Laugardagur 31.08.2013 - 18:43 - FB ummæli ()

„Í túninu heima“

haust

Mosfellssveit 31.8.2013

Það er orðið tímabært að kveðja frábært sumar, og hlakka til haustsins með öllum sínum litbrigðum. Mosfellingar hafa haldið upp tímamótin með bæjarhátíðinni, Í túninu heima. Eins til að minnast þeirra gömlu daga þegar menn höfðu komið björg í bú fyrir veturinn. Litbrigðin í mannlífinu eru hinsvegar margskonar, allt árið um kring. Ekki er heldur hægt að segja að unga fólkið sem missti allt sitt í hruninu fyrir 5 árum, hafi náð að koma sinni björg í bú fyrir veturinn, og margir jafnvel orðið að flýja land.

Túnin í Mosó og Lágafellskirkja 31.8.2013

„Í túninu heima“ er tilvitnun í fyrstu minningarskáldsögu sveitungans Halldórs Laxness heitins. Andi stórskáldsins svífur enda ennþá yfir sveitinni, ekki síst á túninu mínu við Lágafellskirkju sem er eitt sögusviðið í skáldsögu hans Innansveitarkroniku og sem segir frá miklum kirkjudeilum í Mosfellssveitinni á ofanverðri 19 öld. Tiltölulega ný timburkirkja í Mosfellsdal var rifin niður en ný kirkja reyst að Lágafelli í staðin og sem var meira miðsvæðis í sveitinni. Sveit sem þá náði niður að Elliðaá og sem nú tilheyrir Reykjavík. Löngu síðar var síðan byggð ný kirkja í Mosfellsdalnum og þá urðu allir aftur sáttir í sveitinni góðu. Hver veit nema aftur komist kyrrð á í sveitinni hjá þeim sem eiga um sárt að binda fjárhagslega, eins og reyndar Íslendingum almennt. Þegar fundist hafa lausnir á brýnustu vandamálum nútímans, um björgun á búum næstu árin. En um gæði þess að búa í sveitinni góðu efast þó enginn.

Lágafellstún og Lágafellsheiði á góðum sumardegi

Í hugann koma upp orð sem ég hef áður skrifað um sveitina mína, bæði að sumri sem og vetri sem ég vil rifja upp í tilefni dagsins. „Það er sennilega svipað og með fjöllin okkar og vötnin sem aldrei er hægt að mála of margar myndir af, aldrei er hægt að lýsa nægjanlega vel með orðum öllum þeim hughrifum sem göngutúrar „á túninu“ geta gefið. Í hita og sól um hásumar þegar allt er í blóma og grasið jafnvel ofvaxið, nálgast áhrifin þó að vera óraunveruleg, eins og á öðru tilverustigi. Sannkölluð sæluvíma og maður skilur ekki hvað hægt er að bjóða manni mikið, aldrei þessu vant. Jafnvel kyrrðin er einstök, enda helgi og flestir úti á landi að eltast við “besta veðrið og fallegustu staðina”. Jafnvel sjálfur Vesturlandsvegurinn er þagnaður og kvakið í fuglunum bergmálar sem aldrei fyrr í Hamrahlíðarbjörgunum. Túnið undir Lágafellskirkju er nú eins og konungsdregill, sem breiðir úr sér fyrir þig einann að ganga á. Svo óendanlega fjölbreyttur í munstri blóma og grasa. Aldrei fyrr jafn sjálfsagt að ganga létt, um leið og maður er eins og jarðbundinn með rótum. Einhvers staðar fyrir langa löngu fórum við greinilega af leið og villtumst. En nú veit ég hver ég er og hvar ég á heima.“

brekkan

Horft yfir sundin blá frá Úlfarsfelli, 31.8.2013

„Í síðdegisljósaskiptunum og kaldri froststillu seint á jólaaðventu fór ég í göngu sem oftar eftir stígnum mínum á Lágafellstúninu. Í sveitinni minni í allri kyrrðinni en samt svo nálægt borginni og skarkalanum. Með mér voru þeir sem eru það alltaf, eins og tveir skuggar af mér sjálfum, hundarnir mínir. Það var heldur ekkert nýtt að óstöðvandi hugsanir leituðu á mig, þótt stemningin væri ólík en á björtum sumardegi. Með upplýstu kirkjuna upp í brekkunni á aðra hönd í rökkrinu, en litla hverfið mitt með öllum fallegu jólaljósunum á hina. Í kvosinni í stóra kvöldskugganum af Hamrahlíðarbjörgunum þar sem öll ljós eru sem jólaljós. Og yfir túnið var smá snjófok, nóg til að marka stíginn sem var eins og hvítur tepparenningur fyrir mig einan að ganga á. Stígur sem á sér alltaf upphaf og endi og sem maður veit aldrei hvert leiðir mann. En þennan dag endaði hvíti stígurinn minn í roðanum á vesturhimninum í annan endann yfir gullglitrandi ljósum höfuðborgarinnar og til stjarnanna og tunglsins á austurhimninum í hinn.“

Einkennislitur hverfisins míns í Túnunum nú á hátíðinni um helgina er gulur. Sem á einstaklega vel við. Við skreytum húsin okkar því með gulum borðum, ljósum og blöðrum. Gerum okkur glaðan dag og skellum okkur jafnvel á sveitaballi með Páli Óskari í kvöld. Enn eitt frábært sumarið er liðið í sveitinni góðu. Réttara sagt borg í sveit sem hefur upp á allt það besta að bjóða, og þar sem mosinn klæðir steininn jafn fallega sumar sem vetur.

sumar

Á Lágafellstúni sumarið 2013 og horft til höfðborgarinnar

http://blog.dv.is/vilhjalmurari/2013/03/16/blod-jardar/

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag · útivist

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn