Spennan er okkur í blóð borin, Íslendingum, hvernig ætti annað að vera. Blóðþrýstingur er okkur líka, eins og öllum öðrum, hjartans mál og afar mikilvægt að hann sé ávalt sem bestur. Í ólgu lífsins er spennan samt oft við suðumark og stundum sýður upp úr. Í lífsins leik getur spennan líka verið óbærileg, jafnvel bara að fylgjast með spennandi landsleik handbolta sem segja má að sé okkar þjóðaríþrótt og maður getur stundum engan vegið verið. Þjóðarhjartað slær heldur aldrei hraðar en þegar við fylgjumst með okkar mönnum á erlendri grundu, eins og á laugardagskvöldið þegar Vinir Sjonna tóku lagið fyrir yfir 100 milljón manns. En stundum líka í martröðum lífsins eins og gengur, ekki síst þegar aðrir sjúkdómar herjar á kroppinn og hugann.
Háþrýstingur (hypertension arterialis) er eitt algengasta viðfangsefni heimilislækna, ásamt mati á öðrum áhættuþáttum æða- og hjartasjúkdóma. Oft hef ég verið spurður af hverju ég hafi ekki skrifað eitthvað um háþrýstinginn. Eitthvað í þeim anda sem ég ræði gjarnan við sjúklingana mína.
Háþrýstingur er mjög algengur og segja má að flestir sem lifa nógu lengi fá „sjúkdóminn“. Talað er um háþrýsting þegar efri mörk eru yfir 140-145 og neðri mörkin yfir 85-90. Efri mörkin er slagþrýstingurinn í slagæðakerfinu, þegar hjartað slær, en neðri mörkin, hlébilsmörkin, þrýstingurinn milli hjartaslaganna. Flestir fá einkennin upp úr miðjum aldri og hann er sjaldgæfur fyrir tvítugt. Margir gera sér ekki grein fyrir að aðeins hækkaður blóðþrýstingur er eðlilegt líffræðilegt fyrirbæri sem læknavísindin hafa sjúkdómsgert enda hægt að komast hjá óþarfa afleiddum sjúkdómum ef tímarlega er brugðist við og blóðþrýstingurinn lækkaður. Í mörgum tilvikum með inngripum sem við sjálf ráðum yfir. Í öðrum tilvikum með lyfjum. Oftast er blóðþrýstingurinn hækkaður vegna aukinnar mótstöðu í slagæðum líkamans af óþekktum ástæðum, en stundum vegna annarra sjúkdóma í nýrum og hjarta. Þá getur blóðþrýstingurinn líka verið illvígur, hækkað snögglega og orðið lífshættulegur (>200/>120).
Alvarlegustu afleiðingar hás blóðþrýstings hér áður fyrr og áður en farið var að meðhöndla eldra fólk jafn mikið og gert er í dag, voru heilablæðingarnar. Oft rökrétt afleiðing aðstæðna þegar æðarnar voru orðnar gamlar, sífar og brothættar í heilanum. Eðlileg afleiðing eðlisfræðilegs fyrirbæris þegar þrýstingurinn er of hár í viðkvæmum pípum. Afleiðingar sem maður sá því miður allt of oft hér á árum áður, en sem eru nú miklu fátíðari þar sem miklu fleiri eru meðhöndlaðir í tíma, sem betur fer. Önnur heilablóðföll (slög) sem eru oftast vegna blóðþurrðar eru nú algengari, jafnvel hjá yngra fólki m.a. vegna langvarandi háþrýstings en líka vegna arfbundinna þátta, m.a. æðagúla í heilaslagæðum.
Í dag eru langtímaafleiðingar á sjálft æðakerfið þannig oftar til skoðunar enda koma þau einkenni fram miklu fyrr í flestum líffærakerfum líkamans, ekki síst í hjartanu sjálfu, nýrunum auk heila og skynfæra eins og augum. Skiljanlegri afleiðingar langtímaáhrifa hækkaðs blóðþrýstings á pípukerfi líkamans þar sem innra æðaþelið þarf að mæta auknu álagi til langs tíma. Ekki síst þegar aðrir áhættuþættir bætast við, svo sem hátt kólesteról og reykingar. Hvortveggja sem er sem eitur á æðaþelið og flýtir fyrir æðakölkun og skemmdum. Einnig hreyfingarleysi, offita, sykursýki, mikil saltneysla og jafnvel lakkrísát. Síðan má nefna ýmislegt annað svo sem afleiðingar bólgusjúkdóma og jafnvel áhrif ýmissa lyfja eins og gigtar- og bólgulyfja.
Flestum sem er annt um miðstöðvarkerfið heima vita hvað of hár þrýstingur í kerfinu getur orsakað eða vélamenn sem vinna með vökvadælur og glussaslöngur. Meiri þrýstingur, meira slit á kerfinu, mælum, lokum, pípum og slöngum. Því viljum við takmarka þrýstinginn og hafa hann eins eins lágan og við komumst af með til að minnka líkur á bilunum, svo ekki sé talað um alvarlegt tjón.
Sennilega er fátt jafn vel rannsakað og áhrif langvarandi háþrýstings á æðakerfið. Sumar rannsóknir ná til tugþúsunda sjúklinga í mörgum löndum yfir mörg ár, jafnvel áratugi. Milljónir hafa tekið þátt í lyfjarannsóknum enda fátt jafn arðvænlegt fyrir lyfjaiðnaðinn og blóðþrýstingslyfin, sem flestir þurfa að taka þegar þeir eldast. Þá kemur líka til áratuga reynsla læknanna sjálfra af góðum lyfjum fyrir sjúklingana sína. Lyf sem í dag er oftast auðvelt að mæla með án þess að hætta sé á að fá aukaverkanir við langtímanotkun.
Mikið stress og álag í þjóðfélaginu í dag leiðir oft til hækkaðs blóðþrýstings tímabundið en langvarandi álag jafnvel til varanlegs háþrýstings auk þess sem þá eru meiri líkur á að viðkomandi hugsi síður vel um heilsuna almennt. Borði verr og hreyfi sig minna svo ekki sé talað um neyslu áfengis- og vímuefna og reykingar. Það hangir nefnilega margt annað á spýtunni eins og ég reyndar ræddi nýlega í pistli mínum „Ertu pera eða epli“ þar sem ég fjallaði meðal annars um heileinkennið efnaskiptavillu (syndrom X) þar sem fer saman hækkaður blóðþrýstingur, hækkaðar blóðfitur og skert sykurþol. Margir toppar á sama ísjakanum sem liggur að mestur undir yfirborðinu.
Verulegar áhyggjur ber að hafa á þróun mála hér á landi næstu árin þar sem vaxandi fjöldi barna og ungmenna stefna þjóðinni í mikinn offitufaraldur og er þjóðin samt meðal þeirra feitustu fyrir. Ein fyrstu einkenni offitu fyrir utan kílóin er einmitt hækkaður blóðþrýstingur. Og bregðast þarf við vandanum áður en upp úr sýður og mörg önnur vandamál sem fylgja offitunni sliga einstaklingana og heilbrigðiskerfið. Þarna þarf heilsugæslan að spila sitt stærasta hlutverk í forvörnum.
Ég hvet alla fullorðna og jafnvel börn og unglinga sem hafa sterka ættarsögu, að láta fylgjast vel með blóðþrýstingnum sínum. Í gamla daga var það til að koma í veg fyrir ótímabærar heilablæðingar, í dag er það fyrst og fremt til að fyrirbyggja ótímabæra blóðþurrðarsjúkdóma, æðaþrengsli og stíflur, afleiðingar langvarandi álags á æðakerfið. Og auðvitað þarf hjartað síðan að vinna stöðugt á móti meiri og meiri þrýstingi í æðakerfinu sem leitt getur að lokum til hjartabilunar, dælan ræður einfaldlega ekki við þrýstinginn til lengdar. Vítahringur sem erfitt getur verið að losna úr þegar hún á annað borð bilar. Einfalt ráð er að lát mæla blóðþrýstingin reglulega eða hafa sjálfur aðgang að sjálfvirkum blóðþrýstingsmæli eins og t.d. sést á myndinni hér að ofan og sem kostar í raun ekkert meira en hvert annað heimilistæki og sem sómir sér vel meðal þeirra.
Meðferð við háum blóðþrýstingi er síðan ýmiskonar, en fyrsta skrefið er yfirleitt að taka upp heilsusamlegri lífstíl, stefna að kjörþyngd, hreyfa sig reglulega og borða hollan mat. Forðast áhættuþættina eins og fjandann. Lyfjameðferð kemur síðan vel til greina og höfum við sem betur fer úr mörgum góðum lyfjum að velja þannig að meðferðin getur verið klæðskerasaumuð að þörfum hvers og eins, með reglubundnu eftirliti. Verum svolítið góð við okkur og fylgjumst betur með þrýstingnum innra með okkur.
Viðtal við mig um efnið í Reykjavík síðdegis, 17.5.2011 og Samfélagið í nærmynd, 23.5.2011