Mánudagur 09.08.2010 - 18:28 - FB ummæli ()

Skeytin tekin

Allir þekkja sögu fjarskipta þar sem morsið gegndi veigamiklu hlutverki, ekki síst þegar koma þurfti nauðsynlegum upplýsingum hratt og örugglega til skila. SOS morsið er sennilega frægasta ákallið um hjálp sem þarf að berast tafarlaust.

Í sveitinni í gamla daga þurfti bóndinn alltaf að fylgjast með skeytunum nokkrum sinnum á dag, „taka skeytin“ og átti þá við að hlusta á veðurfréttirnar, eitthvað sem skipti hann og lífsafkomu fjölskyldunnar greinilega miklu máli. Um leið fékk hann sér í pípu og  gjarnan einn kaffisopa. Upphafið af orðatiltækinu var samt frá þeim tíma þegar skipsstjórnendur þurftu að fá allar sínar upplýsingar frá umheiminum með mors-skeytasendingum. Að hafa „tekið við“ skeytunum gerðu menn að vissu leiti líka ábyrga enda veður oft válynd, skipsskaðar tíðir og mörgum mátti bjarga með að leita í var. Þjóðfélaginu okkar hefur reyndar oft verið líkt við fleyg sem bjarga verður frá nýju strandi. Og veðrin í dag eru ekkert síður válynd þótt í annarri mynd sé. Við ættum líka að vera reynslunni ríkari að hafa ekki hlustað og tekið við skeytunum á sínum tíma.

En hvenær eru fréttir ákall um hjálp eða viðvörun og hvenær eru þær eitthvað allt annað. Bloggið nú eru skeytasendingar almennings í samfélaginu, þörf fyrir að miðla upplýsingum manna á millum, mis mikilvægt, stundum skýrt, stundum óskýrt. Stundum líka einmannaleg tjáning. Bloggið er samt almennur nútímamiðill, skrifað í bók eins og forðum. Einnig verkfæri til að leika sér með orð og hugtök.

Ég sakna þó ákveðins jafnvægis á milli netmiðlanna í dag, bloggsins, fréttablaðanna og ljósvakamiðlanna. Lítum aðeins nánar á tölvuvæðinguna og netmiðla sem gert hafa dagblöðin og hefðbundnar fréttaútsendingar ljósvakamiðla nánast gamaldags. Mogginn ekki lengur ómissandi og fréttablaðið heitir aðeins „Fréttablaðið“ eins og glöggur erlendur gestur nefndi nýlega í fréttaviðtali. Hlutirnir gerast svo hratt að frétt morgunsins er orðin gömul að kveldi og vart brúkleg lengur til flutnings. Aðhald og sparnaður hefðbundinna fréttamiðla hafa síðan takmarkað rannsóknafréttamennskuna, jafnvel þannig að ástandið hefur verið eins og þrúgandi þögn, eins og hefur sýnt sig endurtekið í sumar meðal annars á RÚV. Bloggið hefur hins vegar sýnt sig koma í veg fyrir algera þöggun, vera hið lifandi afl til skoðanamyndunar á öllum  tímum og sem fullkomnar fréttaflutninginn í einni hendingu.

Ókeypis netmiðlar hafa því miður verið sniðinn þröngur stakkur fjárhagslega og lítið geta lagt sig eftir hinni hefðbundnu  rannsóknablaðamennsku. Þeir treysta meira á að geta gripið upp fréttir og pistla sem birtast annars staðar, jafnvel hjá hinum hefðbundnu fréttamiðlum og virka þannig sem fréttatorg. En með blogginu er almenningur farinn að taka virkan þátt í túlkun fréttaefnis og í því fellst mikið frelsi á miðbæjartorginu. Duglegir bloggarar hafa eytt miklum tíma í upplýsingaöflun og eru margir hverjir hin óháða fréttavé og sem í raun sinnir rannsóknablaðamennskunni hvað best þessa daganna. En leikurinn er ójafn þegar kemur að því að umbuna fyrir erfiðið í launum enda um frjálst framtak einstaklinganna að ræða, sprottið upp af áhuga, leik og jafnvel frelsisþrá. Lífsbarátta einstaklingsins gengur alltaf fyrir og á einhverjum tímapunktum þarf að velja á milli frístundastarfsins og launastarfsins.

Netmiðlar eiga auðvitað að grípa tækifærið og fá hæfasta fólkið til liðs við sig. Það er ekki gripið upp af götunni og auðvitað best að fólk sem hefur sannað sig svo um munar, njóti. Eyjan hefur sýnt sig verða öflugur netmiðill og er það ekki síst Agli Helgasyni að þakka sem öflugum bloggara og pistlahöfundi. Á honum einum græðir Eyjan meira en á nokkurri annarri fréttastöð á torginu að mínu mati og skapar henni algera sérstöðu sem spegill þjóðarsálarinnar. Lára Hanna Einarsdóttir bloggari hefur einnig sannað sig að sama skapi að geta verið sjálfstæður netmiðill út af fyrir sig og væri skarð fyrir skildi ef hún sér sig knúna til að hætta vegna launaleysis fyrir störfin sín fyrir okkur öll hin. Og laun er jú aðeins þóknun fyrir veitta vinnu sem óskað er eftir. Aldrei hefur verið jafn mikil þörf á vinnu eins og hennar.

Fórnakostnaður hins almenna bloggara er alltaf tíminn sem flýgur hratt frá okkur fyrir framan skjáinn og í auknu mæli tölum við við sjálf okkur og ósýnilega fólkið. Það út af fyrir sig er áhyggjuefni og hefur löngum verið viðfangsefni geðlæknisfræðinnar. Takmörkun á mannlegum samskiptum er streituvaldandi til lengdar. Frétta- og netmiðlafíkn er handan við hornið sem náði nýjum hæðum eftir hrun þegar allir þurftu að fylgjast með öllum og hvað morgundagurinn bæri í för með sér. Þarna getur oft verið erfitt að skilja milli hófs og óhófs eins og gildir reyndar um alla góða siði.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn