Fimmtudagur 23.2.2017 - 11:00 - 2 ummæli

Sala bankanna

Þegar við ræðum bankakerfið íslenska, umfang þess og þjónustu, þurfum við að horfa til þess að við erum fámenn og markaðurinn lítill. Við þurfum þrátt fyrir smæðina að koma okkur upp regluverki og eftirliti með fjármálastarfsemi sem nýtur alþjóðlegrar viðurkenningar og trausts, og það er einnig forsenda þess að rekin sé samkeppnisfær utanríkisverslun.

Sjálfstæður gjaldmiðill með óstöðugu gengi sem hefur mikil áhrif á breytingar verðlags í landinu er líka eitt sérkenni íslenska hagkerfisins ásamt verðtryggingu.

Það er mikilvægt að ríkið beiti eigendaáhrifum sínum í bönkunum til þess að stuðla að heppilegri og hagkvæmri þróun á fjármálamarkaði og skipulagi hans.

Markmið ætti að vera að hér á landi þrífist fjármálakerfi sem getur staðið af sér fjármálaáföll. Framtíðarskipan fjármálakerfis á Íslandi þarf að miða að því að kerfið verði öruggt, skilvirkt og hæfilega umfangsmikið fyrir þjóðarbúskapinn.

Mér finnst mikilvægt að við tryggjum það í núverandi stöðu að fjármálakerfið verði ekki til frambúðar í óbreyttri mynd. Aðkallandi breyting er að aðskilja fjárfestingabankastarfsemi og viðskiptabankastarfsemi. Almenningur verði þannig varinn fyrir áhættu fjárfestingabankastarfsemi og búnir verði til bankar sem sjá um þjónustu á eins ódýran máta og mögulegt er, við fólk og venjuleg fyrirtæki. Greiðslukerfið og fjárfesting með lágmarksáhættu verði hluti af almennri þjónustu við fólkið í landinu.

Þess vegna eigum við alls ekki að selja bankana frá okkur núna, heldur nýta tækifærið til að endurskipuleggja bankakerfið. Að því loknu mætti skoða hagkvæmni þess að selja hluta kerfisins.

 

 

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 19.1.2017 - 16:15 - Rita ummæli

Ferðamannaparadís

Allt sem skiptir máli fyrir þróun ferðaþjónustunnar hér á landi skiptir einnig máli fyrir Suðurland, enda vinsælustu ferðamannastaðirnir á því landssvæði. Ferðaþjónustan er á örfáum árum orðin ein af undirstöðu atvinnugreinum þjóðarinnar en enginn hefur almennilega haldið um stjórnartaumana og stýrt þróun hennar eða metið áhrif umfangs hennar, s.s. á aðrar atvinnugreinar, fasteignaverð og þenslu. Stjórnvöld hafa ekki sinnt því mikilvæga hlutverki að ákvarða hvernig hagkvæmast og best er að ferðaþjónustan þróist til framtíðar, meta kostnað af ágangi ferðamanna og hvað teljast megi æskilegt rekstrarumhverfi atvinnugreinar í miklum vexti. Ef ekki verður gripið strax um taumana er líklegt að orðspor Íslands sem ferðamannastaðar skaðist, ferðamönnum fækki og fjárfestingar í greininni beri sig ekki með slæmum fjárhagslegum afleiðingum.

Almenn rekstrarskilyrði

Við þurfum að stýra þróuninni og skapa ferðaþjónustunni almenn rekstrarskilyrði sem tryggja tekjur til viðhalds vega, í heilbrigðisþjónustu, sjúkraflutninga og löggæslu. Ferðamenn fá afslátt af virðisaukaskatti sem nemur a.m.k. 10 milljörðum króna á ári. Þessi upphæð ætti að renna til uppbyggingar sem nýtist greininni og um leið landsmönnum öllum. Aðgerðarleysi ríkisstjórnarinnar á síðasta kjörtímabili var algjörlega óásættanlegt. Sú nýja verður að grípa í taumana og víkja af þeirri braut að almenningur beri kostnaðinn af uppbyggingu nauðsynlegra innviða á sama tíma og ferðamennirnir fá afslátt.

Birtist fyrst í héraðsblaðinu Suðra 19. janúar 2017

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 25.10.2016 - 11:54 - 5 ummæli

Óábyrg efnahagsstjórn Sjálfstæðisflokksins

Formaður Sjálfstæðisflokksins skilur ekki enn hvernig hann skildi eftir lág- og millitekjufólk – 80 prósent landsmanna! – en lækkaði skatta á efnaðasta fólk landsins. Það er svo merkileg þessi mýta um að hægrimenn stjórni betur en aðrir eða hafi meira vit á peningum, því hún stenst enga skoðun. Indriði Þorláksson, fyrrum ríkisskattstjóri, afgreiddi fjármálaráðherrann snyrtilega og benti honum á að aukin skattbyrði komi vissulega til vegna hærri tekna hjá meirihluta launafólks, en það ekki raunin hjá þessum ríkustu 20 prósentum. Þeirra skattur hefur lækkað á sama tíma að tekjur þeirra hafa hækkað meira en annarra.

Jafnvel þótt allt annað í kosningabaráttunni hafi farið framhjá kjósendum, er hér komin ein mikilvæg ástæða til að skipta um stjórn. Því þessi stjórn vinnur eingöngu samkvæmt löngu úreltum kenningum um brauðmola til almúgans og mikilvægi þess að sumir lifi í lúxus en aðrir dragi fram lífið. Þeir hafa rangt fyrir sér.

Svona á að gera þetta

Ef bæta á stöðu almennings, en ekki bara þeirra ríkustu, verður að beina sköttunum í rétta átt. Það jafnvægi bjó Samfylkingin til fyrir nokkrum árum, með þrepaskiptum tekjuskatti. Þeir hafa lægstu tekjurnar greiða minnst í skatt, en þeir sem eru í mestu færum borga mest. Það er réttlátt, og á því byggja þau samfélög sem helst er horft til í heiminum og jafnaðarmenn hafa byggt upp.

Útboð á kvóta er ekki sérstakt áhugamál Samfylkingarinnar, heldur réttlætismál fyrir okkur öll. Að afnema undanþágur ferðamanna frá greiðslu virðisaukaskatts er leið til að fjármagna grunnþjónustu. Þannig öflum við peninga til að standa undir öflugri gjaldfrjálsri þjónustu við sjúklinga og nemendur og verðum í færi til að styðja við barnafjölskyldur, aldraða, öryrkja og þeirra sem eru fastir á fokdýrum leigumarkaði.

Góður jarðvegur fyrir einkaframtak

Vissulega verður að búa fyrirtækjum landsins góðan jarðveg með hagstæðum sköttum og gjöldum, en það er best gert með lækkun tryggingagjalds. Það lækkaði ekki nema um hálft prósent seint á þessu kjörtímabili, þrátt fyrir loforð um annað. Skattalækkunum hægrimanna  er venjulega beint í kolrangar áttir og annað dæmi um það er ferðaiðnaðurinn, sem er orðin okkar stærsta og öflugasta atvinnugrein. Eitt sinn átti það við að styrkja þá grein beint, en nú hjálpum við henni ekki með skattalækkunum. Besti stuðningurinn við móttöku ferðamanna er með uppbyggingu innviða, betri vegum, betri aðstöðu, verndun náttúrunnar og eflingu heilsugæslu og löggæslu.

Líka til heimbrúks

Sagan sýnir að vinstrimenn eru sérstaklega færir í efnahagsstjórn því við hugsum um almannahag. Utanríkisráðherra sækir nú heim háskóla og virtar stofnanir erlendis og útskýrir hversu vel við stjórnuðum í efnahagshruninu. Hún mætti gjarnan brúka þann fyrirlestur hér heima líka, kjósendum til upplýsingar.

Skattabreytingar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar hafa snúist um að raska því jafnvægi sem við sköpuðum milli skattgreiðenda og nú greiða ríkustu 20% þjóðarinnar hlutfallslega lægri skatta en aðrir. Það er óréttlátt og því eigum við breyta. Það er helsta ógn við stöðugleika á Íslandi og ástæða þess að ASÍ styrkir nú verkfallssjóði sína.

 

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 23.10.2016 - 14:24 - 1 ummæli

Ábyrg stefna og útfærðar leiðir Samfylkingarinnar

Eftir kosningar verða kaflaskil og tækifæri til að gera breytingar sem skipta máli fyrir almenning í landinu. Kjósendur ráða ferðinni og niðurstaðan verður vonandi hagfelld þeim flokkum sem vilja sjá umbætur strax.

Samfylkingin er málsvari barnafjölskyldna. Við viljum að þær fái betri stuðning með því að lengja fæðingarorlofið og hækka barnabæturnar. Við þurfum öll að búa einhvers staðar og Samfylknigin hefur útfært leið til þess að styðja við leigjendur og ungt fólk sem vill komast á húsnæðismarkaðinn með 5.000 leiguíbúðum á næstu fjórum árum og forskoti á fasteignamarkaði með fyrirframgreiddum vaxtabótum.

Að lækka vexti er eitt stærsta hagsmunamál fjölskyldna og nýr gjaldmiðill er valkostur sem verður að bjóðast Íslendingum. Samfylkingin vill að þjóðin fái að kjósa um áframhald viðræðna við Evrópusambandið.

Samfylkingin leggur ríka áherslu á að auka jöfnuð með réttlátari skiptingu auðsins sem auðlindir okkar gefa og við höfum útfært leiðir til þess. Við viljum bjóða út kvótann og afnema undanþágur ferðamanna frá almenna virðisaukaskattþrepinu. Við erum sannarlega rík af auðlindum, en verðum að fá fleiri krónur fyrir hvern ferðamann, fyrir hvern veiddan fisk og hvert selt megawatt.

Stóru málin

Við leggjum áherslu á velferð, með húsnæðisöryggi, gott heilbrigðiskerfi, góðri menntun og atvinnumarkaði sem býður um upp á áhugaverð og vel launuð störf. Við leggjum mikla áherslu á jafnrétti kynjanna, mannréttindi minnihlutahópa og flóttafólks, á nýja stjórnarskrá og að Ísland leggi sig raunverulega fram í baráttunni gegn hlýnun jarðar.

Við eigum að virða alþjóðaskuldbindingar í loftslagsmálum og stíga ákveðin skref í átt að því að gera Ísland kolefnishlutlaust á næstu áratugum. Mikilvægasta skrefið í þá átt er að vinna áætlun fyrir orkuskipti og hverfa frá notkun jarðefnaeldsneytis. Súrnun sjávar er vaxandi vandamál og getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir vistkerfi Íslands. Við eigum að standa okkur miklu betur í stærsta sameiginlega verkefni mannkyns sem er að stöðva hlýnun jarðar.

Verkalýðshreyfingin og jafnaðarmannaflokkurinn

Vinnumarkaðurinn hefur verið uppnámi allt kjörtímabilið. Ástæðan er sú að stjórnvöld hafa ekki unnið með aðilum vinnumarkaðarins að sameiginlegri lausn. Þessi tregða stjórnvalda er ástæða þess að samstaða næst ekki og stöðugleikanum er ógnað. Samfylkingin mun vinna með verkalýðshreyfingunni að kjarabótum. Samhljómur er með málflutningi Samfylkingarinnar og verkalýðshreyfingarinnar um gjaldfrjálsra heilbrigðisþjónustu, betri stuðningi við barnafjölskyldur, nýjum húsnæðislausnum og nýjum gjaldmiðli. Að þessu verður umbótastjórn að vinna. Félagslegur stöðugleiki verður að vera til staðar svo hægt sé að viðhalda þeim efnahagslega stöðugleika, sem fyrir ótrúlegt harðfylgi náðist á fjórum árum eftir hrun.

Kjósum Samfylkinguna

Baráttan gegn aukinni misskiptingu og fyrir endurreisn heilbrigðiskerfisins þolir enga bið. Samfylkingin er með útfærðar lausnir og dýrmæta reynslu eftir að hafa tekið til eftir hrunið. Við getum lagt þá reynslu og okkar leiðir inn í umbótastjórn með ýmsum hætti, en mikilvægast er að breytingar eigi sér stað strax eftir næstu helgi.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 20.10.2016 - 14:10 - 5 ummæli

Hvað varð um lán SÍ til Kaupþings?

Upplýsingarnar sem greint var frá í gærkvöldi í Kastljósi um mögulegan leka úr Seðlabankanum til starfsmanns Samtaka fjármálafyrirtækja, eru grafalvarlegar og krefjast þess að lekinn og hugsanlegar afleiðingar hans séu rannsakaðar og upplýstar að fullu. Samtal forsætisráðherra og seðlabankastjóra verður að birta.

Ekki er síður alvarlegt að sérstakur saksóknari skuli ekki hafa upplýst Seðlabankann um lekann ef hann átti sér stað, og ástæður þess þarf að skoða. Það verður líka óhjákvæmilegt að rannsaka viðskipti með hlutabréf og lánveitingar komi í ljós að upplýsingum um fyrirhugað lán til Kaupþings hafi verið lekið.

Nú vitum við að Davíð Oddsson, sem seðlabankastjóri, taldi lánveitinguna vera tapað fé. Þá vakna spurningar um hvað varð um féð sem lánað var, og hvað gerðist í bönkunum daginn sem lánveitingin fór fram og afhverju var lánað sama dag og átti að setja neyðarlög? Hverra hagsmuna voru þeir að gæta?

Það hlýtur að vera krafa almennings að vita hvað varð um peningana og að það verði gert strax!

Umfjöllun Kastljóssins má sjá hér

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 13.10.2016 - 22:28 - 20 ummæli

527 milljarðar til 10% Íslendinga

Sam­fylk­ingin kynnti á dög­unum eina snjalla leið til þess að aðstoða þá sem ekki eiga útborgun í íbúð. Hug­myndin er að fjöl­skyldur fái fyr­ir­fram­greiddar vaxta­bæt­ur, en það eru pen­ingur sem leigj­endur fengju hvort sem er að hluta í formi hús­næð­is­bóta og þeir kaup­endur sem rétt eiga á vaxta­bót­um. Þetta er hóf­leg leið sem gagn­ast ekki bara íbúum höf­uð­borg­ar­svæð­is­ins heldur líka sér­stak­lega vel þeim sem búa á lands­byggð­inni. Leiðin felur í sér að fjöl­skyldur sem ekki eiga hús­næði fái allt að þrjá millj­ónir króna til að nýta í útborgun á íbúð.

Bilið breikkar milli þeirra sem eiga og þeirra sem eiga ekki

Mun­ur­inn milli ríkra og fátækra heldur áfram að aukast, ekki bara hér á landi heldur úti um allan heim. Þetta er eitt stærsta við­fangs­efni alþjóð­legu jafn­að­ar­manna­hreyf­ing­ar­innar að finna leið­irnar til að dreifa pen­ing­unum bet­ur. Þeim sam­fé­lögum sem leggja áherslu á jöfnuð farn­ast best, það sýna allar grein­ing­ar, enda eru Norð­ur­löndin efst á lista ríkja sem best er að búa í. Við gleðj­umst yfir góðu gengi í íslensku efna­hags­lífi, en bendum jafn­fram á og mót­mælum því að auð­ur­inn sem skap­ast skipt­ist ekki jafnt á milli hópa í sam­fé­lag­inu. Á hverju ári höfum við beðið stjórn­völd um upp­lýs­ingar um þessa stöðu og svör þeirra fyrir árin 2013 og 2014.

Stöð­ug­leiki heim­il­anna

Ef umfangið á mis­skipt­ing­unni er skoðað kemur í ljós að af hreinni eign, sem orðið hefur til frá árinu 2010, hafa 527 millj­arðar króna runnið til þeirra tíu pró­sent Íslend­inga sem eiga mest, alls 20.251 ein­stak­linga. Það eru 26 millj­ónir á hvern ein­stak­ling. Það þýðir að tæp­lega fjórar af hverjum tíu krónum sem orðið hafa til af nýjum auð á þessum sex árum hafa farið til rík­asta hóps lands­manna. Ég hef sagt að króna í vasa sjúk­lings valdi ekki meira óstöð­ug­leika en króna í vasa útgerð­ar­manns. Þegar jafn­að­ar­menn vilja jafna stöðu fólks og færa pen­inga úr vösum þeirra sem mest eiga til ann­arra, þá er gjarnan við­kvæðið að varð­veita þurfi stöð­ug­leik­ann. En króna í vasa efn­aðs fólks skapar ekki meiri stöð­ug­leika en króna í vasa hinna, s.s. ungs fólk sem vantar heim­ili. Þvert á mót­i.

Margt ungt fólk og leigj­end­ur, sem fá ekki stuðn­ing frá for­eldrum til íbúða­kaupa, ílengj­ast í for­eldra­húsum eða fest­ast á dýrum leigu­mark­aði. Það er okkar skylda að benda á þennan ójöfnuð og leggja til lausn­ir. Við tölum fyrir upp­töku Evr­unnar til að lækka vaxta­stig, við tölum fyrir betri leigu­mark­aði og bygg­ingu 5.000 leigu­í­búða á næstu fjórum árum. Og við leggjum til að ungt fólk og fjöl­skyldur fái for­skot á fast­eigna­mark­aði.

 

Greinin birtist fyrst á Kjarnanum

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 6.10.2016 - 09:02 - 44 ummæli

Þriggja milljóna króna forskot á fasteignamarkaði

Þriggja milljón króna forskot á fasteignamarkaði fyrir þá sem ekki eiga íbúð er ný leið okkar í Samfylkingunni til að hjálpa leigjendum og ungu fólki á erfiðum fasteignamarkaði. Mikið hefur verið rætt um þessa leið síðan við kynntum hana á þriðjudaginn sem er ánægjulegt. Henni hefur ranglega verið líkt við leiðir ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar sem kynntu 90% lán til sögunnar og fóru í skuldaniðurfellingu nú á kjörtímabilinu, sem er blessunarlega að ljúka nú í lok mánaðarins. Leið okkar mun ekki valda sömu þenslu áhrifum og ekki nýtast þeim ríkustu best. Við beinum stuðningi til þeirra sem á þurfa að halda með fyrirframgreiðslu vaxtabóta.

Ég leyfi mér að vitna hér í Stefán Ólafsson, prófessor sem bendir á það augljósa í athugsemd í nýrri frétt Eyjunnar:

“.. vaxtabætur eru einmitt EKKI ALMENNAR tilfærslur, heldur tekjutengdar og einnig eignatengdar. Þær renna fyrst og fremst til tekjulægri og eignaminni hópa. Það munar öllu fyrir vænt áhrif á fasteignaverð. Almennt er ekki beint samband milli örlætis vaxtabóta og húsnæðisverðs, eins og sjá má hér: http://blog.pressan.is/stefano/2016/02/06/leida-vaxtabaetur-til-haerra-husnaedisverds/

Ég skrifaði grein um þessa nýju leið okkar sem birtist í morgun í Fréttablaðinu og ég læt hana fylgja með.

Forskot á fasteignamarkaði

Samfylkingin ætlar að jafna leikinn og bjóða þeim sem ekki eiga fasteign að nýta fyrirframgreiddar vaxtabætur til að fjármagna útborgun í íbúð. Stærsta vandamál ungs fólks sem er að kaupa sína fyrstu íbúð er að kljúfa útborgunina. Margar fjölskyldur eru fastar á ótryggum leigumarkaði, þar sem stærstu útgjöld heimilisins eru leiga og minna er til skiptanna fyrir aðrar nauðsynjar. Mánaðarleigan er hærri en það sem flest fólk borgar af húsnæðisláni.

Forskot á fasteignamarkaði er ein af nokkrum mikilvægum leiðum sem við viljum fara til að bæta stöðu barna og fjölskyldna á leigumarkaði. Þannig verður hægt að fá vaxtabætur næstu fimm ára greiddar út fyrirfram til kaupa á íbúð. Miðað við tekju- og eignamörk vaxtabóta myndi það þýða 3,0 m.kr. fyrir fólk í sambúð, 2,5 m.kr. fyrir einstætt foreldri og 2,0 m.kr. fyrir einstakling.

Þrjár milljónir króna duga til dæmis fyrir útborgun á 20 milljón króna íbúð m.v. 85% lán, eða sem stór hluti útborgunar í dýrari eign. Það er stuðningur sem kemur unga fólkinu úr foreldrahúsum eða námsmannaíbúðum og leigjendum í öruggt húsnæði. Forskotið fá þau sem ekki eiga íbúð og ættu rétt á vaxtabótum, ásamt þeim sem ekki hafa átt fasteign síðustu þrjú ár á undan. Á undanförnum árum hefur stuðningur í formi vaxtabóta minnkað gríðarlega, þar sem skerðingarmörk tekna og eigna hafa ekki breyst í samræmi við launaþróun og fasteignaverð. Samfylkingin ætlar að snúa þessari þróun við.

Samhliða Forskoti á fasteignamarkaði ætlum við að taka upp nýtt kerfi húsnæðisbóta, hækka skerðingarmörk og styðja betur við barnafjölskyldur en nú er gert. Og við ætlum að láta vaxtabætur ráðast af fjölda barna, sem er nýmæli.

Forskot á fasteignamarkaði er liður í kosningastefnu Samfylkingarinnar. Okkar markmið er einnig veruleg fjölgun almennra leiguíbúða, um 4000 á kjörtímabilinu, auk 1000 námsmannaíbúða um allt land. Jafnframt að tvöfalda stuðning við barnafjölskyldur og útrýma barnafátækt á Íslandi, en árið 2014 bjuggu 6.100 börn við efnislegan skort á Íslandi og stór hluti þeirra í leiguhúsnæði.

Jöfnum leikinn og kjósum heilbrigðari húsnæðismarkað.

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 22.9.2016 - 13:24 - 8 ummæli

Besta heilbrigðisþjónusta í heimi.

Samfylkingin tekur undir ákall 87.000 Íslendinga um að stórauka framlög til heilbrigðisþjónustunnar. Það er óásættanlegt að spítalar séu sveltir, á meðan efnahagur er á uppleið. Veikir Íslendingar og fjölskyldur þeirra, eiga að hafa forgang. Við eigum öll að geta gengið að öflugri opinberri heilbrigðisþjónustu um allt land. Og hún á að vera ókeypis.

Já, við höfum efni á þessu. Við erum rík af auðlindum. Það er ekki eftir neinu að bíða.

En meira fjármagn dugar ekki eitt og sér til að bæta opinberu þjónustuna. Við verðum að hlusta á okkar færasta fólk og breyta heilbrigðisþjónustunni svo peningarnir nýtist betur. Mesta þörfin er í opinberu þjónustunni og þangað viljum við beina kröftum okkar. Við viljum að nýr Landspítali rísi sem fyrst og að heilsugæslan geti tekið á móti öllum sem þurfa aðstoð hratt og örugglega, líka þeim sem þurfa á sálfræðiþjóðnustu að halda.

Lækna á sjúkrahúsin

Landlæknir hefur bent á nauðsyn þess að ráða lækna í full störf á Landspítalanum. Því erum við sammála en í dag eru margir læknar í hlutastarfi, sem ógnar öryggi sjúklinga og gerir rekstur spítalans óhagkvæman. Skýrsla McKinsey um stöðu Landspítalans, sem kom út í síðustu viku, tekur í sama streng. Þar kemur fram að 30% lækna Landspítala eru í hlutastarfi en eingöngu 3 – 7% lækna á sjúkrahúsunum sem voru til samanburðar. Ef yfirlæknar eru undanskyldir er hlutfallið á Landspítalanum þannig að um helmingur lækna er í hlutastafi.

Skýrari markmið

Skýrslan sýnir auk þess fram á alvarleg áhrif sem einkarekstur getur haft, ef ekki er vel haldið utan hann. Hálskirtlatökur eru t.d. óeðlilega algengar á Íslandi. Og reyndin er að við tökum hálskirtlana úr gríðarlegum fjölda barna. Það gengur þvert á bestu ráðleggingar og þróunina í öðrum ríkjum og skapar auk þess óþarfa áhættu. En mjaðmaskiptaaðgerðir eru hins vegar allt of fáar í samanburði við önnur Evrópuríki. Svo virðist sem að flóknar og lífsnauðsynlegar aðgerðir séu síður í forgangi. Við verjum peningunum frekar í það sem er einfalt og ódýrt.

Órjúfanleg bönd

En Landspítalinn er ekki eyland heldur hluti af heilu heilbrigðiskerfi um allt land og svo að þjóðarsjúkrahúsið geti sinnt sínum skyldum þarf önnur þjónusta að vera góð. Stóru sjúkrahúsin, sjúkraflutningar, minni heilbrigðisstofnanir, hjúkrunarheimilin og heimaþjónustan. Allt tengist þetta órjúfanlegum böndum.

Verkefnið er því stærra en eingöngu að auka fjármagnið, en það sem ég get gert sem stjórnmálamaður er að setja nægt fjármagn inn í heilbrigðisþjónustuna og gefa okkar færustu sérfræðingum og stofnunum tækifæri til að þróa bestu heilbrigðisþjónustu í heimi.

Flokkar: Óflokkað

Þriðjudagur 30.8.2016 - 21:31 - 2 ummæli

Um eftirlaun

Stutt ræða á Alþingi 30. ágúst 2016

Herra forseti

Ísland er ríkt land og hér á að vera best í heimi að lifa, eldast og eiga gott ævikvöld. Það er samt ekki hægt að segja að þannig sé staða allra sem eldri eru hér á landi. Of margir eldri borgarar lifa eingöngu á lágmarkseftirlaunum sem í dag eru 212 þús. kr. á mánuði. Er einhver hér í þessum sal sem getur lifað á rúmum 200 þús. kr. á mánuði? Nei, ég held ekki. 

Eldri borgarar eru augljóslega af báðum kynjum og fátækt er jafn slæm hvort sem um er að ræða karl eða konu. En samt sem áður er erfitt að horfa fram hjá því að kynbundinn launamunur hefur ekki aðeins áhrif á laun kvenna þegar þær eru ungar, launamunurinn hefur áhrif á öll réttindi sem þær ávinna sér á vinnumarkaði. Konur frá lægri orlofsgreiðslur en karlar og lægri eftirlaun. Þannig eru konur líklegri til að búa við fátækt á sínum efri árum. Margar konur vinna í láglaunastörfum og aðrar hafa unnið hlutastörf vegna ábyrgðar á börnum og heimili, öldruðum foreldrum eða öðrum ættingjum. Þar að auki sjáum við iðulega skýr merki þess að konur reki höfuðið í glerþakið og fái ekki sömu tækifæri og framgang á vinnustöðum og karlmenn. Það hefur líka áhrif á launin og á eftirlaunin.

Ef við getum skipt þjóðarkökunni með réttlátari hætti getum við auðveldlega bætt kjör eldri borgara. Við höfum vel efni á því að hækka lágmarksgreiðslur afturvirkt og framvegis í takt við aðrar launahækkanir í landinu. Það er reisn yfir þjóð sem veitir öldruðum og öryrkjum líka mannsæmandi laun. Samfylkingin ætlar að hækka eftirlaunin, setja á sveigjanleg starfslok og einfalda fólki að skilja og verja rétt sinn svo það geti lifað með reisn ævina út.

 

Flokkar: Óflokkað

Föstudagur 26.8.2016 - 14:14 - 4 ummæli

Veiðar og velferð

Við Íslendingar erum ekki sammála um hvernig eigi að skipta arðinum sem auðlindirnar okkar skapa og endalausar deilur eru um málið ár eftir ár. Þó margt hafi tekist vel í sjávarútvegi hér á landi þá vantar enn réttlætistilfinninguna um að samfélagið allt njóti góðs af auðlindanýtingunni eins og best verður á kosið.

Kvótakerfi var sett á af umhverfisástæðum til að vernda nytjastofnana og framsal kvóta var heimilað af efnahagsástæðum. Það hefur leitt til gríðarlegrar hagræðingar í greininni. Sú aðgerð hefur hins vegar haft neikvæð samfélagsleg áhrif. Með sölu kvóta er mögulegt að kippa í einni svipan stórum stoðum undan heilu byggðarlögunum. Fólkið í sjávarbyggðunum hefur borið kostnaðinn af hagræðingunni en ágóðinn að mestu runnið til einkaaðila. Og fólki finnst það óréttlátt og deilurnar halda áfram.

Ef gjöld og skattar eru of há er það almennt talið hafa slæm og bjagandi áhrif á samfélög og efnahagslíf. Það er því viðfangsefni stjórnmálamanna að finna jafnvægi milli skattheimtu og þeirrar velferðarþjónustu og útgjalda sem þeim er ætlað að standa undir. Það er hins vegar ein tegund skatta sem hagfræðingar eru almennt sammála um að hafi ekki slæm eða bjagandi áhrif og það eru auðlindaskattar og auðlindagjöld. Það eigum við að sjálfsögðu að nýta okkur.

Réttlæti og gagnsæi

Gallinn getur verið sá að ef hið opinbera handvelur þá sem fá nýtingarréttinn, þá verða sífelldar deilur um það og einnig um auðlindagjöldin ef við stjórnmálamennirnir ákveðum þau. Þessi vandamál er hægt að leysa hér á landi með útboðum á aflaheimildum. Útboði sem tryggir fullt verð með reglum sem banna eignasöfnun á fárra hendur og tekur tillit til byggðasjónarmiða. Nýtingarrétturinn ákvarðast með útboðunum og markaðurinn ákvarðar verðið og enginn deilir um það.

Kvótaútboð eru þegar stunduð á Íslandi en þau eru alfarið í höndum einkaaðila. Nú geta þeir sem fá úthlutað kvóta stungið fullu verði í eigin vasa með því að selja og leigja kvóta til þriðja aðila. Sem dæmi má nefna að kvótalitlar útgerðir þurfa að greiða stærri útgerðum 200 krónur fyrir kílóið af þorski í veiðigjald á meðan ríkið innheimtir aðeins 13 krónur. Eina breytingin með útboði á aflaheimildum er því sú að þá mun þjóðin sjálf, eigandi auðlindarinnar, stunda frumútboð á heimildum og njóta arðsins.

Ef við gætum verið viss um að tekjurnar renni til uppbyggingar í sveitarfélögunum vítt og breitt um landið og til heilbrigðisþjónustu sem sárlega vantar fjármagn, mundi nást sú sátt sem nauðsynleg er um fiskveiðikerfið. Útgerðarmenn þyrftu þá ekki lengur að treysta á að stjórnmálamenn ákveði veiðigjald sem er þeim þóknanlegt og gætu treyst því að ekki sé verið að hygla einum umfram aðra. Fólkið í landinu fengi notið arðsins af auðlindinni til uppbyggingar í sveitarfélögunum og til almennrar velferðar. Það er réttlátt.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Oddný G. Harðardóttir
Þingmaður Samfylkingarinnar jafnaðarmannaflokks Íslands.
RSS straumur: RSS straumur