Hver kannast ekki við þessa mynd af grátandi dreng sem einhvern veginn virðist ekki vera dæmigerður Íslendingur? Birtingarmynd sem er ósönn en hangir samt uppi á vegg á mörgum íslenskum heimilum, eða að gerði að minnsta kosti. Ekki einu sinni augu drengsins gráta þótt listamanninum hafi tekist vel að mála gervitár á fallega vanga hans. Mynd sem var seld í öllum kaupfélögunum landsins. Ef til vill var það vegna þess hve landið var kalt og harðbýlt að við þurftum að láta minna okkur á tilfinningar sem bærðust innra með okkur, en voru frosnar.
Sorgin er þó alltaf söm við sig hvar sem er í heiminum og ef til vill helgaði tilgangurinn meðalið hjá kaupfélagsstjóranum að vekja okkur til umhugsunar um að það sé allt í lagi að sýna tilfinningarnar af og til, og gráta. Angurværð og sakleysi er þó nær stemmningunni sem myndin sýnir og minnir á svo margt annað sem sagt var og gert. Ósönn mynd engu að síður, en íslensk. Mynd sem ég undir öðrum kringumstæðum ímynda mér að ætti frekar heima upp á vegg á Spáni, í Frakklandi eða jafnvel einhversstaðar í Rómönsku-Ameríku þar sem íbúarnir líkjast meira drengnum á myndinni. Þjóðum sem eiga sér tilfinningaþrúgnar sögur þar sem stríð eru jafnvel ennþá háð. Grátur almennings raunverulegur og hversdagslegur. Mynd sem einhverja hluta vegna hitti samt svo vel í mark á heimilum hér á Íslandi og passaði vel á stofuvegginn.
Nú er jörðin á fróni hins vegar farin að þiðna og fjöllin gráta með vatnsflaumi og leysingum. Raunveruleg mynd sem ég tók í dag. Jafnvel snjóskaflarnir líta út eins og frosnir gráttaumar á vöngum hlíðanna. Sönn mynd en ekki sorgleg. Þetta er Ísland í dag og græðlingarnir farnir að skjótast upp úr gulum grassverðinum frá því í fyrra. Mynd sem minnir á liðna tíð en um leið vorið, tíma vonarinnar sem framundan er. Og almenningur grætur ekki, hann bítur á jaxlinn og bölvar í hljóði. Hann vill frekar borga skuldirnar sínar en eiga inni greiða hjá Kaupfélaginu.
Íbúarnir verða nú að herða upp hugann til að klára dæmið. Á sama hátt og við höfum alltaf gert. Nú leggjum við því tilfinningasemina aðeins til hliðar í nokkur ár og látum engan pranga inn á okkur óraunverulegri mynd til að hengja uppi á vegg í stofunni heima. Ekki aftur. Ef við þurfum á einhverri mynd að halda að þá er það mynd af landnemunum forðum. Hinum sönnu víkingum sem kunnu ekki að gráta og borguðu það sem þeim bar, með góðu eða illu. Og byrjuðu upp á nýtt á landinu góða.