Miðvikudagur 07.09.2016 - 17:19 - 2 ummæli

Helgi Hjörvar

Ég kýs Helga Hjörvar í prófkjörinu núna um helgina. Ég vil að hann fái tækifæri til að nýta forustuhæfileika sína og ýmsar gáfur okkur jafnaðarmönnum og öllum almenningi til gagns, og ég vil að hann verði ráðherra – í ríkisstjórn frjálslyndra og vinstrimanna. Það er sérkennilegt með Helga að maður getur ímyndað sér hann alstaðar á vellinum – menntamálaráðherra, velferðarráðherra, atvinnumálaráðherra, umhverfisráðherra … Væri líklega bestur sem líberó í boltanum. Sem sýnir auðvitað reynslu og færni en líka að hann er fljótur að koma í verk hugsjónum og hugmyndum.

Ég geri það sem mér sýnist skynsamlegt, sagði hann einusinni þegar hann lét ekki eftir mér að leggjast á árarnar þangað sem ég vildi. Ég var fúll útí Helga á eftir – þangað til ég sá að það reyndist vera skynsamlegt sem honum sýndist skynsamlegt og hafði hugrekki til að taka mark á. Þar með er ekki sagt að hann sé tilfinningalaus sem alltof lengi hefur átt að vera pólitíkusum til hróss. Glíma hans við erfiða fötlun hefur bæði þroskað hann og eflt í honum  þá samkennd sem er grundvallarforsendan í liberté égalité fraternité.

Sannarlega kjósum við ýmsa aðra – margt spennandi ungt fólk í boði – og svo til dæmis Magga Tryggva í Kraganum að öðrum ólöstuðum, nýjum og gömlum. Það skiptir miklu máli að velja í forustusveitina fólk sem getur – tekið skynsamlegar ákvarðanir, og kann – að bregðast við nýjum aðstæðum án þess að gleyma glóðinni í hjartanu.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (2)

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og átta? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur