014) og 7% barna. Hverju eiga ný þyngdarstjórnunarlyfin eftir að breyta í framtíðinni (Wegovy og Ozempic) en sem sannarlega hjálpa mörgum í dag.

Flestir vita samt hvað gerist ef vitlaust eldsneyti er sett á vélar. Eins er með næringuna okkar og okkur sjálf. Ofneysla af hvítum sykri, ásamt fínum kolvetnum og fitu í stað grófra kolvetna, er aðal ástæða offituvandans í dag. Færri gera sér hins vegar grein fyrir hvaða vöðvarnir þjóna miklu hlutverki til að stjórna brunanum og í svengdarstjórn almennt séð. Vöðvar sem eru þjálfaðir með stórum og litlum skerfum alla daga, gera miklu meira en að koma okkur bara á milli staða eða lyfta lóðum. Rannsóknir sýna að hreyfingin sjálf skiptir jafnvel meiru máli en sjálf þyngdin hvað lífslíkur varðar. Hreyfing eins og bara stuttir göngutúrar kvölds og morgna.

Með skilaboðum til heilans gegnum miðtaugakerfið, vilja vöðvar hámarka orkunýtinguna og losna við óþarfa þyngd og helst að fá eldsneyti sem endist vel. Eins og öll önnur sjálfbær lífræn kerfi sem stöðugt leita leiðréttinga á sér, en hér með hjálp taugakerfisins og fjölgun orkukorna í vöðvafrumunum með hreyfingu. Í myndlíkingu ekkert ósvipuð áhrif og þegar við fáum nýjar endurhlaðanlegar rafhlöður í símana okkar þegar þeir eru orðnir ansi daprir. Matvöruverslanir og gos- og sælgætisframleiðendur treysta hins vegar á önnur skilaboð. Skilaboð til frumhvatar mannsins og græðginnar og áður en skynsemin nær yfirhöndinni með allskonar girnilegum auglýsingum og uppstillingum. Vandasamur heimur að búa í og þar sem markaðslögmálin stöðugt rugla í fólki og sem við sjáum besti í dag og sumar verslanir berjast fyrir aðgengi að vínsölu í matvörubúðum.

feitastirRannsóknir sýna almennt að yfir 90% offitusjúklinga ná ekki að léttast þrátt fyrir oft óteljandi tískukúra sem vinsælastir eru í dag og það sem verra er, halda jafnvel áfram að fitna. Sjúkdómur sem á nær eingöngu rætur að rekja til rangra lífstílsvenja okkar, rangs mataræðis og lítillar hreyfingar. Ástand og venjur þar sem góð heilsugæsla ætti að geta gegnt mikilvægu hlutverki í að breyta.

Margir stjórnmálamenn forðast hins vegar að ræða lýðheilsuvandann. Þeir einblína oft á önnur mál, meira út frá ásýnd lands og húsa. Fegurðardýrkun og útlitsbreytingar hvers konar á mannslíkamanum eru óvíða jafn algeng og á Íslandi. Góður árangur gegn offitunni hins vegar næst ekki fyrr en við látum af öllum öfgum, tengt útlitsdýrkun og staðalímyndinni í tískublöðunum., því öll erum við mismunandi. Að við förum að líta á málin meira út frá rökhyggju heilsunnar, með sálarlega vellíðan og félagslegt öryggi að leiðarljósi. Hvatningu til meiri hreyfingar og skynsamlegri neysluvenja.

Villurnar eru samt víða. Sextíu og fimm sjúkdómar hafa verið tengdir offitu eingöngu, t.d. sykursýki, hjarta- og lungnasjúkdómar, gigtarsjúkdómar, ótímabærir hrörnunarsjúkdómar, krabbamein og geðsjúkdómar. Allt alvarlegir sjúkdómar og sem gefa skýrar vísbendingar um hina nýju heilbrigðisógn sem offitan er og vandamálum sem tengd er henni. Offitufaraldurinn hefur engan veginn hefur náð hámarki og Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) telur nú eina mestu heilbrigðisógn 21. aldarinnar í hinum vestræna heimi. Heimsfaraldur sem stefnir að verða flestum heilbrigðiskerfum þjóða ofviða vegna kostnaðar og sem leiðir að óbreyttu til heilsuhruns þjóðar. Covid-19 heimsfaraldurinn var bara aðvörun fyrir okkur.

Engin lýsing til

Menningar- og íþróttamannvirkið besta á Hólmavík – göngulstígurinn um Kálfanesborgir

Algengasta efnaskiptavillan tengt offitunni er skert sykurþol og sykursýki. Þá vantar insúlín miðað við þyngdina og síðar í alvarlegasta formi sykursýkinnar, alveg, og þegar briskirtilinn hefur gefist upp. Sykursýkisfaraldur er þegar farinn að skella á þjóðinni og allt að fjórðungur 65 ára og eldri stefna í að fá fullorðinssykursýki ef þróunin helst óbreytt. Hátt í 10% þungaðra kvenna eru í dag með meðgöngusykursýki (flestar of þungar), þróun sem hefur gengið hratt fyrir sig síðasta áratug.  Hættulegt ástand sem gefur sterkar vísbendingar um framhaldið. Ástand sem getur líka valdið fósturskemmdum og eykur líkur á ofþyngd fósturs og sykursýki hjá nýfæddu barni. Arfleif móður án gena til komandi kynslóðar.

Sjúkleg fíkn í hvítan sykur, er oftast undirrót offitunnar í byrjun og síðan þannig hinnar eiginlegu sykursýki. Íslendingar neyta meira af sykri en nokkur önnur Norðurlandaþjóð. Sumir segja hættulegt fíkniefni og sem finnst í miklu magni í sykruðum drykkjum í dag og unnum matvælum og sem skýrir  20% af allri sykurneyslu landans. Kenningar eru einnig um að sykurinn plati stöðugt heilann og auki á aðra matarfíkn. Jafnvel gervisykurinn einnig. Skerðing á óhóflegri sykurneyslu landans og sem er fimmföld miðað við ráðleggingar manneldisráða, ætti auðvitað að vera forgangsmál, ekki síst sem snýr að heilbrigði barna og unglinga. Markmiðið er auðvitað að unga fólkið fái ekki sjúkdóma gamla fólksins fyrir aldur fram.

Ofþungir ættu auðvitað að getað leitað eftir hjálp og stuðningi heilbrigðisstarfsfólks, því enginn er eins og samverkandi sálrænir erfiðleikar oft miklir. Líkamleg færni til hreyfingar er eins oft skert, en sem er lykilatriðið í þessu öllu saman. Um leið og „gengur“ aðeins betur, verður hugarfarið skýrara, lífsmeðvitundin betri og þyngdin minnkar. Lífsstílsbreyting sem síðan virkar samtímis jákvæð fyrir sálina, mataræðið og líkamann.

(byggt á eldri grein á blogginu mínu 2015 – Litlu skrefin telja mest)

 

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Íþróttir · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

Þriðjudagur 24.9.2024 - 13:27 - FB ummæli ()

Eru forvarnir gegn fyrirséðri hárri slysatíðni ekki lýðheilsumál á Íslandi?

Engin lýsing tilNúverandi innviðaráðherra og frambjóðandi til formanns VG, Svandís Svarsdóttir, hefur skipað starfshóp, án þátttöku heilbrigðisstarfsfólks, um stöðu virkra ferðamáta og smáfarartækja á Íslandi ásamt valkostum sem til staðar eru til að efla ferðamátana. Af þessu tilefni er rétt að huga að helstu lýðheilsumarkmiðum okkar og forðast að tala alltaf í kross eins og svo gjarnt er í pólitíkinni. Samgönguklúður í höfuðborginni sl. áratugi og sem ekki sést fyrir endann á, verður ekki og á ekki að leysa með stóraukinni slysatíðni vegfarenda. Stórbæta mætti hins vegar almenningssamgöngur strax með tíðari ferðum strætisvagna og forgangsakstursleiðum. Óvíða eru veðurskilyrði og færð fyrir hjólreiðafólk, hvað þá skútuknapa, verri í hinum vestræna heimi enn á Íslandi og sem oft gleymist í umræðunni.

