Markmiðið með skattkerfinu okkar er að afla ríkissjóði tekna til að standa undir rekstri, greiða niður skuldir og fleira en einnig að stuðla að jöfnuði í samfélaginu. Þrepaskipt skattkerfi eins og við búum við og komið var á af ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur er vel til þess fallið að ná þeim markmiðum. Það gerir einnig hækkun persónuafsláttar sem hækkai um 45% undir stjórn jafnaðarmanna auk þess sem persónuafláttinn er verðtryggður frá 1. janúar 2012. Þannig heldur hann gildi sínu gagnvart ört rýrnandi krónu og ver kjör þeirra sem lægstu launin hafa.
Með þessu er byrðunum dreift þannig að þeir greiða hlutfallslega meira í sameiginlega sjóði sem meira hafa úr að spila en þess gætt að þeir sem verr standa greiði hlutfallslega minna. Greiningar hafa sýnt að niðurstaðan er eins og að var stefnt: 60% heimila í landinu greiða sama hlutfall eða hlutfallslega lægri skatta nú en þeir gerðu fyrir skattkerfisbreytinguna en þau 40% sem betur standa greiða nú meira til samfélagsins. Við öflum þannig tekna fyrir ríkissjóð og aukum jöfnuð í samfélaginu um leið. Hið opinbera fær tekjur sem aflað er í þremur þrepum með hlutfallslega lægi sköttum fyrir þá tekju minni. Réttlætinu væri ekki fullnægt með flötum skatti. Réttlætið fæst ekki með einfaldleikanum, a.m.k. ekki í þessu tilfelli.
Eitt af fjölmörgum kosningaloforðum Sjálfstæðismanna var að lækka tekjuskatt einstaklinga og að hann verði jafnframt í einu þrepi. En hvað þýðir þetta fyrir heimillin í landinu? Sjálfstæðismaðurinn Guðlaugur Þór Þórðarson óskaði eftir skýrslu frá fjármálaráðherra á síðasta ári þar sem greina ætti áhrif þess ef tekjuskatthlutfall launa yrði í einu þrepi. Niðurstöður þeirrar skýrslu ættu sem flestir að kynna sér og hana er að finna á slóðinni http://www.althingi.is/dba-bin/Aferill.pl?ltg=140&mnr=254.
Það er skemmst frá því að segja að niðurstaða greiningarinnar er skýr og ótvíræð. Ef tekinn væri upp tekjuskattur einstaklinga með skatthlutfall í einu þrepi færist skattbyrðin óhjákvæmilega neðar í tekjudreifingunni þannig að þeir sem eru með lágar tekjur borga hærri skatta á meðan hinir sem eru tekjuhærri borga minna en áður. Skattur hinna tekjuhærri lækkar við einföldunina. Þetta er samt markmið Sjálfstæðismanna og kosningaloforð og stefna nýrrar ríkisstjórnar. Þar með er nokkuð ljóst í þágu hvaða heimila þeir flokkar stafa. Fyrir heimili þeirra efnameiri á kostnað þeirra efnaminni. Það er því miður undirtónn samstarfsyfirlýsingar ríkisstjórnar Framsóknar og Sjálfstæðismanna