Sunnudagur 22.12.2013 - 08:11 - Lokað fyrir ummæli

2007 jól hjá sumum

Valdastéttin hefur búið svo um knútana að lítill hluti þjóðarinnar munu halda 2007 jól á meðan restin baslar við að halda í 4% verðbólgu sem enginn ræður við enda skiptir hún ekki máli hjá valdastéttinni sem er með sitt á þurru.  Hún er jú með launin evrutengd.  Sala á BMW bílum á Íslandi jókst víst um yfir 30% á þessu ári – þetta er tala sem þolir kínverskan samanburð.

Hagvöxtur, jöfnuður og ativnnustig er hærra hér en annars staðar í Evrópu. Þetta er fólki sagt að skipti öllu. Vissulega eru þetta mikilvægar hagstærðir en þær segja ekki alla söguna, líkt og flottar hagvaxtatölur frá Kína segir okkur ekki allt um Kína.

Og það er fleira sem þolir sósíalískan samanburð. Íslenski jöfnuðurinn er margrómaður og mikið hampað af stjórnmálastéttinni á tyllidögum. Það sem minna fer fyrir er að þessi jöfnuður hefur verið keyptur með því að takmarka val einstaklingsins og útbreiða ríkisafskipti í lífi fólks.

Frá vöggu til grafar hafa Íslendingar minna val en frændur þeirra á hinum Norðurlöndunum og þurfa að búa við meiri ríkisafskipti. Allir búa við sama grunnskólann, sama heilbrigðiskerfið, sama kjarasamningakerfið, sama lífeyriskerfið og sömu öldrunarþjónustuna. Allt eru þetta kerfi sem er farið að molna úr og þola engan samanburð við það besta í Evrópu, en það er ekki málið, svo framalega sem aðgangur að hinu besta er takmarkaður – allir eiga að vera jafnir í meðalmennskunni.

Afleiðingin af þessu kerfi er sú sama og í Kína – peningar verða lykilinn að nauðsynlegum valmöguleikum. Með peningum er hægt að senda börn sín í bestu skóla erlendis og með peningum er hægt að fá læknismeðferðir erlendis sem ekki bjóðast innanlands.

Ríkiskapítalismi innan gjaldeyrishafta virkar ekki bara í Kína. Ísland er skínandi dæmi í Evrópu um að kínverska leiðin virkar þar líka.

Það verður ekki auðvelt fyrir Ísland að afleggja þennan ríkisbúskap sem er sveipaður þjóðernisrembingi og fullveldishjali. Valdastéttin er jú með góðan öryggisventil, þeir sem ekki sætta sig við lágu launin, baslið og verðbólgun flytja úr landi.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur