Mánudagur 02.01.2012 - 09:00 - FB ummæli ()

Brjóstvitið í upphafi árs

Það voru ekki hernaðarátök eða náttúruhamfarir sem særðu flesta í lok árs 2011, ef litið er til sálarinnar um þessar mundir. Líka hér á landi þar sem um 400 konur þjást nú og vita ekki hvað skal gera…á nýju ári.
Sennilega eru fáir skandalar meiri í heimi læknavísindanna árið 2011 og jafnvel á síðari tímum, en einmitt gallarnir sem nú eru að koma fram í frönsku brjóstafyllingunum (implöntunum), svokölluðum sílicon brjóstafyllingum af gerðinni PIP (Poly Implant Prothese). Hundruð þúsundir kvenna sem fengið hafa PIP brjóstafyllingarnar frönsku í Evrópu á síðustu árum, hafa örugglega átt ömurleg áramót, m.a. hér á landi, enda mikið fjallað um mögulegan galla og leka í þeim í heimspressunni sl. daga. Því auðvitað vill engin kona eða stúlka eiga á hættu að fá sílicon úr slíkum púðunum út í líkamann eða slæmar sýkingar í brjóstin. Þaðan af síður að eiga á hættu á að fá síðar krabbamein, sem þó engar beinar sannanir eru fyrir í dag. Þess heldur aðrar almennar aukaverkanir og sem mikið meira er rætt um.

En hvernig má það vera, að ungar og annars hraustar konur þurfi að liða eins og sjúklingum með alvarlega sjúkdóma í brjóstum, þar sem brjóstunum verði jafnvel að fórna fyrir lífið sjálft? Að þörfin sem upphaflega var að bæta sjálfsímyndina og blása hana aðeins út, snúist nú upp í andhverfu sína og angist. Áhyggjur sem einnig ná til milljóna annarra frískra kvenna sem völdu þann kost að fá sílikon brjóstafyllingar, eingöngu til að sýnast barmameiri fyrir hitt kynið og þær töldu hættulausa aðgerð. En sem í dag verður vonandi víti til að varast, en hvar á að leggja „línurnar“?

PIP moulds abandoned (Pic:Reuters)Og hver er ábyrgð heilbrigðisyfirvalda sem leyfa slíkar aðgerðir í dag án sérstakra læknisfræðilegra ástæðna og læknanna sem stunda slíkar aðgerðir eftir því hvar tískan liggur? Kostnaður við ísetningu gervibrjósta hleypur á hundruðum þúsunda og fróðlegt væri að vita hvað margar slíkar aðgerðir hafi verið framkvæmdar hér á landi sl. áratug og á hvaða aldri í lífi kvennanna. Eigum við kannski Evrópumet í þessu eins og mörgu öðru, en sem persónuverndarákvæðin hefta að séu birt? 40.000 kvenna hafa þessa tilteknu gerð af PIP brjóstafyllingum í Bretlandi og sem nálgast að vera um helmingur af öllum konum sem fengið hafa brjóstalyftingu þar í landi á síðustu árum. Miðað við fólksfjölda má þannig áætla að 1 kona af hverjum 800 hafi fengið PIP brjóstafyllingu í Bretlandi en ein af hverjum 400 konum hér á landi. Í Frakklandi hafa um 30.000 konur fengið þessa gerð af brjóstafyllingu.

Frönsk heilbrigðisyfirvöld hafa nú ákveðið að borga aðgerðirnar sem losa á konur við brjóstapúðana og hleypur kostnaðurinn auðvitað á miklum upphæðum. Beðið er hins vegar eftir ákvörðun breskra heilbrigðisyfirvalda um álíka aðgerðir, sem þau þó telja ekki nauðsynlega í dag miðað við fyrirliggjandi gögn, en sem eru til endurskoðunar í ljósi nýrra gagna um meiri leka (allt að 7% á ári) úr púðunum en áður var talið (sem var um 1%). Og hvað með gæðaeftirlit á öðrum brjóstafyllingum? Það furðulegasta við þetta allt saman er að PIP implöntin höfðu aldrei verið viðurkend sem örugg lækningavara fyrir mannfólkið, búið er að leggja niður fyrirtækið vegna gjaldþrots sem framleiddi fyllingarnar og aðaleigandinn stunginn af og eftirlýstur af alþjóðalögreglunni, Interpol.

Fyrir tæpum tveimur árum fjallaði ég um aðkomu íslenskra fjölmiðla að ókeypis kynningu á bróstastækkunum, þar sem gefið var í skyn að þær þættu sjálfsagðar hjá ungum konum eftir fyrsta barn og þegar brjóstin létu á sjá eftir hlutverk sitt, meðgönguna og brjóstagjöf. Sennilega eru þessar offarir og ýmsar aðrar fegrunaraðgerðir sem ég fjallaði þá um, komnar langt út fyrir allt velsæmi og hugmyndafræði læknisfræðinnar, að minnsta kosti eins og ég lærði hana. Þar sem lágmarkskrafan var að gera sjúklingnum aldrei meira ógagn en gagn, til skemmri og lengri tíma litið. Nokkuð sem töluverð umræða hefur verið líka tengt lyfjanotkun ýmiskonar í seinni tíð. Ekki síst ávísun á ávanabindandi lyf fyrir fíkla og jafnvel þegar lyf sem ætluð eru fáum eru yfirfærð sem þörf fyrir sem flesta. Það er að minnsta kosti umhugsunarvert að læknavísindin skuli bera hvað mesta ábyrgð á einum mesta skandal ársins að mínu mati, m.a. hér á landi.

Frétt BBC í dag, 2.1.2012

Daily Mail, 2.1.2012

The Telegraph 2.1.2012

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · heilbrigðismál · Lífstíll · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn