Nú má segja að sumarið sé nánast liðið og haustið að taka við. Sumarhitinn liggur samt ennþá í loftinu og jörðin er hlý og köld í senn. Nóttin heit en dimm. Haustið sem er svo fallegt með allri sinni litadýrð, en um leið sorglegt því það markar það sem koma skal. Og eftirsjá hvað tíminn leið allt of fljótt.
Dagurinn í gær var einstaklega fallegur á höfuðborgarsvæðinu. Umræðan um okkar helstu dægurmál að sama skapi ekki. Því staldraði ég aðeins við á Laugarnesinu á milli þess sem ég heimsótti sjúkt fólk á bæjarvaktinni minni í gær. Heimsótti stórbrotinn listamann sem býr þar og dáðist af umhverfisverkum hans og nálgun við náttúruna og fortíðina. Þar sem er að finna yndislegan samtíning frá horfnum tíma, gamla ljósastaura og ryðgaða skúlptúra innan um fölnaðar risahvannir. Sem eins og allt annað í náttúrunni og höfuðborginni, bíður síns tíma. Eitt andartak var eins og maður væri útlendingur í eigin landi og maður gat horft á fortíðina og framtíðina í senn. Landið fallega, sundin bláu, hvannir eins og á hálendinu og skýjakljúfana í fjarska. Jafnvel Hörpuna okkar og sjá má á myndinni ef vel er að gáð.
Á sama tíma og Crown Princess, eitt stærast skemmtiferðaskip veraldar, sigldi út sundin bláu, á vit ævintýranna. Með þúsundir ánægðra útlendinga eftir vel heppnaðan ferðadag um landið okkar fagra. Fegursta land veraldar sem hefur upp á allt að bjóða og sem ekki er hægt að meta til fjár, eða það hélt maður.
Nú erum við samt minnt á hvað tímarnir hafa breyst frá því við vorum ung og óþroskuð. Þegar maður trúði að sumt yrði aldrei til sölu. Allra síst landið okkar sem kostaði svo mikil átök að eignast. Eins fyrir nokkrum árum þegar maður hafði þroskast og minnstu munaði að það yrði tekið af okkur. Þar sem við kunnum okkur ekki forráð. Aldrei aftur, vonandi. En það verða mikil þáttaskil í 1000 ára sögunni ef við nú seljum landið okkar í pörtum fyrir hæstbjóðendur. Ef tímabundnir ábúendur um allt land vilja ráðstafa því í hendur útlendinga til þess eins að græða.
Í þúsund ár höfum við glímt við landið og náttúruöflin og komist ágætlega af. Á nokkrum árum töpuðum við glímunni við fjármálaöflin, og nú er úr okkur allur vindur. Hjá þjóð sem hefur byggt styrkleikan sinn á smæðinni og kunnáttu á veikleikum, en ekki stærðinni og græðginni. Hjá þjóð sem vill vera gestgjafi, en ekki þyggjandi og leiguliði í eigin landi.