Föstudagur 31.12.2010 - 10:04 - FB ummæli ()

Tákn nýrra tíma

Sennilega endurspeglar hátíðarhöld áramótanna hug þjóðarinnar betur en nokkuð annað, jafnt til fortíðarinnar og framtíðar. Spennan magnast upp síðustu daga ársins sem endar svo með át- og sprengiveislu á sjálft gamlárskvöld og langt fram á nýársdagsmorgun. Börnunum í okkur sjálfum hlakkar mikið til og nú loks fáum við að sletta ærlega úr klaufunum eftir að hafa þurft að sitja á honum stóra okkar yfir jólin. Nú er flest leyfilegt, tími útrásar fyrir mannlegar tilfinningar þegar mannheimar mæta álfheimum kringum áramótabrennurnar.

Sprengjuregnið er heimsfrægt á Íslandi um hver áramót. Jafnvel harðsvíruðum hermönnum bregður í brún þegar þeir koma í heimsókn til landsins og nálgast fer áramótin þegar bomburnar springa fyrirvaralaust við fæturna á þeim um leið og þeir njóta himinhvolfsins og grænu norðurljósanna sem dansa darraðardansinn. Öfgar í allar áttir eins og allt annað á friðhelga landinu okkar góða. Sennilega er það ein skýringin á sprengjuæði Íslendinga að þeir þurfa ekki að óttast raunverulegt sprengiregn á sjálfum vígvöllunum úti í hinum stóra heimi þar sem menn hræðast sprengihvelli hverskonar, ekki síst á göngugötum í sjálfum miðbænum.

Sjálfur man ég þó þann tíma þegar friðarsólirnar lituðu himininn rauðan eða grænan ásamt björgunarblysunum á miðnætti áramótanna í gamla góða vesturbænum. Uppgjör farsælla ferða veiði- og kaupskipaflotans um heimsins höf, oft í vafasömum veðrum, um leið og menn fögnuðu nýju ári og þökkuðu fyrir árið sem var að líða. Menn og konur minntust líka þeirra sem féllu í okkar baráttu, baráttuna við sjálf sjávaröflin og flaut skipanna heyrðust langar leiðir.

Saklausar fílubombur og stjörnuljós fram eftir kvöldi. Nokkrum árum síðar eða fyrir um hálfri öld komu síðan kínverjarnir og þá var fjandinn laus, enda voru þeir öflugustu kallaðir bandýttar. Löngu á undan tívolíbombunum sem síðar voru bannaðar sem ásamt kínverjunum, enda stórhættuleg sprengitól og sem slysadeildin mátti oft annast afleiðingarnar af þegar illa fór. Nú eru það sérinnfluttar tertur og kökur sem sjá um ljósadýrðina í boði hjálpasveitanna sem við öll styrkjum af þessu tilefni, en við fáum að kveikja í.

Sennilega eru samt fá ljós fallegri og meira táknræn fyrir gamlárskvöldið og sérstaklega nýárið en sem sjást á meðfylgjandi mynd, mynd af jólatrénu heima í Túnunum í Mosó. Flest bæjarhverfi hafa sem betur fer svipuð tré þótt staðsetningin heima sé einstök undir svarta skugganum af Hamrahlíðarbjörgunum og sem blasir við vegfarendum á leið í bæinn og sem keyra Vesturlandsveginn. Uppröðun ljósanna sem öll skína jafn skært, en eins og gengur hjá okkur mönnunum í misjafnri hæð. Eins og risastór eldflaug sem stefnir til himins á nýju ári. Ljósin lítil hvít og björt en bakgrunnurinn stór og svartur þar sem litlu húsin okkar standa, ljós sakleysis og vonar í brigðulum heimi.

Gleðilegt nýtt ár.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn