Ein aðalfrétt og ritstjórnargrein Fréttablaðsins í dag og sagt var frá á Stöð 2 í gærkvöldi snýr að lélegu aðgengi að hlaupabólu-bólusetningu hér á landi. Fullyrt er að margir læknar mæli með bólusetningunni fyrir ungbörn og vísað til úttekta hérlendis og erlendis þar sem kemur fram að almenn bólusetning ungbarna gegn hlaupabólu kunni að vera þjóðhagslega hagkvæm. Ókeypis almenn bólusetning í ungbarnaeftirliti muni samt kosta þjóðfélagið um 160 milljónir á ári auk þess sem ýmisleg er ennþá á huldu um varanlegan ávinning að mínu mati og hvar átakið ætti þá heima varðandi forgangsröðun nauðsynlegra verkefna í heilbrigðisþjónustunni.
Hingað til hef hvorki ég né aðrir kollegar mínir í heilsugæslunni mælt almennt með þessari bólusetningu eftir því sem ég best veit. Fyrir því liggja margar ástæður sem ég vil aðeins nefna, enda má gera ráð fyrir mörgum fyrirspurnum um bóluefnið næstu vikurnar.
Hlaupabóluvirus er mjög lífsseigur og leggst oft í dvala eftir frumsýkingu. Hann brýst oft út síðar á ævinni þegar við erum veik fyrir í formi ristils eða beltarósar, eins og sýkingin var kölluð á árum áður og smitar þá mögulega aðra af hlaupabólu. Sterkt hjarðónæmi mun hins vegar „vonandi“ eyða þeim kvilla einnig, en aðeins þegar til langs tíma er litið. Ólíkt mörgum örðum veirum verður því ekki hægt að útrýma veirunni úr samfélaginu í bráð og tryggt hjarðónæmi því enn mikilvægara meðal allra barna.
Athuga þarf því vel við upphaf mögulega innleiðingar almennrar bólusetningar gegn hlaupabólu, hvernig hjarðónæmið muni þróast á næstu árum, og hvernig það getur skilað mestum ávinningi að lokum. Takmarkað og ófullnægjandi hjarðónæmi ungbarna í byrjun þýðir auk þess að fleiri veikjast alvarlega þegar þau eldast. Frumsýkingin er alvarlegust hjá fullorðnum og er ein sú veirusýking sem maður hræðist mest í dag (meiri útbrot, lífshættulegar heila- og lungnabólgur). Því vill maður frekar að sem flest ung börnin veikist og sem taka sýkinguna yfirleitt meinleysislega og fái um leið varanlega vörn gegn utanaðkomandi smiti en að fleiri fullorðnir smitist. Minna smit milli ungbarna í dag, þýðir að fleiri eigi hættu á að smitast síðar á ævinni. Því þarf þátttakan í byrjun að vera mjög almenn fljótt, til að fá sem fyrst sterkt hjarðónæmi meðal barna í þjóðfélaginu og að tryggt sé að svörun við bóluefnunum endist sem lengst, helst ævilangt án nauðsynlegra tíðara örvunarbólusetninga.
Ef sýnt er fram á að bólusetningin veiti sem næst ævilanga vörn og komi í veg fyrir hættu á beltarós síðar á ævinni og að minni líkur séu á að fullorðnir smitist af frumsýkingu með hlaupabólu er auðvitað til mikils að vinna með hlaupabólu-bólusetningu í dag. Flestum þessara spurninga er þó ekki hægt að svara örugglega í dag að mínu mati. Því er rétt að flýta sér hægt og nota bóluefnið aðeins í völdum tilvikum og út frá heilsuástandi hvers einstaklings. Þetta hafa a.m.k. verið ráðleggingar heilsugæslunnar hingað til, auk þess sem komið hefur verið á móts við vilja foreldra af öðrum sérstökum ástæðum.
http://www.cdc.gov/vaccines/pubs/pinkbook/downloads/varicella.pdf
http://www.ssi.dk/Service/Sygdomsleksikon/S/Skoldkopper.aspx