Litli þrösturinn er fagur, smár og klár. Í upphafi iðnbyltingar var frændi hans, kanarífuglinn, hins vegar notaður í sérstökum tilgangi. Í kolanámunum nánar tiltekið til að meta mörk þess lífvænlega og þegar súrefnið var á þrotum. Viðkvæmastur allra og þegar hann loks dó, var tilganginum náð og menn forðuðu sér.
Í dag beinast augu alþjóðar enn og aftur að litla Íslandi. Landinu fagra með sína frægð og sögu. Eldfjöll og jökla og eitt skemmtilegasta fótboltalið í heimi. Líka landið sem var fyrst að falla í heimi fjármálanna um árið og þegar mörk þess ómögulega höfðu verið reynd til hins ýtrasta, öðrum þjóðum til viðvörunar. Danska ævintýrið hans H.C. Andersen um næturgalann er um annan lítinn fugl sem söng svo fallega að hann gat sigrað sjálfan dauðann. Sami næturgalinn sem kom frænda sínum þá til hjálpar.
Nú er verið að reyna á nýju stjórnmálaöflin í lýðræðinu. Stjórnleysi lýðræðis ef svo má segja með sjóræningjum tæknialdarinnar og markmiðum um fullkomnari stjórnarskrá en þekkst hefur. Erlendir fréttamenn flykkjast til landsins litla til að fylgjast með. Kannski sigrar ómöguleikinn í þetta sinn eða næturgalinn kemur aftur til hjálpar og nýtt ævintýri verður til. Ný Íslandssaga að segja börnum alheimsins. Nei, ég held ekki þröstur minn góður.