Sumar tæknibreytingar í nútíma þjóðfélagi virðast vera til góðs. Sérstaklega á þetta við þegar tíminn skiptir miklu máli og við þurfum að komast fljótt á milli staða. Þá þurfum við að eiga góðan bíl og geta verið fljót að fylla á hann eldsneyti. Sem betur fer næ ég að keyra upp undir 7oo km á hverjum tanki á Príusnum mínum sem er afar sparneytinn bíll. Með því að sameina rafbílatæknina, bensínlykilinn í næsta sjáfsala og handarbandið við bensíndæluna spara ég bæði pening og tíma. En hvað með þjónustun almennt við bílinn og hvað má dropinn kosta mikið?
Fyrir nokkrum árum fóru biðraðirnar að lengjast og ganga hægar hjá gömlu olíufélögunum. Enn lengur núna meðan eftir afgreiðslufólkið afgreiðir fyrst pylsur og hamborgara fyrir mest þurfandi og sælgæti fyrir börnin í poka um helgar. Því fagna ég nú að geta sniðgengið þessa þjónustu og hef reyndar algjörlega sagt skilið við gamla félagið mitt sem hefur endurtekið brugðist væntingum mínum hvað þjónustu varðar. Ég fékk ekkert fyrir áratuga viðskiptatryggð. Ég naut reyndar á vissan hátt gömlu daganna þegar maður þurfti ekki að flýta sér eins mikið og afgreiðslumennirnir voru hálfgerðir kunningjar sem buðu upp á kaffisopa og spjall um daginn og veginn. En gömlu félögin mega eiga sig enda ekki viðskiptavæn fyrir þann sem fyrst og fremst þarf að fá fljóta og góða þjónustu við bílinn sinn en ekki helgarinnkaupin.
Sennilega er bensíndælan í dag samt einn besti tákngerfingurinn á verslunarháttum nútímans. Við erum háð henni í einu og öllu, fögnum henni með handarbandi og hneigjum okkur jafnvel fyrir henni í lokin. Jafnvel fyrstu dagana eftir hrun man ég að maður passaði sig á að heimsækja hana aðeins oftar, til að tankurinn væri alltaf fullur eins og ísskápurinn heima. Til að geta tórt nokkrum dögum lengur ef allt færi á versta veg.
Það skrítnasta við þetta allt saman er samt hvað bensínið hækkar á sama tíma og þjónustan á stöðvunum verður lakari og ópersónulegri. Álagningin hjá olíufyrirtækjunum hækkaði nýlega og í gær var enn ein hækkunin og gengi íslensku krónunnar og heimsmarkaðsverði á olíu kennt um. Lítrinn nú kominn yfir 200 króna markið og að vísu tekur ríkið helminginn til sín. Þrátt fyrir allt hefur samt gengi krónunnar verið að styrkjast, sérstaklega gegn bandaríkjadollar og heimsmarkaðsverðið verið stöðugt undanafarin misseri sem ætti að leiða til lækkunar en ekki hækkunar á verði olíu innanlands!
Og álagningin hækkar þrátt fyrir að að þú afgreiðir þig sjálfur úr sjálfsölum og sért jafnvel með lykili í áskrift. Þrátt fyrir að bensínstöðvarnar hafa farið út í vaxandi matvöru- og smávörusölu til að auka væntanlega afkomu sína og sem þær auglýsa nú sem aldrei fyrr, allt milli himins og jarðar! Jafnvel heilu upplögin af vel völdum bókatitlum að eigin mati, voru keypt upp fyrir þessi jól til að selja á bensínstöðvunum. Ævisögur útvalda sem eigendurnir vilja að sé jólagjöfin í ár og sem enginn skilur hvaða hagsmunir liggja að baki, nema þeir sjálfir og höfundarnir. Síðan koma forstöðumennirnir reglulega fram í fjölmiðlum til þess eins að neita samráði og fákeppni olíufélaganna og til gráta opinberar álögur. Jóla hvað?
Þrátt fyrir að samkeppni eigi að ríkja milli fyrirtækjanna samkvæmt íslenskum lögum að þá er verð á bensíni og olíu nánast það sama á öllum stöðvunum og samkeppni virðist því fyrst og femst vera í pulsusölunni og ævisögunum. Það er furðulegt að hagræðing geti ekki skilað sér í verðlagningu á mest keyptu smávörunni til landsins, eldsneytinu. Og það jafnvel beint úr sjálfsala í áskrift! Eða erum við neytendur kanski að greiða niður sjoppureksturinn á bensínstöðvunum við flest stærri gatnamót á höfuðborgarsvæðinu? Ágætis grein birtist í helgarblaði Fréttatímans sl. helgi þar sem farið er betur ofan í saumana á samkeppnisleysinu og að ef til vill sé verið að hafa okkur neytendurna að fíflum, enn einu sinni.
Sumir myndu eflaust segja að það væri eins og hver önnur himnasending ef í ljós kæmi að við réðum síðan yfir olíuauðlindum í hafdjúpunum eins og vinir okkar Norðmenn og Grænlendingar. Það er sem sagt ekki öll nótt úti, en hvað getum við Íslendingar farið fram á mikið meira af henni móður náttúru? Við sem höfum nóg af hreinustu auðlindum jarðar rétt við bæjardyrnar. Okkar tromp og stærsti mótleikur er einmitt að tryggja þessar auðlindir sem við þegar eigum, fyrir okkur sjálf, og nýta meðal annars sem hreina orku á bílana okkar. Tenging og handarband við móður jörð er allt sem þarf.