Laugardagur 26.03.2011 - 14:42 - FB ummæli ()

Þjóðfáninn er sparilegur

Í vikunni kom út ný bók, Þjóðfáni Íslands. Notkun, virðing og umgengni. Afskaplega vönduð bók og sem fjallar m.a. um fánareglurnar sem nú eru til endurskoðunar á alþingi Íslendinga. Til hamingju með bókina. Umræða um notkun íslenska þjóðfánans, virðingu og umgengni er alltaf vel þegin. En notum við fánann okkar of lítið og á hann að fá að hanga við hún allan sólarhringinn, jafnvel allt árið um kring? Eða er hann til spari fyrir þjóðina og okkur öll þegar við viljum gera dagamun? Eða eitthvað þarna á milli?

Fyrir um hálfri öld horfði ég löngum dreymandi augum á alla þjóðfána heims á pappastandi sem Sameinuðu þjóðirnar gáfu út og var til prýðis í stofunni heima. Þar á meðal var íslenski fáninn. Mér sem litlum snáða fannst standurinn mjög merkilegur og sérstaklega að fáninn „minn“ skyldi fá að standa með pappírsfánum stórþjóðanna. Fánaborg sem er síðan alltaf ljóslifandi í hugskoti mínu, ekki síst þegar maður hugsar til allra atburðanna sem eru að gerast úti í hinum stóra heimi.

Í dag hefur íslenski fáninn önnur sérstök áhrif á mig þegar ég sé hann blakta lifandi við hún. Helst í góðum vindi þannig að smellur í. Hvellurinn vekur þá mig til umhugsunar og að ég sofni ekki á verðinum. Uppvakning og um leið áminning hvað ég er heppinn að fá að búa á landinu góða, eylandi elds og ísa og sem litirnir standa fyrir og þarf að passa. Og sagan rifjast þá stundum öll upp. Sú tilfinning er ekki hversdagsleg og á alls ekki að vera það. Sérstakar minningar sem standa upp úr í mínu lífi. Gleðidaga og sorgardaga og reyndar oft þjóðarinnar allrar. Minningar sem ég velti alls ekki fyrir mér hersdags.

Íslenska þjóðin er lítil og ung sem þjóð meðal eldri þjóða og stundum eins og hálfgerður óþroskaður unglingur í samfélagi samfélaganna sem hatar að fara í spariföt og þykir allt svo sjálfsagt. Stofnun lýðveldisins 17. júní 1944 býr ennþá í hugum margra sem telja þá stund meðal þeirra heilögustu í sögu þjóðarinnar. Og sem við höldum upp á með veglegri afmælisveislu á hverju ári. Jafnvel við sem fæddust síðar hrífumst með. Í raun hvert sinn sem íslenski fáninn hefur verið dreginn að húni staldrar maður við. Maður veit um leið að eitthvað merkilegt hefur gerst, hjá Jóni á móti eða hjá þjóðinni sjálfri. Fáninn endurspeglar söguna okkar, og þjóðarinnar. Á öðrum tímum áminning að standa vörð. Okkar hjartans mestu mál. Engu breytir því um hvernig aðrar þjóðir vilja nota sinna fána. Það er þeirra mál.

Í fábreytni fánans felst fegurðin og mikilfengleikinn, sérstaklega ef hann er notaður til spari. Ekki síst á köldum vetrardegi í muggu og snjófoki þjóðlífsins. Þá fær umhverfið lit eins og á fegursta sumardegi ársins. Það eru nefnilega ekki allir dagar eins, sem betur fer. Við eigum að fá að vera stolt með fánann okkar eins og okkur sjálf, það sem okkur finnst vænst um og gerum best í lífinu. Þær tilfinningar eru einstakar.

Þjóðfáninn okkar er sparilegur. Hann á ekki að nota til hversdagslegra hluta og í gróðasjónarmiði. Til þess höfum við hins vegar merki fyrirtækja og félaga, dulur og veifur. Þjóðfáninn er fyrir okkur að njóta, meira en gert er í dag. Við fáum svo mikið til baka í endurminningum með honum. Og hann á að fá tækifæri til að hvetja okkur til góðra hluta. Á þeim dögum sem við þurfum mest á því að halda.

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · Lífstíll · Menning og listir · Stjórnmál og samfélag · útivist

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn