Mér hefur oft verið tíðrætt um sveitina mína þar sem ég bý nú og ekkert síður þá gömlu góðu í Hjaltadalnum í Skagafirði. En til er önnur veröld sem bauð upp á mikið frelsi og sem er ekki er í sveit sett en tilheyrir engu að síður ævintýralandi í huga barns sem þar ólst upp og mótaði huga þess og væntingar um alla framtíð, gamli Vesturbærinn í Reykjavík.
Reykjavík er önnur í dag en hún var fyrir nokkrum áratugum síðan. Afskaplega breytt eftir torgum og hverfum og miklu stærri. Nýlega höfum við síðan verið rækilega minnt á að skapa þurfi nýja og skemmtilegri höfuðborg. En hvernig borg viljum við og ef til vill höfum við misst sjónar á mikilvægustu gildunum í sköpun heimsborgarinnar Reykjavík á síðustu áratugum. Höfum við sniðgengið gömlu góðu gildin sem sköpuðu hina gömlu góðu og öruggu Reykjavík sem gerðu hana líka svo sérstaka og skemmtilega að alast upp og búa í? Það er nefnilega ekki nóg að friða bara gömul hús, skipuleggja ný hverfi og reisa glæsilegar byggingar og hallir.
Breytingar sem hafa orðið á borginni gegnum árin eru manni hugleiknar í dag en fortíðarþráin er oft skammt undan. Auðvitað hljóta einhverjar breytingar að hafa verið til góðs. Þjóðfélög breytast mikið með árunum og sama hljóta borgirnar að gera, en samt helst í takt. Og markmiðið hlýtur alltaf að vera að gera góða borg betri en þar stendur hnífurinn einmitt í kúnni hvað Reykjavík varðar. Mín upplifun er, og sennilega flestra eldri Vesturbæinga að minnsta kosti, að það hljóti að vera miklu LEIÐINLEGRA að alast upp sem barn í gömlu hverfi í Reykjavík í dag en það var fyrir nokkrum áratugum síðan, þrátt fyrir perlur, ráðhús og nokkra leikskóla. Miðbærinn sem tengir gömlu hverfin hefur fyrst og fremst þróast fyrir næturlífið, frelsið og skemmtilegir útivistarmöguleikar fyrir börn farið. Umferðin hættulegri og bílafjöldinn að kaffæra hverfin.
Ákveðnar góðar minningar frá Vesturbænum í æsku standa upp úr í mínum huga og gaman er að rifja upp nú á þessum tímamótum í sögu Reykjavíkur þegar fólkið sjálft telur sig hafa tekið völdin af stjórnmálamönnunum. Fjaran við Grandaveg var fjársjóðaströnd, uppfull af gömlu dóti sem sumpart hafði skolast á landi og gaman var að skoða og alltaf var nóg af eldiviði í góðar fjörubrennur. Jafnvel fornminjar fundust í moldarbökkum og fjörusandinum eins og t.d. ryðgað víkingasverð sem komið var til skila með viðhöfn á Þjóðminjasafnið, auk ýmissa djásna og jafnvel gamalla peninga. Í fjörunni entist maður endalaust en viðkomustaðirnir á leiðinni til og frá heimili gátu verið margir. Dagurinn var alltaf of fljótur að líða og oft var komið myrkur áður en maður vissi af. Rambler umboðið hjá Jóni Loftsyni og jakkaklæddu vinirnir mínir í hvítu skyrtunum með lakkrísbindin buðu upp á plaköt og myndir af amerískum eðalvögnum sem maður lofaði að kaupa síðar. Það var að einhverju að stefna í lífinu, bítlatímabilið að hefjast og bjartsýnin allsráðandi. Gömlu bátarnir í Örfirisey og í Daníelsslipp voru heimsóttir í lengri ferðunum og kíkt í erlend blöð sem þar fundust, jafnvel þótt maður væri varla orðin læs eða byrjaður í skóla. Nokkur gömul tóm hús stóðu manni opin, a.m.k. var enginn til að banna manni að koma í heimsókn. Farið í Ellingsen niður á Vesturgötu og keypt garn og bambusstangir sem notaðar voru til annarra hluta en innflytjendur höfðu reiknað með og sem seldust alltaf upp. Okkur vantaði alltaf veiðistangir, boga, spjót og sverð.
Stríð voru haldin reglulega í görðunum kringum Bárugötuna og þá gjarna við Ránargötuna en góðir bandamenn fundust á Öldugötunni. Kjöraðstæður voru fyrir indíána- og kúrekaleiki enda nóg af gróðri í görðunum til að fela sig í og steinveggirnir voru sem kastalar, gáfu skjól, voru samgöngumannvirki og sköpuðu landamæri. Bakleiðir og leynistígar lágu víða og ekki allra að þekkja bestu leiðirnar. Þessar samgöngur gátu ráðið milli lífs og dauða. Manndómsvígslurnar voru margar, m.a. prófað að reykja njóla en reykurinn og aníslyktin líður manni aldrei úr minni. Brennibolti í götunni á kvöldin á vorin. Ævintýri og leikir á hverjum degi.
Menningin var líka allsráðandi, jafnvel fyrir lítil börn og litla hverfið í nágrenni miðbæjarins var eins og stórborg. Landakotskirkjan minnti á sjálft Rómarveldið og Landakotsspítalinn á sjálfa eilífðina. Þar við hliðina á Öldugötunni var gamli Stýrimannskólinn sem lagði fyrstu drög að skóalgöngunni og hvaða stefna væri tekin út í lífið. Háskólabíó var sem höll, jafngömul manni sjálfum og sem fullvissaði mann síðan endanlega um að Reykjavík væri heimsborg. Harpan sem taka á við Symfóníuhljómsveitinni bráðlega og gera borgina enn frægari en hún er, á Háskólabíói í raun allt að þakka. Aðrar merkar byggingar sem sóttar voru í göngufæri gerðu lífið ekki síður skemmtilegt á sunnudögum, Tjarnarbíó, Gamla bíó, Nýja bíó, Austurbæjarbíó, Hafnarbíó og síðar Stjörnubíó. Jafnvel Tívolí í Vatnsmýrinni um tíma. Og svo var farið á skauta á Tjörninni eða Melavellinum á veturnar, jafnvel á gönguskíði og ferðast um á skautasleða. En hvað gera börnin í dag sér til skemmtunar?
Í Vesturbænum var auðvelt að vinna sér inn vasapening, til einkaneyslu fyrir sjálfan sig auðvitað. Og oft átt maður nóg af þeim. Útburður blaða gaf mikið í aðra hönd og oft komust á aðrir viðskiptahættir en með peningum og kenndir eru við viðskiptavild og vöruskipti enda nóg af aukablöðum. Allir græddu. Einnig að annast viss viðskipti fyrir stórkaupmenn og sjá um að rukka þá sem þráuðust við að borga skuldirnar sínar. Hjólið góða var heldur aldrei langt undan svo fjarlægðir urðu afstæðar. Fáir vildu eiga yfir sér strákpjakk sem lét þá aldrei í friði og var kallaður því saklausa nafni sendisveinn.
Margir Reykvíkingar sem komnir eru yfir miðjan aldur muna líka vel eftir braggahverfinu í Skjólunum og sem reyndar var þá á fleiri stöðum í borginni. Gegnum þetta hverfi þar sem nú liggur Kaplaskjólsvegur þurfti maður oft að ganga ef stytta átti sér leið að Vesturbæjarsundlauginni góðu sem þá var nýbygging í heimsklassa og stakk verulega í stúf við braggana sem maður var nýbúinn að ganga fram hjá. Tákn nýrra tíma í Reykjavík og fiskabúrið góða sem nú er búið að endurnýja nýlega, minnti á framandi heima og eilífðartengsl við sjóinn og allt vatnið okkar. Í Vesturbæjarlaugina voru börn ávallt velkomin, jafnvel ein síns liðs og það þurfti ekki mikla hvatningu til sundkennslu í þá daga. En á leiðinni hafði maður þó séð vesöld og fátækt sem nokkrum árum síðar var eins og hefði verið sópað út af yfirborði jarðar en sem hafði verið merki um vaxtarbrodd borgarinnar aðeins rúmum áratug áður. Þá flykktist fólkið til höfuðborgarinnar úr sveitum landsins í von um betri tíð með blóm í haga.
Rúmum tveimur áratugu síðar gerðum við hjónin ásamt nágrönnum okkar upp hús á Bárugötunni. Fallegu húsin og litaglöðu húsþökin, hvert með sínu sniði og garðana frægu hafði sitt að segja þegar búsetan var valin. En nú var öldin önnur og vandamálin virtust hafa hrannast upp og hafa reyndar gert enn meir síðan þá. Mög húsin illa farin og illa viðhaldið. Göturnar orðnar hættulega þröngar vegna bílamergðar. Og nú var farið að leggja jafnvel þversöm til að hægt væri að leggja fleiri bílum við gangstéttarnar og jafnvel stöðumælar næst miðbænum. Fáa krakka að sjá í görðunum sem margir voru að kafna úr órækt. Gamla fjaran farin og ekki hægt að ganga sandfjörur, aðeins brimgarður og fuglalífið orðið fátæklegt við ströndina. Bátarnir í Örfirisey farnir og Daníelslippur óaðgengilegur með öllu fyrir börn. Enginn brennibolti á kvöldin. Göngutúrarnir um göturnar minntu mann síðan oft meira á jarðaför með yfirþyrmandi góðum endurminningum en algjörri stöðnun og í raun afturför. Gömlu húsin eins og gamlingjar sem vildu segja sögu en gátu það ekki, samt virðuleg og falleg. Þeirra tími virtist liðinn. Þegar umhverfið var svo farið að verða íþyngjandi, elliglöp hverfisins allsráðandi og frelsistilfinningin farin var rétt að huga að flutningi og leita á önnur mið. En svona þarf þetta ekki að vera og gömul hús geta átt sér nýja lífdaga ef hverfið sjálft er öflugur lífgjafi. En Vesturbærinn gamli virtist aðeins hafa verið barn síns tíma eða hvað. Hann var þó góður gististaður á langri leið og hver veit hvað gerist í framtíðinni.
Vesturbæjarnostalgían lifir þannig alltaf í manni og stutt er í gamlar góðar endurminningar úr Vesturbænum. Og það skiptir auðvitað alltaf miklu máli hvar maður býr hverju sinni. Hver borg og hvert hverfi hefur sinn sjarma, kosti og galla. Og sagan er aldrei eins. Í dag hentar þetta og annað á morgun. Í dag vel ég frekar náttúruna, frelsið og sveitina mína. En vekja þarf samt Þyrnirós upp af svefninum langa í gamla góða Vesturbænum og gera bæinn aftur SKEMMTILEGAN í það minnsta, og eins og reyndar Besti flokkurinn benti réttilega á fyrir kosningar. Húsin verða að fá meira af ungu fólk með börn til að leika í görðunum og jafnvel á götunum. Gera þarf húsin upp og taka þarf til í görðunum. Reisa bílaskýli og takmarka þessa miklu bílaumferð um göturnar. Það ætti a.m.k að vera markmið nýju borgarstjórnarinnar eins og kosningaloforðin báru með sér. Miðbæjarrottugangur langtaðkominna og krármenning fram á rauða nótt hafa haft slæm áhrif á gamla Vesturbæinn og sogað úr honum lífið. Nú er þar oft vart svefnfriður á nóttunni fyrir hávaða, látum og óeðlilegri umgengni. Íbúarnir hér áður vildu menningarlíf, ekki næturlíf. Við þurfum heldur ekki að leggja svona mikla áherslu á að skemmta útlendingum í miðbænum um helgar og á nóttunni eins og flugfélögin og kráareigendurnir vilja nú, m.a. undir einkunnarorðunum „Inspired by Iceland“. Gamli bærinn allur er ein heild sem á að fá að lifa.