Góð hreyfing er heilsunni jafn nauðsynleg og góð næring og svefn. Hjólreiðar eru vissulega góð hreyfing og sannarlega góð fyrir líkama og sál í flestum tilvikum. Hjólreiðar eins og þær eru stundaðar á höfuðborgarsvæðinu í dag eru engu að síður ein áhættumesta frístundin sem þú getur valið og um leið óöruggasti samgöngumátinn sé litið til slysaáhættu. Hjólreiðar er orðin ein algengasta orsök alvarlegra slysa í dag og sem flestir eru feimnir að ræða vegna ímyndarinnar um hinn heilbrigða lífstíl. Tilefni a.m.k. til hugleiðingar um besta lífstílinn sem við tileinkum okkur til að koma okkur í betra form og núvitundar. Eitt af megin markmiðum góðrar lýðheilsu á Íslandi.

Mikill áróður fyrir hjólreiðum án tillits til íslenskra aðstæðna, ræður sennilega mestu um háa slysatíðni hér á landi. Sárlega vantar þó nákvæmar tölfræðilegar upplýsingar um slysin og hér settar fram skoðanir sem fyrst og fremst eru hugleiðingar höfundar byggðar á áralangri reynslu sem læknir á Bráðamóttöku LSH. 

Lagðir hafa verið hjólastígar víða á síðustu árum, en sem jafnframt eru gjarnan göngustígar. Veðurfar, ísing, lausamöl og oft á annan hátt oft ófullkomnir fjölnota stígar. Sambland göngustíga og hjólreiðastíga eru augljóslega ekki hentugir til hraðaksturs hjóla og sem skapa áhættu jafnframt fyrir aðra vegfarendur. Jafnvel ungra barna í leik eða eldra fólks í göngutúr með t.d. hundana sína í taumi.

Sú venja virðist færast líka í vöxt að nota ekki bjölluna hér á höfuðborgarsvæðinu þegar aftan frá er komið á mikilli ferð til að fipa ekki vegfarandann fyrir framan og sá taki ekki óvænt hliðarspor. Að betra sé að þjóta bara framhjá. Hættuminnst sem sagt að taka bara sénsinn! Rafreiðhjólin gefa eins óvanari reiðhjólamanni tækifæri að fara hraðar en aðstæður annars leyfðu. Sprenging hefur verið í sölu á slíkum reiðhjólum sl. misseri. Fallþunginn og afleiðingar áreksturs er miklu meiri á slíku farartæki og sem vegur oft helmingi meira en venjulegt reiðhjól. Eins þeim mun mikilvægara að bremsur og öryggisþættir hjólsins sjálfs séu ávalt í góðu lagi.

Mörg fyrirtæki hvetja starfsmenn sína engu að síður til að hjóla í vinnuna. Heilsunnar vegna á umhverfisvænan máta og til að létta á bílaumferðarþunganum gegnum miðborgina. Jafnvel sem hið opinbera áætlar í framtíðaruppbyggingaáformum á nýju þjóðarsjúkrahúsi, stærsta vinnustað landsins. Markmiðið er að meirihluti starfsmanna hjóli eða gangi í vinnuna!!

Ef slys eru reiknuð inn í almennu heilsumarkmiðin okkar og sem sjálfsagt er að gera, að þá kann ýmsum að bregða í brún. Ekki síst samanborið við annan ferðamáta með almenningssamgöngum eða í einkabílnum því margfallt fleiri (40-60 sinnum) slasast alvarlega á reiðhjóli samanborið við akstur í bíl á höfuðborgarsvæðinu. Eftir á að telja öll slysin tengt rafskútaferðum í dag.

Flesta daga koma nokkrir slasaðir á BMT LSH, einkum yfir sumarmánuði, margir með sjúkrabíl af slysavettvangi, aðrir á eigin vegum. Oftast eru áverkar eftir hjólaslysin, fall eða árekstur, þá ljót sár á höfði eða andliti og brot hverskonar þar sem rifbrot, axlar- og viðbeinsbrot og önnur útlimabrot eru algengust. Útiloka þarf í byrjun alvarlegustu áverkana áður en sár eru hreinsuð og saumuð. Sum beinbrotanna kalla á skurðaðgerðir. Heilaáverkarnir eru oftast sem betur betur “aðeins slæmur heilahristingur”, þökk sé reiðhjólahjálmunum í flestum tilvikum og sem verja nokkuð vel það viðkvæmasta, heilann í okkur. Fátt hlífir mænunni nema sjálf hryggsúlan og sem stundum brotnar.

Sumir hljóta líka alvarlega innvortis áverka, loftbrjóst tengt rifbrotum og innvortis blæðingar tengt t.d. drofi á milta eða lifur. Sumir slasaðir ná sér aldrei til fulls og sitja uppi með varanlegan skaða og verri almenna heilsu í kjölfarið. Miklu verri heilsu en þegar af stað var farið í hjólatúrinn „góða“ upphaflega.

Alvarlegir áverkar og þá auðvitað undanskildar vægar tognanir í háls og baki, eru sjaldséðir áverkar eftir bifreiðaárekstra hverskonar í borgarumferðinni. Þökk sé öruggum bílum og bílbeltunum ásamt loftpúðunum. Áverkar sem eru þó vel skráðir vegna bótaskyldu tryggingafélaga og vegna lögregluskýrslugerðar sem misfarast oft í venjulegum hjólaslysum og einn á í hlut. Sennilega skipta reiðhjólaslysin sem leitað er með til BMT og heilsugæslu, þúsundum á ári hverju. Minnstu hjólaslysin skila sér hins vegar ekki til læknis eins og gefur að skilja, þ.á.m. vægari höfuðhögg barna sem samt geta haft alvarlegar afleiðingar. Hlutfallslega miðað við akstur í bíl er slysaáhættan á reiðhjóli sennilega a.m.k. hundraðföld.

Vissulega eru hjólreiðar góðar fyrir líkamlega heilsu þegar allt gengur vel. Hreyfingaleysi er enda mikið tengt lífstílssjúkdómunum svokölluðum. Ofþyngd, sykursýki, æðakölkun, hjarta- og heilablóðföllunum svo það helsta sé nefnt, jafnvel sem óbein áhætta á að þróa með sér krabbamein. Önnur hreyfing en hjólreiðar við vafasamar aðstæður getur auðvitað komið að miklu gagni. Tímaleysi og umferðaröngþveiti er hins vegar mikil undirliggjandi ógn í nútíma þjóðfélagi og þar sem margir hjólreiðamenn sjá sér leik á borði til að snúa á. Og vissulega er útiveran hressandi og afslappandi á margan hátt. En hvað með aðra hættuminni hreyfingu eins og t.d. bara göngur, hlaup og sund sem taka oft aðeins meiri tíma. Eða ástund flesta annarra íþrótta almennt þar sem hjólreiðar eru einna áhættusamastar allra. Eðlisfræðin með sínum fallhraða og þunga er auðvitað aldrei undanskilin þegar um áverka er að ræða og sérstaklega þar sem hausinn er of fyrstur að skella niður í jörðina eða á aðskotahluti sem á vegi hans verður.

Umræðan um árið þegar sumir mæltust til að lögleiða hjálmanotkun litaðist á eftirminnilegan hátt hins vegar í afneitun margra hjólreiðakappa og jafnvel í samtökum þeirra. Að verið væri að stilla upp hjólreiðum sem hættulegri athöfn sem drægi úr áhuga. Lögleiðing reiðhjálma er engu að síður staðreynd hvað börnin varðar og sem talar sínu máli og ekki bara frauðplastkubbur á haus eins og sumir hafa sagt, jafnvel fyrrverandi þingmaður Viðreisnar. Þá heyrðust líka raddir að hjálmar gæfu falkst öryggi. T.d. gefið bílstjórum vísbendingu að hjólreiðarmaðurinn væri betur varinn en hann í rauninni er og að ekki þyrfti að taka jafn mikið tillit til hans í umferðinni svo sem við framúrakstur. Í raun svipuð ómarkviss rök og þegar sumir reiðhjólamenn sem fara geyst vilja ekki trufla gangandi eða aðra hjólandi vegfarendur á göngustígnum með bjölluhringingu á síðustu stundu. Ofuráherslur á hjálmanotkun og bjölluhringingar skemmi ímyndina á hinni heilsusamlegu hjólreiðum!

Hjólreiðar við góðar og öruggar aðstæður og þegar hjólið sjálft er eins örugg og verða má og slysahættan í lágmarki, er flestum til gagns og skemmtunar. Ef aðstæður eru slæmar, öryggisþáttum ábótavant eða að hjólreiðamaðurinn sé mest í kappi við sjálfan tímann, geta hjólreiðar verið stórhættulegar og sem við sjáum því miður nú tengt samgönguáætlunum í Reykjavík og nágrennis. Hjólreiðamanninum sjálfum og öðrum saklausum vegfarendum sem á veigi hans kann að verða þá oft til skaða. (endurskrifuð grein frá 2018 á blogginu mínu)

Á annað þúsund misalvarleg reiðhjólaslys á ári

1000 íslendinga nýjum faraldri að bráð

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Íþróttir · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag · útivist

Föstudagur 13.9.2024 - 18:04 - FB ummæli ()

Bygging Landspítala í aldarspeglinum

Jæja, eftir 4-5 ár verður kannski hægt að opna nýja bráðamóttöku á Hringbraut, margfallt stærri en sem nú er í Fossvogi (nýja Meðferðarkjarnanum á Hringbraut). Hinsvegar með fyrirséðum miklum aðgangshindrunum fyrir sjúkrabíla og sennilega enga góða aðstöðu fyrir sjúkraþyrluflug, að spítalanum!! Nú fer Hringbrautarvitleysan virkilega að fá á sig lokamynd og sem kosta mun hátt í 400 milljarða króna. Með besta staðarvali hefði mátt lækka kostnaðinn á nýju og fullkomnu þjóðarsjúkrahúsi um amk. helming sem og byggingartímanum og sem væri þá tilbúinn í dag (sem Samtöku um besta spítala á besta stað, SBSBS voru lengi búin að benda á). Með góðu aðgengi fyrir alla íbúa á stór-höfuðborgarsvæðinu, ekki bara miðborg Reykjavíkurborgar. T.d. á Keldnalandinu og sem ríkið átti og seldi síðar Reykjavíkurborg.

Að óbreyttu mun sjúkrarýmum ekki fjölga og því nýjar hugmyndir nú á síðustu metrunum að reka bara gamla Borgarspítalann áfram. Eftir þá umfangsmiklar endurbætur og kostnað. Það þurfti auðvitað alltaf að fjölga sjúkrarýmum -hvað annað?

Í upphafi var lagt í vegferðina með EITT nýtt stórt fullkomið þjóðarsjúkrahús, 2008 og reiknaðri rekstrarlegri hagræðingu með því að sameina sjúkrahúsin þrjú í Reykjavík og St. Jósepspítala í Hafnarfirði upp á 6-8 milljarða króna á ári á núvirði. Þessi hagræðingakrafa er því löngu fyrir bí og fyrirséð mikil vöntun vöntun á sjúkrarýmum næstu áratugina.

Hugmyndir hafa því þegar vaknað um nýtt héraðssjúkrahús í Reykjavík, á gamla Borgarspítalanum í Fossvogi og sem alltaf var hugmyndin þegar hann var upphaflega byggður á sjöunda áratug síðustu aldar!!  Nei, það er svo sannarlega satt, að ekki er öll vitleysan eins í íslensku stjórnsýslunni.

Það tók tæplega 30 ár að byggja gamla Landspítalann á Hringbraut (1900-1930) og sem þá var besta staðsetningin í höfuðborginni. Fjársvelti var meðal annars um að kenna, enn eins framkvæmdabyggingahraða eins og var á þeim tíma. Nýi Landspítalinn (1 áfangi, Meðferðarkjarni og Rannsóknahús) á sömu lóð tæpri öld síðar á sömu lóð mun taka um 20 ár (2010-2030) með nútíma tækni og ríflegum fjárveitingum ár hvert. Það tók tvö til þrjú ár að komast bara niður úr Hringbrautarklöppinni sjálfri.
Mikill meirihluti íbúa höðuðborgarsvæðisins búa hins vegnar nú langt fyri austan og norðan við spítalann (ólíkt því sem var þegar gamli Landspítalinn var byggður), þrátt fyrir mikla þéttingu á byggð í miðbænum og nágrenni og sem mörgum finnst nóg um. Miklar aðgangshindranir þegar augljósar og versna stöðugt. Ein af meginforsendum staðarvalsins á Hringbraut á sínum tíma voru jú samgöngubætur ÁÐUR en framkvæmdir hæfust, EKKI ÁRATUGUM Á EFTIR.
Eru stjórnmálamennirnir í dag virkilega svona huglausir miðað við forvera sína fyrir rúmlega öld síðan og sem forgangsröðuðu alltaf fyrst og fremst í þágu almannaheilla? Erum við ekki að tala um stærstu of dýrustu skipulagsmistök Íslandsögunnar?

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál

Laugardagur 7.9.2024 - 18:12 - FB ummæli ()

Saga sem má helst ekki segja um íslenska heilbrigðiskerfið!

Engin lýsing til

Akraneshöfn í morgun

Læknisstarfið mitt hefur tekið ýmsum breytingum í áranna rás. Á lokakafla starfsferils er fróðlegt að líta um öxl. Í sjálfu sér hefði ég ekki getað kosið betra lífsstarf og þakklátur fyrir mín tækifæri. Starfsgleðina eining sem nær langt út fyrir venjulegan vinnutíma. En hvernig getur atvinna heltekið mann? Jú, vinna með fólki sem sýnir þakkæti og endurgjöf frá skjólstæðingum í lífsins ólgu sjó. Mikil mannleg og félagsleg tengsl, sem ristir í djúpt rætur mannlífs og þjóðfélagsins. Á stöðum þar sem þjóðarhjartað slær jafnvel oft hraðast.

Eftir doktorsnáms í heilsugæslu- og smitsjúkdómafræðum 2006 var ég klínískur dósent við Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Sat síðan um árabil í Sóttvarnaráði Íslands. Á þessum grunni öllum, starfi í heilsugæslu á höfuðborgarsvæðinu og úti á landi ásamt BMT LSH í tæpa hálf öld vil ég eins og oft áður benda á þær miklu brotalamir sem ég sé í þróun heilbrigðisþjónustunnar sl. áratugi. Vinnuforgangsröðun og skipulagi og sem stjórnendur hampa gjarna og segja að tengist þróun til betri vegar. Enn er það svo?

Að mínu mati hefur aðgengi að venjulegri heilbrigðisþjónustu stöðugt versnað. Aukin áhersla hefur verið á vaktþjónustur hverskonar sem víða er mjög undirmannaðar. Starfsemi BMT LSH og vaktþjónustunnar víða úti á landi eru augljósustu dæmin. Unglæknar látnir stöðugt bera meiri birgðar, oft reynslulitlir. Grunnþjónustu í almennri bráðaþjónustu slasaðra og veikra jafnvel úthýst og sem enginn veit lengur hvar á sinna. Gamla góða Slysadeildin klofin í herðar niður og ungu bráðalæknarnir vilja helst bara sinna bráða- og endurlífgunarherberginu og að fá að forgangsraða innlagnasjúklingum á aðrar spítaladeildir. Endurkomur bannorð í þeirra huga á deildinni og sem aðrir eiga að sinna!

Hvernig má þetta vera? Skýringa má mestmegnis finna hjá æðstu stjórnendum og sem vilja stýra stofnunum fyrst og fremst á rekstrarlegum forsemdum og að erlendri fyrirmynd stórþjóða. Millistjórnendur spila með til að komast ofar í goggunarröðina. Álit starfsmannanna á gólfinu skiptir minnstu og helst að brugðist sé að einhverju leiti við hjá stjórnmálmönnum og fréttamiðlum ef um hópuppsagnir er að ræða. Tengt starfsálagi, skipulagsleysi á göngum og áhættu á lögsóknum vegna mistaka hverskonar. Byggingaráformum samt fyrir nýtt þjóðarsjúkrahús flaggað á hátíðisdögum, en sem margir telja samt eitt mesta skipulagsslys sl. aldar með tilliti til staðsetningar, atvinnuumhverfis og rekstrarhagkvæmni. Við byggjum ekki gott íslenskt heilbrigðiskerfi bara úr steypu og járni.

Aldrei meira en í dag hef ég séð jafn sundurlausa og slitna heilbrigðisþjónustu sem stöðugt hallar undan. Mín sýn og mín reynsla. Þrátt fyrir óendanlegan starfsvilja og reynslu að gera sjálfur mitt besta og þar sem mér er eingöngu umbunað með þakklæti sjúklinganna sjálfra, ekki stofnanna eða yfirvalda sem vilja minnst af mínum skoðunum vita.

Í dag hafa læknavísindin vissulega náð mjög langt á ýmsum sviðum með hjálp hátækninnar. Miklu meira vitað um allt hið smáa. Lyfjameðferðir hverskonar og lengt líf margra um áratugi miðað við sem áður var og flóknar skurðframkvæmdir framkvæmdar. Hins vegar eru oflækningar oft til umræðu sem stefna jafnvel því mikilvægasta og lýðheilsunni í hættu. Ofnotkun sýklalyfja meðal manna og ekkert síður notkun sýklalyfja í landbúnaði víða erlendis. Þar sem lyfin eru farin að gera meira ógagn en gagn fyrir heilsu manna og dýra.

Menn gerðu mikið úr litu hér áður fyrr, en nú stundum öfugt. Markaðshyggjan ræður oft framboði á læknisþjónustu hverskonar. Jafnvel farið að bjóða upp á sneiðmyndatökur af öllum líkamanum án tilvísunar frá læknum sem getur skapað meira tjón í sjúkdómahræðslu og ofmeðhöndlun. Því meira sem ég kynni mér sögu og afrek læknisfræðinnar, því meira verð ég hissa á stöðu almennu læknisfræðinnar í dag. Heilsugæslustöðvar víða illa mannaðar læknum, jafnvel á sjálfu höfuðborgarsvæðinu og vaktsvæði stækkuð og sameinuð undir einn hatt. Fjölskyldusjónarmiðin góðu sem Félag íslenskra heimilislækna (FÍH) settu í sína stefnumótun 1994 hefur verið erfitt að framfylgja í þjóðfélaginu af ýmslum ástæðum, ekki síst vegna vanmönnunar í heilbrigðiskerfinu. Geðheilsunni sífellt verr sinnt, ekki síst hjá ungu fólki. Öldrunarþjónustan sömuleiðis.

Öryggi sjúklinga og slasaðra er sífellt stefnt í meiri hættu. Umferðarþungi um landsbyggðirnar aldrei meiri. Sjúkraflutningar hanga víða á bláþræði og langar vegalengdir að fara milli landhluta og þar sem læknisþjónusta er yfir höfuð til boða. Þyrluþjónusta LHG byggir á veikum þyrlukosti, þar sem ekkert má út af bregða. Sú þjónusta auk björgunarsveita víða um land hafa samt oft bjargað því bjargað varð. Sjúkraflutningar með sjúkraflugi hins vegar nú miklu takmarkaðri í dag vegna færri nothæfra flugvalla. Aðkoma sjúkraflutninga auk sjúkra og þyrluflugs til höfuðborgarinnar og Nýj Landspítalans í fullkominni óvissu!

Almenningur er í veikri stöðu og neyðarópin oft sem í óbyggðum væri. Stjórnmálamenn eru lélegir boðberar slæmra tíðinda hvað stjórnsýsluna varðar og oft meira eins og varðhundar kerfisins. Hagmunaárekstrar liggja víða og ekki má bregðast bræðrasamkomulagi flokka á milli. Fjölmiðlar auk þess oft eins og í vösum þeirra. Sagan því ekki alltaf öll sögð, saga sem samt mestu máli skiptir fyrir okkar almenna öryggi til framtíðar og mest má læra af. Furðulegt í ljósi þess hve stórkostleg saga læknisfræðinnar síðustu alda annars er. (byggt á eldri grein fyrir 2 árum – Saga sem er ekki öll sögð.)

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Stjórnmál og samfélag

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn