Fimmtudagur 25.1.2018 - 10:54 - 2 ummæli

Auðlind á silfurfati

Þorskstofninn hefur aldrei mælst stærri en við síðustu mælingar Hafrannsóknarstofnunar. Það verður því að teljast afar líklegt að tillaga um viðbótarkvóta komi fram fyrir næsta og næstu fiskveiðiár líkt og fyrir það síðasta, enda hefur kvótinn nærri tvöfaldast síðustu 10 fiskveiðiár með lakari þorskstofn að meðaltali en nú mælist, farið úr 130 þúsund tonnum í 258 þúsund tonn. Þorskkvótinn hefur verið aukinn á þremur síðustu fiskveiðiárum um samtals 40 þúsund tonn. Hann var aukinn á þar síðasta fiskveiðiári um 21 þús. tonn, á síðasta fiskveiðiári um 5 þús. tonn og á yfirstandandi fiskveiðiári um 14 þús. tonn. Mælingar Hafrannsóknastofnunar benda eindregið til að kvótinn verði enn aukinn á næstu fiskveiðiárum.

Gjöf frá þjóðinni?
Ef lögum um fiskveiðistjórnun verður ekki breytt á næstu vikum verður viðbótarkvótanum skipt á milli núverandi kvótaeigenda á næsta fiskveiðiári eins og þeim fyrri. Alþingi á að sjálfsögðu að stöðva þann gjafagjörning. Ég er fyrsti flutningsmaður frumvarps um það en meðflutningsmenn eru þingflokkar Samfylkingarinnar og Pírata. Alþingi ætti að lögleiða réttlátari meðferð fiskveiðiauðlindarinnar fyrir hönd eigenda hennar sem allra fyrst. Í það minnsta ætti að stöðva áform ríkisstjórnarinnar um að færa viðbótarkvóta útgerðinni á silfurfati.

Með útboði á viðbótarkvóta fengist verðmæt reynsla af útboðsleiðinni sem gæti nýst vel í ákvörðunum sem óhjákvæmilega þarf að taka um framtíðarskipan fiskveiðistjórnunarkerfisins. Með reglum um útboð væri mögulegt að auðvelda aðkomu útgerða frá viðkvæmari svæðum landsins, stuðla að nýliðun og vinna gegn samþjöppun aflaheimilda.

Ef tækifærið er ekki nýtt verður það útboð sem fyrir er á kvóta styrkt enn frekar, þ.e.a.s. útboð sem nú er í höndum útgerðarinnar sjálfrar. Á þeim útboðsmarkaði fór kílóið af þorski á 170 kr. í haust á meðan að aðeins 22,98 kr. renna til ríkissjóðs í formi veiðigjalds. Skólar og heilbrigðisstofnanir eru á sama tíma í rekstrarvanda vegna fjárskorts og vegirnir að molna undan okkur.

Almenningur hlýtur að krefja stjórnvöld svara við því hvers vegna þau vilja frekar færa útgerðinni viðbótarkvóta á spottprís heldur en að fá fyrir hann markaðsverð og láta tekjurnar renna til velferðarþjónustunnar í landinu.

Greinin birtist fyrst í landshlutablaðinu Suður og slóðin á blaðið er hér: http://fotspor.is/wordpress/wp-content/uploads/2018/01/sudur@_001-016_web.pdf

 

 

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 25.9.2017 - 12:40 - Rita ummæli

Góðærið til allra

Ástæðan fyrir stjórnarslitunum var ekki fjárlagafrumvarpið og forgangsröðun í tekjuöflun og útgjöldum ríkisins. Ástæðan var ekki svik á kosningaloforðunum. Ekki fjármálaáætlanir ríkisstjórnarinnar um samdrátt í sjúkrahús- og heilbrigðisþjónustu, ekki bág kjör þeirra sem verst standa, ekki skólarnir og ekki húsnæðisvandinn og þá ekki slæmir vegir, fjársvelt lögregla eða krafan sem ekki hefur verið svarað um auðlindir í þjóðareign og nýju stjórnarskrána. Stjórnarflokkarnir voru sammála um að taka ekki á þessum stóru hagsmunamálum almennings. Það var staðfest með fjárlagafrumvarpinu og fjármálaáætluninni þeirra til næstu fimm ára.

Með stjórnarslitunum gefst kjósendum óvænt og gott tækifæri til að kjósa að nýju og nú flokka sem eru með hjartað á réttum stað og vilja til að taka á stærstu hagsmunamálum almennings. Samfylkingin vill að fyrst verði ráðist í að leysa bráðavanda og gera langtímaáætlanir um betra velferðarsamfélag. Það þarf að byrja á þessu:

 • Ráðast á húsnæðisvandann með byggingu þúsunda íbúða sem leigðar verða út án gróðrasjónarmiða og með möguleikum á kaupleigu.
 • Styrkja heilbrigðisþjónustu í opinberum rekstri. Taka markviss skref í átt að ókeypis heilbrigðisþjónustu fyrir alla og niðurgreiða tannlækningar aldraðra og öryrkja strax.
 • Styrkja menntakerfið til að taka við nýjum áskorunum.
 • Bæta kjör öryrkja og einfalda útreikninga á lífeyri. Hækka frítekjumark lífeyris og byggja fleiri hjúkrunarrými.
 • Laga vegi og efla lögregluna.
 • Gera réttlátar breytingar á skattkerfinu, auka stuðning við ungt fólk og barnafjölskyldur og setja réttláta auðlindastefnu.
 • Ljúka heildarendurskoðun á stjórnarskrá, virða þjóðaratkvæðagreiðslur og leyfa þjóðinni að ráða hvort haldið verði áfram með samningaviðræður við ESB.

Þetta er allt hægt og við höfum efni á því. Allir eiga að njóta góðærisins!

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 1.9.2017 - 08:43 - 2 ummæli

Börn og jöfnuður

Það er þjóðarskömm að þúsundir barna á Íslandi geti ekki tekið þátt í félagsstörfum og íþróttastarfi vegna þess að foreldrarnir eiga ekki peninga nema rétt fyrir fæði, klæði og húsnæði. Börn í þessari stöðu tengjast oft ekki jafnöldrum sínum og skólafélögum félagslega, verða út undan og eru vansæl. Og tónlistarnám á Íslandi er nánast einungis fyrir börn tekjuhárra foreldra og því verður að breyta.

Bestu skólakerfi heims eru þau sem leggja áherslu á jöfnuð þannig að félagsleg og fjárhagsleg staða nemenda hefur ekki áhrif á möguleika þeirra til góðrar menntunar. Til að vinna að árangursríku skólastarfi þarf að tryggja öllum nemendum jöfn tækifæri. Bakgrunnur nemenda, þ.e. viðhorf foreldra til menntunar og væntingar þeirra til barna sinna skipta miklu máli fyrir námsárangur. Skólinn þarf að koma ákveðið til móts við nemendur, hvetja þá, styðja og örva, eins og kostur er ef foreldrar standa ekki nægilega með þeim eða geta það ekki einhverra hluta vegna.

Skólinn skiptir máli

Í öllum skólum ætti leiðarljósið að vera jöfnuður og umburðarlyndi og huga jafnt að góðum árangri og vellíðan barna. Virkt samstarf kennara innan skóla og á milli skóla stuðlar að bættum árangri. Að menntun hvers barns, koma margir kennarar og starfsmenn skóla, allt frá leikskóla til framhaldsskóla. Öll umræða um að árangurstengja laun kennara er því á algerum villigötum og án nokkurra raka. Tryggjum öllum kennurum góð laun og sýnum störfum þeirra með börnunum okkar virðingu. Ýtum frekar undir samstarf um gott og árangursríkt skólastarf og faglegan metnað en að hlusta á bull nýfrjálshyggjufólks um yfirburði einkarekstrar og samkeppni um fjármagn innan skóla og á milli þeirra.

Forgangsröðun stjórnvalda hvort sem er ríkisins eða sveitarfélaga skiptir börnin miklu máli, þ.e. að málefnum barna og ungra fjölskyldna sé raðað framar. Staða barna efnaminni fjölskyldna er óásættanleg. Við erum rík þjóð og eigum að jafna lífsgæði allra barna. Það er hægt og við höfum efni á því!

Greinin birtist fyrst í héraðsblaðinu Suðra 31. ágúst 2017.

 

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 5.7.2017 - 12:17 - 2 ummæli

Barnabætur eða fátækrastyrkur

Barnabætur hér á landi eru nú nánast eins og styrkur til fátækra og mjög ólíkar barnabótum hinna Norðurlandanna. Meginmarkmið ríkisstjórnarinnar, samkvæmt nýrri fjármálaáætlun, er að barnabætur verði eingöngu stuðningur við tekjulægstu fjölskyldurnar. Farið er eftir tillögum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um endurskoðun barnabótakerfisins. Sjóðurinn ráðleggur ríkisstjórninni að einfalda kerfið og beina greiðslum til lágtekjuheimila með hærra skerðingarhlutfalli miðað við laun. Einnig leggur sjóðurinn til að einstæðir foreldrar fái ekki hærri greiðslur en sambýlisfólk. Þannig verði einungis greidd ein föst fjárhæð fyrir börn undir 18 ára aldri og aldrei með fleiri börnum en þremur. Þetta þekkist hvergi á Norðurlöndunum.

Kynjasjónarmið

Furðu sætir að ríkisstjórnin leiti til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um útfærslu barnabóta þegar beinast liggur við að líta til hinna norrænu ríkjanna. Þar eru bæturnar almennt ekki tekjutengdar og eru fyrst og fremst hugsaðar til að jafna stöðu barnafólks við hina sem ekki eru með börn á framfæri. Ótekjutengdar barnabætur draga einnig síður úr sjálfstæði og atvinnuþátttöku kvenna en tekjutengdar bætur. Ungum fjölskyldum á Norðurlöndunum munar um stuðninginn sem barnabætur veita og jöfnunarhlutverk þeirra er mikilvægt.

Jafnaðarstefnan

Vinstristjórnin hækkaði barnabætur um leið og hún komst í færi til þess. Haustið 2012 unnum við í fjármálaráðuneytinu ný viðmið fyrir úthlutun barnabóta. Greiðslurnar hækkuðu og náðu lengra upp eftir tekjuskalanum en áður. Hugmyndin var að hækka barnabæturnar í skrefum í átt að ótekjutengdu kerfi hinna Norðurlandanna. Því samþykkti Alþingi 30% hækkun barnabóta í fjárlögum 2013. Núverandi ríkisstjórn fer í þveröfuga átt og hefur á kjörtímabilinu hert á tekjutengingu. Jafnaðarmenn tækju ekki einu sinni til athugunar tillögur Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um barnabætur í líki fátækrastyrks. Barnabótakerfi líkt hinna norrænu ríkjanna er okkar fyrirmynd enda góð reynsla af þeim fyrir börnin og foreldra þeirra. Verði jafnaðarmenn í næstu ríkisstjórn munum við standa við bakið á barnafjölskyldum.

Þessa grein skrifaði ég árið 2016 um aðra ríkisstjórn en engu þarf að breyta þegar að rætt er um stefnu núverandi ríkisstjórnar, enda báðar hægristjórnir þar sem Sjálfstæðisflokkurinn ræður för.

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 25.6.2017 - 10:25 - 1 ummæli

Heilsa Suðurnesjamanna

Á Suðurnesjum búa um 24 þúsund manns. Auk þeirra búa á Ásbrú, þar sem áður voru vistaverur hersins, margir einstaklingar með lögheimili í öðrum landshlutum og ferðamönnum á svæðinu fjölgar jafnt og þétt. Íbúum á Suðurnesjum fjölgaði um 6,6% milli ára og allt þetta fólk þarf á opinberri þjónustu að halda, s.s. heilbrigðisþjónustu, menntun og góðum samgöngum. En fjárveitingarnar frá ríkinu til þessara mála taka ekki mið af fjölgun íbúa á svæðinu og eru enn af skammarlega skornum skammti.

Betri heilsugæsla

Embætti landlæknis lagði á dögunum mat á starfsemi heilsugæslunnar á Suðurnesjum. Þar eru settar fram ábendingar um hvað má betur fara. Heilbrigðisstofnunin er ein mikilvægasta stofnun Suðurnesjamanna og þar er unnið gott starf við erfiðar aðstæður. Það er brýnt að taka málefni stofnunarinnar föstum tökum og taka ábendingar landlæknis alvarlega.

Ein alvarlegasta ábendingin varðar vaktaskipulag heilsugæslulæknanna, um að vaktabyrði þeirra sé of þung og því myndist mikill frítökuréttur sem veldur því að töluvert rót sé á læknum og hugsanlega verði til hagsmunaárekstrar vegna verktöku læknanna á öðrum landssvæðum. Þetta verður að laga, ekki bara á Suðurnesjum heldur einnig á öðrum stöðum þar sem þetta skipulag er viðhaft. Ég er viss um að framkvæmdastjórn Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja vill fara eftir ábendingunum en hún gerir lítið ein og sér. Stofnunin verður að fá auknar fjárveitingar í fjárlögum næsta árs til að standa undir kröfunni um eðlilega og sjálfsagða heilbrigðisþjónustu. Þingmenn Suðurkjördæmis mega ekki láta heilbrigðisþjónustu við Suðurnesjamenn afskiptalausa. Við ættum að geta lagst saman á árarnar og staðið með Suðurnesjamönnum enda ríkisstjórnin aðeins með eins manns meiri hluta og stjórnarþingmenn kjördæmisins eru fimm talsins.

Fleiri með krabbamein

Nýlega var í fréttum að skoðuð hefði verið dreifing krabbameina á landinu öllu og Suðurnesin tekin til sérstakrar skoðunar. Þar kom fram að dreifingin sé svipuð á Suðurnesjum og á landsvísu en þó var tvennt sem skar sig úr með afgerandi hætti. Tíðni nýgengis lungnakrabbameins hjá báðum kynjum í Reykjanesbæ er um 40 prósentum hærri en landsmeðaltalið síðustu 10 ár. Þá sýndi sig að á þessum sama tíma var nýgengi leghálskrabbameins tvöfalt hærra í Reykjanesbæ en á landinu öllu. Þetta þarf að rannsaka betur og finna skýringar svo unnt sé að bregðast við. Við Suðurnesjamenn hljótum að krefjast þess. Þó að bent hafi verið á að fleiri reykingamenn séu á Suðurnesjum en annars staðar og að færri Suðurnesjakonur fari í krabbameinsskoðun, þarf að svara spurningum um þennan mikla mun svo sem þessum: Reykja 40% fleiri Suðurnesjabúar en íbúar annarra landssvæða eða reykja þeir sem reykja enn meira en hinir? Hvernig er hægt að sannreyna að fleiri reykingamenn skýri allan þennan mun? Fara helmingi færri Suðurnesjakonur í reglulega krabbabeinsskoðun en konur á öðrum landssvæðum? Ef svo er hvernig stendur á því og er það þá eina skýringin á því að tvisvar sinnum fleiri Suðurnesjakonur greinast með leghálskrabbamein en konur af öðrum landssvæðum? Er mengun eða umhverfisþættir ástæða þess að fleiri Suðurnesjamenn greinast með krabbamein en á öðrum landssvæðum?

Þá staðreynd að fleiri fái krabbamein sem búa á Suðurnesjum en á öðrum landssvæðum má ekki afgreiða með léttúð eða segja að Suðurnesjamenn geti sjálfum sér um kennt og ættu að reykja minna og hundskast í krabbameinsskoðun. Þetta verður að rannsaka og opinberir aðilar verða að bregðast við af ábyrgð og með virðingu fyrir Suðurnesjamönnum.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 24. júní 2017

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 16.5.2017 - 21:04 - Rita ummæli

Yfirtaka á Fjölbrautaskólanum við Ármúla

Hugmyndir menntamálaráðherra um breytingar á rekstri Fjölbrautaskólans við Ármúla finnast mér fráleitar hvort sem litið er út frá faglegum sjónarmiðum eða rekstrarlegum.

Menntamálaráðherra Kristján Þór Júlíusson sagði í þættinum Víglínunni á Stöð2 laugardaginn 13. maí að þeir sem gagnrýna þá fyrirætlan hans að láta hagsmunaaðila í atvinnulífinu yfirtaka rekstur Fjölbrautaskólans við Ármúla þurfi að svara því hvernig mæta eigi þeim áskorunum sem framhaldsskólakerfið stendur frammi fyrir. Ráðherrann gerir þessar kröfur til okkar sem gagnrýnum fyrirhugaðar aðgerðir en gerir ekki þá sömu kröfur til sín þegar að kallað er eftir því að hann rökstyðji breytingarnar sem hann leggur til á rekstri skólans.

Hvaða áskorunum standa framhaldsskólarnir í landinu frammi fyrir nú um stundir?

Þeir standa frammi fyrir því að:

 • Tryggja eins gott aðgengi að námi og mögulegt er enda eru framhaldsskólar hornsteinar byggða um allt land.
 • Bregðast við styttingu námstíma til stúdentsprófs vegna þess að nemendum fækkar við það í bóknámi og veldur mestum breytingum í hreinum bóknámsskólum.
 • Takast á við tímabundna náttúrulega fækkun nýnema.
 • Fámennari skólar þurfa að vinna meira saman til að tryggja fjölbreytt námsframboð ýmist með staðbundnu námi eða fjarnámi.
 • Vinna gegn brottfalli nemenda.
 • Efla starfsmenntun.

Hvernig skyldi menntamálaráðherra vilja leggja framhaldsskólunum lið við að takast á við þessar áskoranir? Hann segist helst vera að huga að því að sameina tvo stóra skóla í Reykjavík. Hann vill láta Tækniskólann sem er stærsti skóli landsins og býður nemendum upp á fjölbreytt ná í tæknigreinum taka yfir góðan rekstur á 900 nemenda skóla sem sérhæfir sig í námsframboði á heilbrigðissviði og þjónar auk þess þrettánhundruð nemendum með fjarnámi.

Er nema von að menn spyrji hvað ráðherranum gangi til og velti fyrir sér samhenginu?

Ef breytingin tekur gildi á næsta skólaári hafa hvorki nemendur né kennarar möguleika á að bregðast við með því að velja sér annan skóla til náms eða starfa og réttindi starfsfólksins ótryggð.

Ef ráðherrann lætur til skara skríða er það skemmdaverk fremur en stuðningur við þær áskoranir sem framhaldsskólarnir standa frammi fyrir og skipta svo miklu máli fyrir einstaklinga og menntunarstig í landinu.

 

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 7.5.2017 - 17:14 - Rita ummæli

Skjól fyrir einkarekstur

Nú hefur komið í ljós að landlæknir og heilbrigðisráðherra eru ekki sammála um túlkun laga um sjúkratryggingar. Þetta kemur skýrt fram með yfirlýsingu frá landlækni frá 19. apríl sl. og birt er á heimasíðu embættisins. Heilbrigðisráðherra virðist telja að einkareknar heilbrigðisstofnanir þurfi ekki sérstakt leyfi ráðherra til að reka sérhæfða heilbrigðisþjónustu eða sjúkrahúsþjónustu, heldur nægi einungis staðfesting frá Embætti landlæknis um að þær uppfylli faglegar kröfur. Þær geta síðan fjármagnað rekstur sinn með samningi Sjúkratrygginga Íslands og Læknafélags Reykjavíkur.

Með þessari fráleitu túlkun heilbrigðisráðherra hafa stjórnvöld enga stjórn á því hvert opinbert fjármagn rennur eða hvaða rekstrarform verða ríkjandi í íslensku heilbrigðiskerfi. Hér er einfaldlega lúffað fyrir villtustu draumum frjálshyggjumanna en almannahagur fyrir borð borinn.

Til að bregðast við þessari slæmu stöðu hefur Samfylkingin flutt frumvarp um breytingar á lögum um sjúkratryggingar. Tillaga okkar er um að ráðherra geti ekki gert þjónustusamninga við einkaaðila í heilbrigðiskerfinu nema með samþykki Alþingis að uppfylltum ákveðnum skilyrðum og að arðgreiðslur af heilbrigðisþjónustu verði óheimilar. Frumvarpið var líka lagt fram á síðasta kjörtímabili en fékkst ekki samþykkt og hefur nú verið í meðferð velferðarnefndar frá því febrúar. Þessi tillaga Samfylkingarinnar hefur fengið mjög jákvæðar umsagnir, enda í samræmi við vilja meginþorra almennings.

Gætum að grunnstoðunum

Hugmyndum um gróða og markað hefur verið þröngvað inn í umræðuna um viðkvæma stöðu heilbrigðiskerfisins. Þeir sem vilja selja ríkinu heilbrigðisþjónustu hafa ráðið för með því að skilgreina þarfirnar og útfærsluna sjálfir og er í raun leyft að skammta sér almannafé.

Ekkert kallar á aukinn einkarekstur nema frjálshyggjustefna núverandi ríkisstjórnar með heilbrigðisráðherra í broddi fylkingar, sem leyfir einkavæðingunni að blómstra í hans skjóli. Við hin þurfum að gæta að og verja grunnstoðir velferðarkerfisins kröftuglega nú þegar að hugmyndir um aukinn einkarekstur vaða uppi. Einkarekstur getur ekki komið í staðinn fyrir trausta opinbera heilbrigðisþjónustu sem er öllum aðgengileg og rekin er af myndarbrag. Aldrei má minnsti vafi leika á því hvort hagsmunir sjúklinga eða rekstraraðila heilbrigðisstofnana vegi þyngra.

Grein um sama efni birtist í Fréttablaðinu 24. apríl 2017

 

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 5.4.2017 - 14:16 - Rita ummæli

Svikin kosningaloforð

Ríkisfjármálaáætlun ríkisstjórnar Bjarna Benenediktssonar er svik við kjósendur og almenning í landinu. Hún er svik við ungt fólk jafnt sem aldraða. Áætlunin er í engu samræmi við kosningaloforð. Viðreisn og Björt framtíð sem vildu mála sig upp þegar að þeim fannst við eiga sem jafnaðarmenn í kosningabaráttunni, hafa fallist á allar áherslur Sjálfstæðismanna.

Hvar er uppbygginguna að finna í þessari áætlun í heilbrigðiskerfinu, menntakerfinu, almennri velferð og samgöngum?

Hvar er hina skynsamlegu sveiflujöfnun að finna?

Hvar er að finna aðgerðirnar sem stuðla eiga að efnahagslegum stöðugleika?

Hvar eru aðgerðirnar sem eiga að stuðla að félagslegum stöðugleika og friði á vinnumarkaði?

Svörin við öllum þessum spurningum er: Hvergi.

Ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar skilar þar auðu enda stóð aldrei annað til á þeim bænum. Skattar eru meira að segja lækkaðir á tíma hagvaxtar og þenslu. Kannast einhver við það úr fortíðinni? Virðisaukaskattur var lækkaður á árinu 2007 úr 14% í 7%. Það voru hagstjórnarmistök í bullandi góðærinu og nú á að leika svipaðan leik með lækkun á almenna virðisaukaskattsþrepinu 1. janúar 2019.

Fúsk í fjármálum
Fjármálaáætlunin er byggð á fjármálastefnunni sem enn er ekki afgreidd en umræður hafa verið um í þinginu að undanförnu. Í stefnunni er ekki skapað svigrúm fyrir aukin útgjöld ef hagspár reynast óraunsæjar og samdráttur verður í hagkerfinu á árunum fram til ársins 2022. Í samræmi við stefnuna er engin áform í áætluninni um að auka tekjur af efnaðasta fólki landsins og af þeim fyrirtækjum sem nýta sameiginlegar auðlindir okkar í sjávarútvegi, orkuframleiðslu eða stóriðju. Það eru sérstök vonbrigði og ekkert annað en fúsk, að í engu sé brugðist við skýrum athugasemdum fjármálaráðs og Seðlabankans um fjármálastefnuna. Gerðar eru alvarlegar athugasemdir við að ekki sé tekið mið af hagsveifluleiðréttingu þegar að afkomumarkmiðin eru ákveðin. Væri það gert er ljóst að áætlaður afgangur af opinberum fjármálum ætti að vera meiri en stefnan og þar með fjármálaáætlunin gera ráð fyrir.

Af umsögn fjármálaráðs má ráða að afla þurfi aukinna tekna svo að velferðarkerfið verði ekki fórnarlamb niðurskurðar ef aðstæður breytast í hagkerfinu og að stjórnvöld geti lent í spennitreyju fjármálastefnunnar.

Norræn velferð
Forsætisráðherra sagði kátur á dögunum að þegar að ríkisstjórnin væri búin að lækka virðisaukaskattinn í 22,5% 1. janúar 2019, þá væri almennaþrepið hér orðið það lægsta á Norðurlöndunum. Áður en við segjum Jibbí! og Húrra! við þessu, skulum við fá svör við því hvort þjónustustig velferðarþjónustunnar verði þá líka hér það lægsta á Norðurlöndunum.

Nær væri að stefna að því að ná þeim góða félagslega jöfnuði sem einkennir Norðurlöndin, sem þar er greitt fyrir með stigvaxandi tekjuskatti og öfluðu virðisaukaskattskerfi. Norðurlöndin eru einu samfélögin sem staðist hafa ágang frjálshyggjunnar enda hafa jafnaðarmenn þar oftast verið við stjórnvölin og hægrimenn ekki gert breytingar á skattkerfi eða velferð þá sjaldan að þeir hafa náð völdum. Við ættum að stefna þangað í átt að auknum jöfnuði og réttlæti. Fjármálastefna og fjármálaáætlun ríkisstjórnar Bjarna Benediktssonar fer með íslenskt samfélag í þver öfuga átt og svíkur fólkið í landinu sem bjóst við öðru eftir fagurgala í aðdraganda kosninga.

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 31.3.2017 - 08:17 - Rita ummæli

Einkavæðing bankanna

Það eru stór orð að segja að þjóðin hafi verið blekkt þegar Búnaðarbankinn var seldur. Einkavæðing bankanna og vöxtur þeirra í kjölfarið var rót hrunsins og við erum enn að glíma við slæmar afleiðingar þess.

Margir hafa getið sér til um einmitt það að um blekkingar hafi verið að ræða en ekki sannreynt fyrr en nú. Vilhjálmur Bjarnason alþingismaður gerði athuganir á sínum tíma á reikningum þýska bankans og benti á að ekkert væri þar að finna um að bankinn hefði verið raunverulegur kaupandi Búnaðarbankans. Vilhjálmur hélt því fram að um blekkingar væri að ræða en viðbrögðin þá voru þau að athuganir hans voru gerðar tortryggilegar.

Jóhanna Sigurðardóttir og fleiri þingmenn Samfylkingarinnar kölluðu oft eftir athugun á stjórnsýsluháttum þegar að bankarnir voru einkavæddir og efuðust um gæði þeirra.

Ögmundur Jónasson þingmaður Vg hafði ásamt fleiri stjórnarandstöðuþingmönnum efasemdir um raunverulega þátttöku þýska bankans í kaupunum og spurði þáverandi viðskiptaráðherra um það. Ögmundur fékk skriflegt svar í febrúar 2006 frá Fjármálaeftirlitinu á þann veg að stofnunin teldi að ekkert benti til annars en að þýski bankinn hefði verið hluthafi í Eglu hf.

Efasemdum og grun um blekkingar og slæma stjórnsýslu í aðdraganda einkavæðingarinnar og í kjölfar hennar var ýtt ákveðið til hliðar meðal annars af ráðherrum, Ríkisendurskoðun og Fjármálaeftirlitinu. Í því ljósi er niðurstaða rannsóknarinnar sérstaklega sláandi um að eignarhald þýska bankans á hlutunum í Eglu hf og þar með í Búnaðarbankanum hafi aðeins verið að nafninu til og til málamynda og yfirvarp fyrir endanleg yfirráð, áhættu og ávinning annarra aðila.

Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um fall íslensku bankanna kemur fram að S- hópnum hafi verið greint frá því í ágúst 2002 að við val á kaupanda Búnaðarbankans yrði gefinn „plús fyrir erlenda peninga“, eins og það var orðað.

Erlendur hluthafi í Eglu hf er kynntur til sögunar stuttu síðar og S-hópurinn komst upp með að gefa óljósar upplýsingar um erlenda eigandann og athuganir sem gerðar voru, voru óformlegar.

Hvers vegna voru blekkingarnar mögulegar? Hvers vegna var ekki gengið harðar eftir upplýsingum um aðkomu og fjármögnun þýska bankans sem öllum var ljóst, af umræðum í fjölmiðlum og við ráðamenn að skipti miklu máli við mat á kaupendum? Hvernig gat þetta gerst?

Alþingi samþykkti haustið 2012 þingsályktun sem flutt var af þingmönnum Samfylkingarinnar, Vg og Hreyfingarinnar undir forystu Skúla Helgasonar þingmanns Samfylkingarinnar, um að ráðast í rannsókn á einkavæðingu allra bankanna þriggja. Þeirri samþykkt hefur ekki verið fylgt eftir en á auðvitað að gera og hefja rannsóknina eins fljótt og auðið er.

Og sagan má aldrei endurtaka sig!

Flokkar: Óflokkað

Miðvikudagur 8.3.2017 - 16:53 - 1 ummæli

Baráttukveðjur til kvenna

Hugmyndina að sérstökum baráttudegi kvenna átti Clara Zetkin, þýsk kvenréttindakona og sósíalisti, sem bar hana fyrst upp á fundi Alþjóðasamtaka sósíalískra kvenna sem haldinn var í Kaupmannahöfn árið 1910. Þess vegna er 8. mars alþjóðlegur baráttudagur kvenna.

Barátta kvenna fyrir réttindum kvenna og jafnrétti er þó nokkuð eldri. Svokallaðar Suffragettur var býsna herská kvennahreyfing sem barðist með óvenjulegum og harkalegum meðulum getum við sagt, s.s. hungurverkföllum fyrir málefnum kvenna í lok 19. aldar og byrjun þeirrar 20., bæði í Breska heimsveldinu og Vestan hafs. Andstæðingarnir sögðu þá að konur væru of miklar tilfinningaverur til að fara með mikilvæg völd, þær gætu ekki hugsað rökrétt og yfirvegað eins og karlmenn.

Því miður verðum við enn vör við slík viðhorf, meira að segja nýlega á Evrópuþinginu, en það er sem betur fer mjög sjaldgæft í seinni tíð.

Oft er fullyrt að jafnrétti kynjanna sé þegar orðið að raunveruleika hér á landi. Bæði sé það tryggt með lögum og Íslendingar svo meðvitaðir um mikilvægi jafnréttis að ójafnréttið mælist varla. Þetta er því miður rangt. Ójafnréttið leynist víða og staða karla og kvenna er sannarlega ekki jöfn á meðan að kynbundinn launamunur mælist.

Sterkar konur og fyrirmyndir hafa rutt brautina fyrir okkur hinar hér á landi og fyrir það er ég afar þakklát.

Þó konur nálgist það að vera helmingur þingmanna þá er kynjahalli sannarlega til staðar við ríkisstjórnarborðið. Það er nauðsynlegt og það er réttlætismál að konur sitji til jafns við karla við borðin þar sem mikilvægar ákvarðanir eru teknar fyrir samfélagið, hvort sem er í ríkisstjórn, á þingi, í sveitarstjórnum, samninganefndum um kaup og kjör eða stjórnum fyrirtækja.

Í síðustu sveitarstjórnarkosningum voru tvöfalt fleiri karlar í fyrsta sæti framboðslista en konur eða 123 karlar og 61 kona.

Ég hvet konur til að taka sér meira pláss í stjórnmálunum og í næstu sveitarstjórnarkosningum.

Baráttukveðjur!

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Oddný G. Harðardóttir
Þingmaður Samfylkingarinnar jafnaðarmannaflokks Íslands.
RSS straumur: RSS straumur