Mánudagur 24.10.2016 - 23:52 - 7 ummæli

Límið í umbótastjórninni

Mér finnst kosningabaráttan hafa fengið annan svip eftir að Píratar buðu til viðræðna um málefnaáherslur nýrrar ríkisstjórnar – sem nú er farið að kalla umbótastjórnina – og verð var við að fólk er glatt og hefur fengið nýja von og markmið eftir langa pólitíska þreytu.

Samfylkingarformennirnir Oddný og Logi komu daginn eftir að hitta Birgittu og kó, og svo VG eftir ofurlítið hik og BF líka, lokið er tveimur fundum á Lækjarbrekku og sá þriðji eftir núna á fimmtudag fyrir kosningar. Einsdæmi í stjórnmálasögunni – og Viðreisn fylgist vel með. Þá verður líka að rifja upp að samstarf þessara afla í stjórnandstöðunni á þingi í fjögur skrýtin ár hefur verið harla gott. Ekki síður að væntanlegt samstarf í stjórnarráðinu á sér fyrirmynd í meirihlutanum í ráðhúsi Reykjavíkur þar sem fólk úr sömu fylkingum siglir góðan byr með Dag B. Eggertsson við stýrið.

Við skulum vona að þetta gangi eftir – að framboðin fái þann meirihluta sem til þarf, og BD-liðið þær kveðjur sem það á skilið. Viðræðurnar núna merkja – mikilvægast! – að S-V-A-P hafa skuldbundið sig siðferðilega til að ræða saman í algjörri alvöru daginn eftir kosningarnar ef meirihluti er fyrir hendi.

Það þarf djörfung til að taka frumkvæði af þessu tagi – takk Píratar. Það þarf líka reynslu, hyggindi, eldmóð til að mynda slíka stjórn, og allra helst til að halda henni saman sem liði í gegnum stórsjóina sem alltaf fylgja raunverulegum breytingum – sem eru gerðar á vegum almennings en ekki fyrir sérhagsmunapotarana og forréttindastéttina.

Að vera með í umbótastjórninni

Mitt framlag til umbótastjórnarinnar verður að kjósa Samfylkinguna. Það kemur kannski ekki á óvart – en eftir viðræðufréttirnar geri ég það með stolti og án nokkurs fyrirvara. Mínir jafnaðarmenn hafa einmitt þá reynslu og hyggindi, og eldmóð, sem til þarf þegar á brattan er að sækja, góður blandaður kór af körlum og konum, ungu hugsjónafólki og reynsluboltum, í samhengi sögulega og alþjóðlega.

Þá liggja stefnur og straumar líka þannig á þessari væntanlegu siglingu að hreyfing jafnaðarmanna hefur málefnaskörun við öll hin framboðin talsvert umfram samhljóm þeirra á milli. Skoði menn sjálfir þau mál sem geta orðið viðkvæm í þessu stjórnarmunstri – með Viðreisn eða án – og alstaðar er S í miðjunni, á sér samræðuflöt við alla hina flokkana og getur orðið miðlari mála þegar fer að hitna í kolunum. Hún getur gefið nýju stjórninni hinn stefnulega kjarna, og myndað límið sem þarf í samstarfið.

Menn kjósa auðvitað hver og einn eftir sinni íhugun og tilfinningum, líðan og skapi, tilhlökkun og vonbrigðum, trúnaði við frambjóðendur og flokka, og svo sókninni í annað (… að komast burt, Rimbaud …). Jafnaðarmenn, ljósir og leyndir, sem vilja framar öðru styrkja komandi umbótastjórn – það gera þeir best og mest með því að kjósa Samfylkinguna.

Flokkar: Óflokkað
Efnisorð: , ,

«
»

Ummæli (7)

  • Elín Sigurðardóttir

    Umbætur? Erum við ekki að tala um milljarðaskaðabætur? Ég get vel ímyndað mér að einhverjir bindi vonir við þessa stjórn. Ekki almenningur samt.

    http://www.visir.is/segir-innkollun-drekaleyfa-thyda-milljardaskadabaetur/article/2016161019327

  • Mörður Árnason

    Heiðar Guðjónsson forstjóri olíuævintýrisfyrirtækisins Eykons er hafður fyrir þessum milljörðum núna rétt fyrir kosningar. Við skulum bara vera sallaróleg, ágæta Elín, og sjá til hvað verður í alvörunni. Ef við ætlum að standa okkur í loftslagsmálum (áttu börn eða barnabörn?) er ekki trúverðugt að græða á olíu. Fyrir utan mengunarhættuna.

  • Kristinn J

    Ég er mjög efins: Að kjósa Samfó er að kasta allkvæði sínu í glæ, sérstaklega þar sem Samfó mun ekki ná 5% allkvæða,, er í raun steindautt flokks-form.

    Að kjósa Samfó er því óbeint á kjósa helv. Sjálftökuflokinn Sjálfstæðis og spillinga hækjunar Framsókn.

    Piratar eru líka margir hverjir heitir vinstri socialistar og vara munur á þeim og komma-tittum

    Kanske er bara best að mæta ekki á kjörstað ;

  • Mörður finnst þér ekki dálítið kómískt að þið eruð að tala um að afturkalla leyfi sem þið gáfuð sjálf í kampavínsveislu með olíufurstunum?

  • Elín Sigurðardóttir

    Já ég á börn. Við veittum ekki þessi leyfi. Alger óþarfi að messa yfir okkur.

  • Ertu að tala um Vinstristjórnina?

  • Þó þig langi svona mikið, Mörður, verður þetta ekki kölluð umbótastjórnin. Mögulega kollvörpunarstjórnin. Jafnvel rústunarstjórnin.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af einum og þremur? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur