Nú þegar allt er að fara til fjandans er gott að geta látið sig dreyma, ekki síst dagdrauma á sunnudegi. Og kannski eigum við séns eftir allt saman. Í vikunni rakst ég á umfjöllun á SkyNews um „Eden projectið“ á Bretlandi sem þykir fyrir marga hluti sérstakt og áhugavert. Ekki síst þar sem þar er ræktaður hitabeltisgróður undir stórum hvolfþökum. Yfir 12 milljónir manna hafa heimsótt „Eden“ í Bretlandi og finnst mörgum verkefnið stórfenglegt og góð framtíðarfyrirmynd að sjálfbærni í landbúnaði og plönturæktun hverskonar. Verkefnið er 10 ára um þessar mundir og umhverfissinnar og aðrir áhugmenn sem fylgst hafa grannt með framganginum halda nú upp á afmælið með pomp og prakt enda þykir það einstaklega vel heppnað þótt margir spáðu því ekki langlífi í upphafi.
Hvert okkar ræktar sinn aldingarð heima og ég á mína Evu. En við Íslendingar áttum okkar eigin Eden í gamla daga þaðan sem við vorum gerð brottræk eftir að hafa bitið í forboðna eplið, græðgina. Eins rekstur á fyrirtæki með sama nafni sem fór á hausinn með hruninu 2008. Veitingarstaðurinn með litlu gróðurhúsi og minjagripaverslun sem opnaði reyndar aftur í breyttri mynd sl. sumar. Staður sem fékk aldrei þá virðingu sem vera bar á sínum gullaldartíma og hægt hefði verið að styrkja og efla mikið meira, ekki síst húsnæðislega séð og byggja við stærra gróðurhús, jafnvel í líkingu við það sem Bretarnir gerðu fyrir sína peninga. Tívolíð okkar fór að vísu á hausinn töluvert á undan þegar Íslendingar ferðuðust bara erlendis til að komast í tívolí. Í endurminningunni sitja sunnudagsbíltúrar á trabantinum austur fyrir fjall, þegar skroppið var í Eden í gamla daga. Aparnir heimsóttir og spjallað við páfagaukana með börnunum sem fannst fátt skemmtilegra og síðan að fá góðan ís að lokum. Þegar maður gat horft stoltur á útlendingana á staðnum, að þetta væri okkar land og okkar paradís. Flestir erlendir ferðamenn sem leið áttu um Suðurland heimsóttu enda gamla Eden og dásömuðu herlegheitin. Ekki síst vegna orkunnar sem staðurinn gaf frá sér þar sem jörðin ólgaði í bókstaflegri merkingu undir fótunum og hverlyktina lagði sterkt að vitum.
Opna þarf ferðamönnum meiri aðgang að íslensku gróðurhúsum sem eiga fáa sína líka, hvar sem þau eru á landinu, allt árið um kring og innan þeirra takmarkana sem starfsemin leyfir. Fátt jafnast á við hlýtt upplýst gróðurhús í svarta myrkri á hvítri foldu með gufubólstrana allt í kring á ísköldum degi. Á vettvangi þar sem við erum frumkvöðlar og á stað þar sem sjálfbæra orkan kemur af sjálfu sér úr iðrum jarðar, eins og ókeypis gjöf til okkar allra. Á stað þar sem hlutirnir eru einfaldlega öðruvísi. Nokkuð sem allar þjóðir öfunda okkur af, ekki síst á tímum mengunar hverskonar og hækkandi orkuverðs, hvar sem er heiminum. Nóg af sjálfbærri orku sem því miður Bretar og aðrar þjóðir hafa ekki og þar sem verkefnin snúast mest um að minnka gróðurhúsaáhrifin á jörðinni sjálfri sem við hins vegar beislum í gróðurhúsunum okkar með bros á vör. Af hverju ekki að rækta blóm, grænmeti og ávexti fyrir alla Evrópu, jafnvel banana sem við erum fræg orðin fyrir?
Gróðurhúsin eiga sér langa sögu hér á landi og voru fyrst byggð í sveitinni minni að Reykjum í Mosfellssveit 1923. Forskot sem við höfum allt of mikið látið renna okkur úr greipum og vannýtt, þótt saga hitaveitunar sjálfrar sé ávalt stolt okkar og prýði. Allt bendir til að lífrænt ræktað grænmeti hér heima standist öðru grænmeti snúning í gæðum og markaðir ættu að geta opnast miklu meira á erlendri grundu fyrir þessar afurðir. Raforkuverð til gróðurhúsbænda hefur því miður verið allt of hátt og reksturinn því oft staðið í járnum. Miklu skynsamlegra væri að styrkja meira gróðurhúsaiðnaðinn en selja alla raforkuna í að bræða aðflutt ál og stál og sem gefur um leið miklu sannari mynd af möguleikum landsins í sjálfbærri þróun. Landi hugmynda fyrir endurnýtanlegra orku þar sem í framtíðinni rafmagnsbílarnir geta vonandi leyst aðra bíla af hólmi. Þegar Ísland allt verður að stóra aldingarðinum Eden. Og reynslan sýnir að viltustu draumar geta rættst. Af hverju ekki þessi líka?