Þriðjudagur 22.03.2011 - 17:30 - FB ummæli ()

Vinir okkar í Japan

Sennilega eru fáir hlutir sem hafa jafn mikil áfhrif á daglegt líf og skapa okkur jafn mikil þægindi og bíllinn okkar. Sú bíltegund sem staðið hefur upp úr í gæðum hér á Íslandi síðastliðna áratugi er Toyota og ekkert umboð hefur getað státað að betri þjónustu gegnum árin. Hverjir geta verið betri sendifulltrúar þjóðar sem þannig standa að verki? Sjálfur gæti ég rakið mörg dæmi 18 ár aftur í tímann með Toyota-bílana mína fimm og geri kannski síðar, ekki síst þann nýjasta sem er 7 ára gamall Príus. Bestu viðskipti manna á milli áttu sér oft stað með gæðinga til forna. Nú eru það bíllinn, Príusinn minn góði.

Fáar þjóðir hafa sýnt Íslendingum og okkar frumkvöðlastarfi á ýmsum sviðum jafn mikinn áhuga og Japanir. Þeir eru stórkaupendur afurða okkar, loðnunnar, hrognanna og hvalsins. Ekki má heldur gleyma álinu sem þeir nota í nýju bílana sína. Heldur ekki áhuga þeirra á nýjum lausnum gegn orkuskorti jarðar og umhverfisvernd, þróun á endurnýjanlegri orku og nýtingu jarðvarma. Hvaða vini getum við kosið okkur betri með jafnmörg áhugumál og við sjálf eigum, jafnvel þótt langt sé þá heim að sækja.

Í síðustu viku bárust fréttir af hörmulegum atburðum vegna jarðskjálftanna í Japan sem kostuðu rúmlega 20 þúsund Japana lífið. Sennilega marga sem Íslendingar voru á einhvern hátt tengdir í viðskiptum á vesturströnd Japans. Síðan kjarnorkuógn í kjölfar flóðbylgunnar skelfilegu sem situr endalaust fast í hugskotinu eftir allar fréttamyndirnar og mun gera væntanlega um ókomna tíð. Atburða sem hafa líka leitt hugann að vanda með nýtingu kjarnorku til orkuframleiðslu í framtíðinni.

Aldrei sem fyrr verður áhersla nú lögð á þróun sjálfbærar orku frá sólinni, fallvötnum, hitanum úr jörðinni, sjávarföllunum eða bara vindinum. Þróun sem hugsanlega getur gefið af sér stóran hluta þeirrar orku sem heimurinn allur þarf á að halda í framtíðinni. Japanir þekkja manna best til þessara mála enda frumkvöðlar í þróun sjálfbærar orku og rafbílatækni (Driving Sustainability). Aðrar verksmiðjur en Toyota hafa þar líka verið í fararbroddi og sýnt íslenskum þróunarverkefnum óskipta athygli eins og t.d. Mitsubishi bílaverksmiðjurnar. Bílaiðnaðurinn eins og allur annar iðnaður í Japan er nú lamaður og langan tíma getur tekið að ná upp fyrri stöðu. Hrun í bílaframleiðslu segja sumir. Nú er skarð fyrir skildi.

Íslendingar eiga nú að að rétta fram hjálparhönd og styðja Japani á allan mögulegan máta, sem um nánustu vinaþjóð væri að ræða. Það er nefnilega svo margt líkt með líkum á eyjunum tveimur og skammt stórra höggva á milli þegar náttúruhamfarir eru annars vegar og sem við vitum aldrei hvar skella á næst. Áleitnar spurningar vakna nú hvernig við getum best komið þessum vinum okkar til hjálpar. En um leið og við sýnum hlýhug, styrkjum við vonandi vinaböndin milli þjóðanna enn frekar sem eiga svo margt sameiginlegt.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · Lífstíll · Menning og listir · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn