Þriðjudagur 19.10.2010 - 13:59 - FB ummæli ()

Svartari en hrafninn

Við vitum flest að jólasveinninn eins og við þekkjum hann er ekki til og að ímyndinn er kaþólskari en sjálfur páfinn. Íslenski jólasveininn er ekki eins helgur enda fábrotnari og treystir minna á skrautið og brosið. En hvað skyldi liggja þarna að baki og við skulum ekki láta glepjast af góðlátlegu yfirbragðinu. Í dag er jólasveinninn fyrst og fremst manngerfingur verslunarinnar sem hefur lítið með anda jólanna að gera, eins og við öll vitum, og eins og reyndar sjálfir prestarnir eru duglegastir að minnast á fyrir jólin, börnum til mikillar armæðu.

Mikil umræða er nú aftur sprottin upp vegna tillagna fulltrúa meirihlutans í borgarstjórn, Besta flokksins um að leggja skuli alla kristinfræði niður í leik- og grunnskólunum Reykjavíkur og að banna skuli sálmasöngva. Hætt er við að með tilmælunum sé verið að fara öfganna á milli ef boðin koma án annars samhengis og sem hluti í viðameiri atburðarrás svo sem í fyrsta lagi aðskilnaðs ríkis og kirkju. Nú er tækifærið með nýrri stjórnarskrá Íslands á komandi stjórnlagaþingi svo hvernig væri að byrja þar? En skoðum aðeins málið betur og könnum forsendurnar.

Samviska þjóðkirkjunnar er svartari en hrafnsins þessa daganna og hún hefur sýnt það vel sl. misseri að hún er fyrst og fremst stofnun sem vill varðveita sjálfa sig, hvað sem það kostar. Almenningur hefur ekki afkristnast, það þarf meir til, heldur aðeins misst trúna á kirkjuna sína vegna viðbragða hennar sjálfrar á ögurstundu á verstu tímum í sögu þjóðarinnar í seinni tíð. Vonbrigðin eru svipuð og þegar barn hættir að trúa á jólasveininn en tekur samt þátt í jólahaldinu til að fá gjafir. Og hrafninn er lúmskur þótt hann sé oftast vinarlegur. Og hann er meinstríðinn og á það til að ráðast á börn.

Við höfum flest alist upp í kristni og siðferðisvitundin tekur mið af þeim lærdóm hvort sem okkur líkar betur eða verr. Um það eru flestir sammála en mikið álitamál er samt hvort við séum jafn siðuð og flestar aðrar þjóðir. Flestum er þó löngu orðið ljóst að kirkjan er aðeins hús og prestarnir manneskjur sem messa yfir öðrum manneskjum. Prestar hafa lært með predikunum sínum að höfða til samvisku fólks, fólks sem var innrætt í æsku barnstrú. Og barnstrúna upplifir maður alltaf sem sanna og hreina. Það er þó alltaf manninum eiginlegt að leita til sjálfsins sem býr innra með okkur. Barnssálin sjálf er þannig sönn og hrein og sem við meigum ekki rugla saman við barnstrúnna í trúarlegu samhengi heldur meira þá upplifun og reynslu sem barnæskan sjálf skapaði. En með því að halda í „barnstrúna“ að þá höldum við í sakleysið og þá einfeldni að við getum alltaf verið góð hvert við annað. Á sama máta og við slöppum af í heitu vatni, leitum við upprunans allt til móðurkviðar þegar við höfðum það svo gott. Síðan eldumst við og förum ýmsar leiðir.

Mannlegt eðli er flókið eðli og margþætt. Uppeldið hefur mest að segja ásamt erfðaþáttunum. Við erum að mörgu leiti sem ómótaður leir. Skelin harðnar síðan með tímanum en jafnframt verðum við brothættari. Í seinni tíð hefur komið í ljós að kirkjan er skeikul og hún býr við mikinn mannlegan beiskleika og er ekki síður brothætt en við sjálf. Við því er ekkert að segja. Umræða hefur t.d. verið í áratugi um hættu á kynferðislegri misbeitingu kirkjunnar á skjólstæðingum sínum, ekki síst gagnvart börnum. Þetta ættu allir að hafa vitað. Síðan kemur hluti af sannleikanum í ljós hér á landi eins og skellur.

Áfallið er hins vegar ekki að slíkir hlutir gátu gerst heldur meðhöndlun kirkjunnar sjálfrar á vandamálum sínum og með yfirhylmingu æðstu manna fram á þennan dag, vitandi að sóknarbörnin yrðu að fara með sannleikan í gröfina. Sjálfur biskupinn getur ekki einu sinni svarað til saka fyrir embættismisferli sitt og kirkjunnar sem stofnunar og sú hegðun látin líðast. Samsæri margra presta sem neituðu sannleikanum og fyrirgerðu um leið trúverðugleikanum hjá hinum almenna safnaðarmanni. Þeim hinum sömu sem þó sóttu sína barnaguðsmessur á sínum tíma í góðri trú og öðluðust sína barnstrú. Trú sem einfaldlega byggðist á trausti og góðri tilfinningu fyrir manninum. Þessa tilfinningu þarf ekki að kenna í skólunum og auk þess stefnum við á fjölmenningarsamfélag þar sem jafnrétti verður í hávegum haft. Börnin trúa á jólasveininn að því það hentar okkur fullorðnum .

Sjálfur fékk ég mína trúarfræðslu frá æskulýðssamtökum KFUM og KFUK sem séra Friðrik Friðriksson stofnsetti hér á landi. Innrætið sem mér hlotnaðist þar hefur dugað mér ágætlega enda fór saman starf og leikur, útivera og ævintýri. Seinna og á sama tíma var eini ávinningurinn að fara í barnamessur til að fá biblíumyndir til að geta fyllt í myndabókina góðu.

Stofnsettur var fyrri um þremur áratugum síðan leikskóli hér á landi sem hefur verið undir stjórn samtaka sem kennir sig við  hugmyndafræði Ananda Marga sem byggir á ný-mannúðarstefnu (Sælukot).  Börnunum er kennt að umgangast hvert annað sem og plöntur og dýr af virðingu og með kærleikann að leiðarljósi. Á hverjum degi hreiðra börnin um sig í Hringnum þar sem þau gera jógaæfingar, syngja og leggjast niður um stund með lokuð augun í hugleiðsluæfingum. Á undan og á eftir æfingunum er farið með svokölluð möntu-vers á sanskrít máli til að öðlast ró og jafnvægi. Og það gera þau svo sannarlega. Hvað er börnum mikilvægara í dag?

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · kirkjan · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn