Í dag var tilkynnt hverjir eru tilnefndir til Edduverðlaunanna 2011. Kvikmyndin Brim í leikstjórn Árna Ólafs Ásgeirssonar fékk flestar tilnefningarnar og óska ég honum og Vesturporti til hamingju með þennan árangur. Kvikmynd af íslenskum veruleika eins og hann gerist kaldastur. „Hafið gefur, hafið tekur“. En það er ekki nóg að vera tilnefndur. Í fyrra var önnur saga ólíkt hjartahlýrri sem var tilnefnd til verðlauna. Saga Friðriks Þórs Friðrikssonar fyrir kvikmynd sína Mamma Gógó. Enn og aftur verður mér hugsað til hennar enda kom hún mér verulega á óvart og er ein besta bíómynd sem ég hef séð. Hún var tilnefnd sem framlag Íslands til Óskarsverðlaunanna 2011 og hefur þegar unnið til verðlauna á erlendri grundu. Vegna tilnefninganna á Eddunni í ár og að við eigum alltaf von ef við erum með og gerum betur, rifjast upp með mér það sem ég skrifaði um myndina Mömmu Gógó sl. haust. Það er skylda okkar allra að sjá þessa mynd áður en lengra verður haldið. Eins til að allir geti verið með á nótunum og borið hana saman við þær fimm erlendar myndir sem Bandaríska akademían valdi síðan til úrslita í vor. Því miður er Mamma Gógó ekki á meðal þeirra. En hver veit hvað gerist á næstu árum og við getum að minnsta kosti verið stolt með framlag okkar manna í kvikmyndaheiminum eins og reyndar öðrum listgreinum. Að því tilefni óska ég líka bókmenntaverðlaunahöfunum Gerði Kristnýju og Helga Hallgrímssyni innilega til hamingju með þeirra framlag. Listin er sjálfstæður heimur og sem betur fer er engin kreppa þar á Íslandi. Menningin, landið og hafið gefur okkur þannig alltaf von. Og eins og með sjómennina okkar, þá herðumst við, við hverja raun í brimrótinu og gefumst aldrei upp. Og vegurinn getur þess vegna líka legið til Hollywood síðar.