Fimmtudagur 16.12.2010 - 16:53 - FB ummæli ()

Númer eitt um jólin!

Á leið minni til vinnu í morgun hlustaði ég á útvarpið í bílnum eins og ég svo sem geri alltaf. Stundum flakka maður á milli rásanna, aðalega Bylgjunnar og Rásar 2. Í morgun hafði Rás 2 vinninginn. Rétt áður hafði verið fréttaumfjöllun á Bylgjunni hjá Gissuri hvaða jóalmatur væri vinsælastur í ár og að kalkúnninn væri kominn í 1 sætið, vinsælli en hamborgarahryggurinn og hangikjötið. Einhvern veginn var ég ekki í stuði að hlusta á umræðu um jólamat svona snemma morguns enda nokkuð hrifnæmur í upphafi dags. Ég varð reyndar aðeins hugsi hvað ein máltíð á jólunum getur skipt miklu máli og hvað við mannfólkið getum stundum verið nægjusamt í að gleðjast og hlakka til. Okkur tekst líka mjög auðveldlega að spíssa upp stemmninguna og tala okkur upp til skýjanna. En auðvitað á okkur öllum að líða vel á aðfangadagskvöld og gott að hafa að minnsta kosti einn dag á ári sem er sérstaklega og án undantekninga tileinkaður samverunni og góðum mat.

En hvað er það sem skiptir okkur samt mestu máli dags daglega? Útvarpsviðtalið á Rás 2 svaraði þessari spurningu betur en nokkuð annað í morgun. Viðtalið átti hin ágæta útvarpskona Margrét Marteinsdóttir við Reyni Magnússon vörubílsstjóra sem hafði lent í miklum lífsháska þegar grjótflutningabíll hans hrundi í blákaldan sjóinn við Grundartanga í vikunni. Sagt var frá atvikinu í lítilli frétt í Skessuhorninu. Hvernig hann upplifði síðustu andartökin og sá lífið fjarlægjast en koma aftur á síðustu sekúndunni. Hvernig hann barðist fyrir lífi sínu í köldum sjónum, innilokaður í tröllauknum bíl sem kenndur er við sjálfa Búkollu. Hvernig félagi hans kom honum til hjálpar að lokum í flæðamálinu, köldum og þrekuðum, með því að bjóða honum far í 50 tonna gröfuskóflu mitt í öllu öldurótinu og lyfta honum upp á kantinn. Þannig var hann kominn til okkar aftur. Lýsingin á því hvað hann hugsaði og hvað hann var innilega þakklátur í dag að fá að vera með fjölskyldu sinni um þessi jólin. Viðtal sem flestir verða að heyra til að skynja, ekki síst gleðina sem fellst í lífinu einu. Hvað frásögnin virkaði sönn og hvað hann er glaður að hafa fengið stærstu jólagjöfina sem hann gæti óskað sér á ögurstundu, sjálft lífið. Lífið sem er talið svo sjálfsagt að það gleymist í hversdagsumræðunni og jólaundirbúningnum. Og oft getur besta jólagjöfin verið ískaldur veruleikinn og bara að fá að lifa og vera með hvort öðru aðeins lengur. Jólamaturinn skiptir þannig í raun litlu máli þótt hann fái mestu athyglina þessa daganna og er númer eitt um jólin í fjölmiðlunum. Ef þessi frásögn Reynis er ekki besta jólsagan í ár að þá veit ég ekki hvað!

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn