Miðvikudagur 22.5.2013 - 21:29 - 5 ummæli

Einfaldara skattkerfi í þágu hvaða heimila?

Markmiðið með skattkerfinu okkar er að afla ríkissjóði tekna til að standa undir rekstri, greiða niður skuldir og fleira en einnig að stuðla að jöfnuði í samfélaginu. Þrepaskipt skattkerfi eins og við búum við og komið var á af ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur er vel til þess fallið að ná þeim markmiðum. Það gerir einnig hækkun persónuafsláttar sem hækkai um 45% undir stjórn jafnaðarmanna auk þess sem persónuafláttinn er verðtryggður frá 1. janúar 2012. Þannig heldur hann gildi sínu gagnvart ört rýrnandi krónu og ver kjör þeirra sem lægstu launin hafa.

Með þessu er byrðunum dreift þannig að þeir greiða hlutfallslega meira í sameiginlega sjóði sem meira hafa úr að spila en þess gætt að þeir sem verr standa greiði hlutfallslega minna. Greiningar hafa sýnt að niðurstaðan er eins og að var stefnt: 60% heimila í landinu greiða sama hlutfall eða hlutfallslega lægri skatta nú en þeir gerðu fyrir skattkerfisbreytinguna en þau 40% sem betur standa greiða nú meira til samfélagsins. Við öflum þannig tekna fyrir ríkissjóð og aukum jöfnuð í samfélaginu um leið. Hið opinbera fær tekjur sem aflað er í þremur þrepum með hlutfallslega lægi sköttum fyrir þá tekju minni. Réttlætinu væri ekki fullnægt með flötum skatti. Réttlætið fæst ekki með einfaldleikanum, a.m.k. ekki í þessu tilfelli.

Eitt af fjölmörgum kosningaloforðum Sjálfstæðismanna var að lækka tekjuskatt einstaklinga og að hann verði jafnframt í einu þrepi. En hvað þýðir þetta fyrir heimillin í landinu? Sjálfstæðismaðurinn Guðlaugur Þór Þórðarson óskaði eftir skýrslu frá fjármálaráðherra á síðasta ári þar sem greina ætti áhrif þess ef tekjuskatthlutfall launa yrði í einu þrepi. Niðurstöður þeirrar skýrslu ættu sem flestir að kynna sér og hana er að finna á slóðinni http://www.althingi.is/dba-bin/Aferill.pl?ltg=140&mnr=254.

Það er skemmst frá því að segja að niðurstaða greiningarinnar er skýr og ótvíræð. Ef tekinn væri upp tekjuskattur einstaklinga með skatthlutfall í einu þrepi færist skattbyrðin óhjákvæmilega neðar í tekjudreifingunni þannig að þeir sem eru með lágar tekjur borga hærri skatta á meðan hinir sem eru tekjuhærri borga minna en áður. Skattur hinna tekjuhærri lækkar við einföldunina. Þetta er samt markmið Sjálfstæðismanna og kosningaloforð og stefna nýrrar ríkisstjórnar. Þar með er nokkuð ljóst í þágu hvaða heimila þeir flokkar stafa. Fyrir heimili þeirra efnameiri á kostnað þeirra efnaminni. Það er því miður undirtónn samstarfsyfirlýsingar ríkisstjórnar Framsóknar og Sjálfstæðismanna

 

Flokkar: Óflokkað

Fimmtudagur 16.5.2013 - 22:50 - 8 ummæli

Fær nýtt og réttlátara almannatryggingakerfi framgang?

Guðbjartur Hannesson, velferðarráðherra, lagði fram á síðasta þingi nýtt frumvarp um almannatryggingar. Meginmarkmiðið er að einfalda löggjöfina, skýra betur réttindi lífeyrisþega og styrkja stöðu aldraðra. Einnig munu greiðslur almannatrygginga til ellilífeyrisþega hækka í kjölfar breytinganna.

Róttækar breytingar
Með frumvarpinu er brotið blað þar sem að róttækar breytingar eru lagðar til. Þær eru fjölmargar en þær stærstu eru í samræmi við meginmarkmiðið og snúa að margvíslegum réttindamálum ellilífeyrisþega sem munu styrkja stöðu þeirra og einfalda kerfið. Meðal breytinganna er eftirfarandi:

  • Bótaflokkarnir ellilífeyrir, tekjutrygging og heimilisuppbót sameinaðir.
  • Dregið úr tekjutengingum og frítekjumörk afnumin.
  • Ekki verður lengur horft til þess hvaðan tekjurnar koma, heldur lækkar lífeyrir um 45% af tekjum, hvort sem það eru atvinnutekjur, lífeyrissjóðstekjur eða fjármagnstekjur.
  • Ellilífeyrisþegar sem fá greidda uppbót vegna framfærslu munu ekki sæta því að uppbótin lækki um krónu á móti krónu fái þeir einhverjar tekjur. Samkvæmt frumvarpinu verður dregið úr þessum áhrifum tekna í áföngum og fer í 45% á þremur árum.
  • Skýrt er kveðið á um markmið og tilgang laganna.
  • Mánaðarlegar lífeyrisgreiðslur greiddar eftir á, líkt og almennt gildir um launagreiðslur á vinnumarkaði.
  • Framsetningin er öll bætt og einfölduð, ítarlega er kveðið á um málsmeðferð og stjórnsýslu og áhersla lögð á leiðbeiningar- og upplýsingaskyldu stjórnvalda.

Forgangsröðun nýrrar ríkisstjórnar
Í gegnum tíðina hefur almannatryggingakerfið orðið æ flóknara þannig að þeir sem eiga að njóta þess eiga erfitt með að skilja hver réttur þeirra er. Starfshópurinn sem skipaður var hagsmunaaðilum og stjórnmálamönnum vann mjög gott starf undir stjórn Árna Gunnarssonar, fyrrverandi alþingismanns, við að undirbyggja frumvarpið. Vegna umfangs verksins náðist ekki að gera frumvarpið að lögum en það er tilbúið, fyrsta umræða fór fram við síðustu þinglok og umsagnir komnar í hús. Ekkert er því að vanbúnaði að gera frumvarpið að lögum á næsta sumarþingi ef vilji nýs þings stendur til þess. Um er að ræða mikla og löngu tímabæra kjarabót fyrir eldri borgara þessa lands. Þar sem starfshópurinn sem vann grunninn að frumvarpinu er þverpólitískur bind ég vonir við að ný ríkisstjórn muni vinna að framgangi málsins strax á sumarþinginu.

Vonandi liggur nýrri ríkisstjórn ekki meira á að afnema veiðileyfagjaldið, sem er hlutdeild þjóðarinnar í umtalsverðum arði sem sérleyfi að auðlindinni skilar. Framar í forgangsröðinni hjá nýrri ríkisstjórn verður vonandi að bæta kjör þeirra sem eiga allt sitt undir góðum almannatryggingum.

 

Flokkar: Óflokkað

Sunnudagur 13.11.2011 - 13:14 - Lokað fyrir ummæli

Frá ójöfnuði til jafnaðar

Eins og öllum lesendum er kunnugt var samdráttur á Íslandi verulegur eftir efnahagshrunið. Með aðgerðum stjórnvalda voru áhrif kreppunnar milduð með minni niðurskurði á velferðarstofnanir en aðra þjónustu ríkisins og einnig voru tilfærslur til heimila og bótagreiðslur eftir hrun  umtalsvert hærra hlutfall af vergri landsframleiðslu en í svokölluðu góðæri.  Þar kemur tvennt til. Bæði drógust  tilfærslur og bótagreiðslur ekki saman í sömu hlutföllum og landsframleiðsla og einnig eru bætur hærri nú en fyrir hrun.

Fjárhæðum er skipt með allt öðrum hætti en áður og megináherslan á að auka jöfnuð og verja þá tekjulægstu.

Mér finnst mikilvægt að minna á að þó erfiðleikar of margra heimila séu verulegir þá hefur þróunin frá árinu 2004 verðið sú að hlutfall aldraðra í miklum erfiðleikum með að ná endum saman lækkaði verulega árið 2010 en heimila almennt fór úr 9% árið 2004 í 13% 2010. Ástandið fer hægt batnandi frá hruni en það er áhyggjuefni að um helmingur heimila segi að þau eigi í erfiðleikum með að ná endum saman í samanburði við þriðjung heimila í góðærinu svokallaða og við því þarf að bregðast.

Þessar staðreyndir er nauðsynlegt að skoða þegar metnar eru aðgerðir stjórnvalda eftir hrun. Þriðjungur heimila var í erfiðleikum að ná endum saman árið 2008 þegar þunga höggið kom. Það fólk varð verst úti við hrunið. Þó enginn mannlegur máttur, ekki einu sinni Samfylkingarinnar, hefði getað komið í veg fyrir að allur almenningur finndi á eigin skinni fyrir slæmum afleiðingum efnahagshrunsins, skiptu áherslur vinstristjórnarinnar miklu máli. Þær voru og eru þær að aðstoða þá sem verst eru staddir og dreifa byrðum í átt til jöfnuðar og réttlætis. 

Tekjuskattsbreytingar stjórnvalda hafa skilað tilætluðum árangri. Kjaraskerðing varð í öllum tekjuhópum við hrunið, hlutfallslega minnst hjá láglaunahópum en mest hjá þeim tekjuhæstu. Um 60% launþega greiða lægri skatta eftir skattkerfisbreytingarnar stjórnvalda en 40% launþega, þeir sem hafa hæstu tekjurnar, hlutfallslega hærri skatta.

Ójöfnuður jókst verulega á árunum fyrir hrun en nú hefur jöfnuður aukist sem er mjög jákvætt því viðurkenndar rannsóknir sýna nefnilega að með því að auka jöfnuð fylgi í kjölfarið betri félagsleg og andleg vellíðan allra í samfélaginu.

Flokkar: Óflokkað

Mánudagur 26.9.2011 - 19:53 - Lokað fyrir ummæli

Vald fjölmiðla

Rætt er um í fjölmiðlum að mikil átök verði á Austurvelli 1. október og þar muni mótmæli beinast að stjórnmálamönnum. Sameiginlegi óvinurinn er fundinn, það eru stjórnmálamenn svona yfirleitt sem beina skal spjótum að. „Sjáið þið bara hvernig þeir láta, tala um sauðnaut í málþófi um stjórnsýslubætur!“ segja menn. Að stjórnmálamenn hrópi og kalli um minnstu mál og öllu sé haldið í átakaferli.

Hverjir eru það sem hrópa og kalla? Hverjir voru það sem töluðu um sauðnaut og héldu uppi málþófi um þjóðþrifamál? Það voru einstaka þingmenn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar. Nokkrir fulltrúar þeirra flokka sem setið höfðu lengi á valdastólum og lögðu grunninn að efnahagshruninu, sýna „umbótavilja“ sinn með þessum hætti.

Málþóf er ósiður hér á landi sem nauðsynlegt er að uppræta en ég harðneita því að stjórnmálamenn séu allir sem einn hinn sameiginlegi óvinur þjóðarinnar. Við verjum flest öllum okkar stundum við að finna leiðir til að spyrna þjóðinni upp úr kreppunni og til að hér megi leggja grunn að betra þjóðfélagi. Krafan sem virðist vera gerð nú, þremur árum eftir hrun efnahagslífs og samfélags, er að hér komi aftur ástand ársins 2007. Sú krafa er fullkomlega óraunhæf enda var það ástand byggt á froðu sem blásin var burtu haustið 2008.

Alhygli fjölmiðla er aðallega á þeim sem þæfa, hrópa og kalla. Á meðan hefur góður  árangur náðst við erfiðar aðstæður í glímunni við efnahagshrunið. Fremst í forgangi allra aðgerða er velferð þjóðarinnar og kjör þeirra sem minnst höfðu fyrir. Þó ekki sé endanlega búið að greiða úr vandanum sem hrunið olli hefur margt áunnist sem ekki fær athygli fjölmiðla, a.m.k. ekki í líkingu við þá athygli sem upphrópanir einstaka stjórnarandstæðinga fá.

Hrunið var hræðilegt og óréttlátt en það gaf okkur hins vegar tilefni til að hanna forgangsröðun okkar að nýju og skerpa þá sýn sem við höfum á gott samfélag. Mín von er sú að sá stjórnarmeirihluti sem nú er til staðar fái stuðning til að klára ætlunarverk sitt, sem er að leiða þjóðina út úr miklum vanda og byggja upp samfélag réttlætis og jöfnuðar.

Flokkar: Óflokkað

Höfundur

Oddný G. Harðardóttir
Þingmaður Samfylkingarinnar jafnaðarmannaflokks Íslands.
RSS straumur: RSS straumur