Áður hef ég skrifað talsvert um D vítamín og mikilvægi daglegrar inntöku enda sýndu fyrri rannsóknir að allt að þriðjungur landans vantaði D vítamín í kroppinn og suma nær alveg. Beinkröm og alvarleg vannæringareinkenni vegna D vítamínskorts voru farin að skjóta upp kollinum hér á landi, og nú er vitað betur en áður um mikilvægi D vítamíns fyrir ónæmiskerfið og fjölda annarra líffæra en bara bein og vöðva. Ígildi lífsnauðsynlegs hormóns auk varna gegn hrörnunarsjúkdómum, krabbameinum sem og hjarta- og æðasjúkdómum.
Fyrir 2 árum ráðlögðu samtök bandarískra hormónalækna hærri viðmiðunarmörk í blóði en áður var ráðlagt (30ng/mL), eða allt að 60 ng/ml (40-60 ng/mL fyrir alla aldurshópa) og lítil hætta var talin stafa af aðeins ríkulegra magni D vítamíns í kroppnum, enda eitrunarmörk talin margfalt hærri en þessi gildi. Síðan hefur mikið verð rætt um gild D vítamínmælinga í blóði hjá almenningi m.a. til að ná ásættanlegum mörkum og sem var til ítarlegrar umfjöllunar á Evrópuþingi evrópskra hormónasérfræðinga nýlega (2013 European Congress of Endocrinology). Eins þar sem vitað um hættuna sem getur fylgt of háu kalkmagni í blóði, meiri hættu á myndun nýrnasteina, jafnvel vöðvastífleika, þreytu og ógleði sem m.a. getur átt sér stað við ofskömmtun D vítamíns (> 80 ng/mL í blóði).
Í vikunni voru hins vegar að birtast niðurstöður mjög stórrar afturvirkar rannsóknar Dror og félaga við háskólann í Jerúsalem í læknatímaritinu the Journal of Clinical Endocrinology & Metabolism sem sýna að hærra gildi en 36 ng/mL D vítamíns í blóði getur jafnvel verið varasamt m.t.t. æðakölkunar, kransæðasjúkdóms og skyndidauða.
Rannsóknin náði yfir heilsufarsupplýsinga úr sjúkraskrám 1.200.000 einstaklinga 45 ára og eldri í Ísrael þar sem D vítamín í blóði var mælt og skráð á árunum 2007 til 2011. Sýnt var fram á U-lagaða fylgni milli áhættunnar á að fá bráðan kransæðasjúkdóm og D2 (calcidiol) í blóði sem er fyrir neðan og ofan viðmiðunargildis 20-36ng/mL, leiðrétt fyrir aldri og öðrum áhættuþáttum kransæðasjúkdóms (adjust hazard ratio).
Þannig mældist áhættan á að fá bráðan kransæðasjúkdóm líka aukin um 13% ( 1.13 [CI:1.04–1.22], ef blóðgildið á D2 í blóði fór yfir >20- 36 ng/mL en sem var þó mun lægri áhætta en ef gildið mældist milli 10-20 ng/mL sem var 25% aukin áhætta (1.25 [CI:1.21–1.30]) og 88% aukin áhætta ef D2 í blóði mældist undir 10 ng/mL (1 88 [CI: 1.80–1.96]). Höfundar rannsóknarinnar mæla með að setja efri öryggismörk D vítamíns í blóði við 36 ng/mL, en ekki að miða við 60 eins og bandarísku ráðleggingarnar segja.
Á Íslandi má hins vegar gera ráð fyrir að allir sem ekki eru mikið erlendis í sól eða sem ekki taka lýsi reglulega, þurfi a.m.k um 1000 IU af D vítamíni daglega, og jafnvel eitthvað meira til að byrja með ef grunur er um skort (undir 20 ng/mL) og því blóðprufur oftast óþarfar. Hver blóðprufa er enda dýr, kostar um 4000 kr. Hins vegar gæti verið rétt að mæla D vítamín í blóði í vafatilvikum og eins til að staðfesta greiningu ef klínískur grunur vaknar um D vítamínskortur valdi alvarlegum einkennum. Allavega er minni áhætta að vera aðeins ofan við viðmiðunarmörkin en undir, ekki síst m.t.t. áhættunnar á að fá kransæðasjúkdóm.
Hér á landi hafa viðmiðunarmörkin reyndar áður verið sett við 30 ng/ml en talað um alvarlegan skort ef D vítamíngildið í blóði er fyrir neðan 20 ng/mL. Meðalvegurinn er oft vandrataður, en dagleg neysla milli 1000-2000 IU af D vítamíni ætti að treysta að viðkomandi sé ávalt innan góðra marka, en að sama skapi forðast ofskömmtun þótt aðeins sé til skemmri tíma.
Auðvitað kemst maður heldur ekki hjá því að að hugsa til pólitíkurinnar þessa daga þar sem meðalhófsreglan í stafrófi stjórnmálaflokkanna kemur þjóðfélaginu líklega best. Hvorki of mikið eða of lítið af neinum þeirra og að þjóðarlíkaminn fái öll sín nauðsynlegustu vítamín. Ekki síst fyrir hjartað og að við tökum ekki U-beygju inn í fortíðina.
http://blog.dv.is/vilhjalmurari/2012/11/01/flestra-meina-bot/