Fimmtudagur 13.02.2014 - 08:45 - 5 ummæli

Hinn daglegi geðþótti

Gaman að Mogganum. Í gær hélt hann því fram í leiðara að lekinn í innanríkisráðuneytinu væri algerlega sjálfsögð þjónusta við almenning – til þess að allir vissu hverskonar „pappírar“ ætluðu að „ganga í eina sæng“ með sjálfri íslensku þjóðinni.

Í dag finna Staksteinar út að matvælaráðherrann hafi bara verið að sussa á eyðublaðaútfyllingarfíkla í opinberum stofnunum þegar hann leyfði hvalamjölsbjórinn. Ráðherra megi almennt gera það sem honum sýnist ef honum sýnist rétt að gera það sem honum sýnist. Og í bjórmálinu hafi geðþóttaákvörðun ráðherrans verið ívilnandi en ekki íþyngjandi. Það sé aðalatriðið.

Ívilnandi fyrir hvern?

Ívilnandi auðvitað fyrir blessaða kallana í Borgarnesi sem settu mjölið á markað án þess að hafa fyrir því að tékka á að innihaldið væri í samræmi við grundvallarreglur um matvöruframleiðslu á Íslandi. Ívilnandi fyrir fyrirtækið Hval hf. sem reiddi fram fimm ára gamalt mjöl af óljósum uppruna til að vera með í PR-fiffi.

Íþyngjandi fyrir hvern?

Íþyngjandi fyrir íslenska neytendur sem halda að þeir njóti lágmarksörygggis þegar þeir kaupa inn – jafnvel bjór – vegna þess að við borgum hluta af skattinum okkar til þess að fagstofnanir á borð við heilbrigðiseftirlit sveitarfélaganna og Matvælastofnunin vinni vinnuna sína.

Umfram þetta er svo ekki vogandi að vera ósammála ritstjóra Morgunblaðsins um ívilnandi geðþótta og íþyngjandi geðþótta.

Flokkar: Menning og listir

«
»

Ummæli (5)

  • Emil Schuman

    Það er svosem ekkert nýtt að Ísland er plútókratískt þjóðfélag, það var bara betur falið hér áðurfyrr með fjölmiðla undir hælnum á flokksmaskínum. Í dag eru margir ráðherrar haldnir fasískri hitasótt að auki og óhræddir að láta vaða. Verði fólki að góðu.

  • Guðný Ármannsdóttir

    Mér segir svo hugur að klóninn hafi sjálfur komið færandi hendi með minnisblaðið til gúrúsins. Því reynir gúrúinn að réttlæta

  • Lekamálið er í lögreglurannsókn góðu heilli. Það verður að upplýsa málið. Innanríkisráðherra hvorki getur né vill vera með getgátur um lekann. Það væri freklegt inngrip í málsmeðferðina. Þess vegna kýs ráðherrann nú um stundir að byggja vörnina á því að hún hafi hreinan skjöld í málinu og að málið sé orðið pólitísks eðlis og hafi í raun ekkert með málefni hælisleitenda að gera.
    En eftir umræðuna síðustu dagana, ekki síst í þinginu er eitt að verða öllum ljóst. Mörður Árnason gegnir þar lykilhlutverki og hafið yfir vafa, að hann er í nánum tengslum við þann aðila sem lak minnisblaðinu til fjölmiðla.
    Lögreglurannsóknin hlýtur því að beinast ekki síst að Merði Árnasyni og kunna þá mál að skýrast. Það verður að upplýsa málið.

  • Haukur Kristinsson

    Davíð Oddsson hefði gott af því að fara í læri til Björns J. Þorlákssonar, ritstjóra Akureyrar vikublaðs.
    Læra að hugsa eins og maður, læra að skrifa eins og maður.

    Annars ætti þessi þröngsýni vandræðagemlingur að halda sig til hlés. Þjóðin er búin að fá upp í kok af þessum manni. Upp í kok.

  • Tel að lekamálið sé venjulegt klúður sem samflokksmenn notfæra sér af kostgæfni með hjálp Hádegismóra.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af núlli og tveimur? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur