Laugardagur 03.09.2011 - 12:20 - FB ummæli ()

Sortuæxlin og „elsku ég“

Forrit sem hægt er að fá í iPhone síma

Líkamanum er oft líkt við musteri sálarinnar sem okkur á að þykja vænt um. Því er afskaplega mikilvægt að fara eins vel vel með þá byggingu eins og við getum, ekki síst yfirborð hennar og sem er mikilvægasta vörnin gegn umhverfinu. Sérstaklega sólinni sem allt elskar og vekur með kossi, eða hvað?

Engin æxli eru algengari og meira tengd umhverfinu og sólinni en sortuæxlin (melanoma), einkum hjá ungu fólki. Krabbamein sem í mörgum tilfellum meinvarpast tiltölulega fljótt í lifur, lungu, beinin og heilann. Æxli sem hefur háa dánartíðni ef greinist seint. Æxli sem tengist líka lífsháttum okkar meira en flest önnur, ekki síst sólböðum og ljósabekkjanotkun. Þegar eftirsótt útlit og jafnvel sjálfsdýrkun í stað væntumþykju breytist í andstæður sínar og stórar lýtaskurðaðgerðir eru nauðsynlegar. Jafnvel til að freista þess að ná meinvörpunum út um allan líkamann.

„Undanfarna áratugi hefur nýgengi húðkrabbameina, sérstaklega sortuæxla, aukist hratt hérlendis. Samkvæmt upplýsingum frá Krabbameinsskrá Krabbameinsfélags Íslands greindust að meðaltali 49 manns á ári með sortuæxli í húð (20 karlar og 29 konur) á árunum 2004-2008, 10 manns létust árlega.1 Tíðni húðæxla í heild hefur tvöfaldast á síðustu tíu árum og mest er aukningin hjá ungum konum. Sortuæxlum hefur fjölgað mest, en þau eru alvarlegasta tegund húðkrabbameina og algengasta krabbameinið hjá konum á aldrinum 15-34 ára.“ Læknablaðið 07/08 2011.

Sumir eru þó í meiri áhættu á að fá sortuæxli, t.d. fólk með mjög ljósa húð og rauðhærðir. Eins ef náinn ættingi hefur greinst með krabbameinið eða jafnvel bara forstigsbreytingar í húðblettum. Samtök erlendis hafa því hvatt til sjálfsskoðunar og eftirlitis hjá læknum með öllum húðbreytingum, einkum fæðingarblettunum. Ameríska skemað hér að ofan er mjög gott að því leiti að mikilvægustu kennileitin eru áréttuð eins og reyndar líka er gert á vef Landlæknis. Óreglulegir og misdökkir blettir eða litabreyting þar sem erfitt er að greina dökkbrúnan lit frá biksvörtum.

Ef minnsti grunur vaknar um breytingu t.d. í fæðingarbletti er farsælast að fjarlægja blettinn sem fyrst. Flestir heimilislæknar gera það án aukagjalds og svo húðsjúkdómalæknarnir. Í vissum tilvikum þarf að leita aðstoðar lýtalæknis, ekki síst ef þörf er á stærri aðgerð eða húðbreytingin er á viðkvæmum stöðum. Húðbitar sem fjarlægðir eru, eru alltaf sendir til vefjagreiningar gegn vægu rannsóknargjaldi. Ef fyrr hefur fundist forstigsbreyting er rétt að hafa meiri varan á sér gagnvart öllum breytingum og jafnvel að fá þá húðsjúkdómalækni til að fylgja málunum eftir með endurteknum myndatökum af grunsamlegum blettum.

Stærsti vandinn varðandi algengi sortuæxlis hér á landi er að margir sýna ekki nógu mikla aðgát í nærveru sólar og nota ekki sólarvörn við hæfi. Greinin í Læknablaðinu í sumar sýnir að sólin er sennilega óvíða sterkari en einmitt á Íslandi yfir hásumarið. Sérstaklega ber því að varast að láta börn vera of lengi í sólinni og að þau noti sólarvörn, ekki síst á þá líkamsparta sem mest eru útsettir fyrir geislunum eins og andlit, eyru og hendur. Ljósabekkjanotkun ætti að heyra fortíðinni til nema fyrir fólk með ákveðna húðsjúkdóma og sem þurfa á útfjólubláum geislum að halda í lækningaskyni. Neðangreint myndband var gert í Bandaríkjunum til að hvetja ungt fólk til að sýna árvekni gegn þessum alvarlega sjúkdómi, sortuæxlunum, Dear 16-year-old-Me:

Möguleiki er líka á rafrænni sjálfvirkri greiningu með myndatöku af fæðingarblettum með iPhone (sjá ummæli að neðan)

Sjá nýrri umfjöllun um sortuæxli : http://blog.dv.is/vilhjalmurari/2012/12/04/ljosid-i-sjalfum-sortanum/

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · heilbrigðismál · Íþróttir · Lífstíll · útivist

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn