Sunnudagur 21.12.2014 - 21:50 - FB ummæli ()

Leyndarmálið á Akdamar Island og íslensku Paparnir

image

Skreyting kirkjunnar á Akdamar (júlí 2014)

Í sumar heimsóttum nokkrir Íslendingar í gönguhópnum Fjöll og firnindi eyjuna Akdamar og sem staðsett er úti fyrir suðurströnd stöðuvatnsins Van í austurhluta Tyrklands, á hásléttu í um 1500 metra hæð yfir sjávarmáli. Við áttum þar góða dagstund í aðlögun fyrir göngu á fjallið Ararat (5.200 m) og sem var upphaflega aðal markmið ferðarinnar og greint hefur verið frá áður hér á blogginu mínu.

image

Akdamar og vatnið Van (júlí 2014)

Eyjan Akdamar er sögfræg fyrir þær sakir að þangað komu armenskir munkar og reistu klaustur fyrir um 1100 árum. Á svipuðum tíma og aðrir munkar, Papar, tóku sér bólfestu á annarri eyju lengst norður í Atlantshafi, Íslandi. Litlu síðar einnig heiðnum víkingum frá Noregi og Írlandi sem hröktu Papana í burtu og sem lýst er í Íslendingabók Ara fróða Þorgilssonar (1122-1133). Þar segir Ari; „Þann tíð var Ísland viði vaxit á milli fjalls ok fjöru. Þá váru hér menn kristnir, þeir er Norðmenn kalla Papa, en þeir fóru síðan á braut, af því at þeir vildu eigi vera hér við heiðna menn, ok létu eftir bækr írskar ok bjöllur ok bagla. Af því mátti skilja, at þeir váru menn írskir.“ Engar fornleifar hafa þó fundist sem benda til um heimsóknir þessara írsku munka svo að það er fátt við að styðjast nema sannleiksgildi Íslendingabókar.

Nokkuð er víst að sumir Papanna hafi verið læknismenntaðir á þeirra vísu og sennilega borið með sér dýrmæta þekkingu til landsins, en sem síðar hefur að mestu farið forgörðum. Nokkur örnefni, einkum suðaustanlands, tengjast Pöpum, til dæmis Papey, Papós og Papbýli. Steinristur í hellum á Suðurlandi og Vestmannaeyjum hafa verið sagðar frá Pöpum, en fyrir því eru engar sannanir. Lengst af fengu munkarnir þó að vera í friði á Akdamar, eða allt til ársins 1915, enda fram eftir öldum landsvæðið allt hluti Armeníu.

image

Kapellan, elsti hluti kirkjunnar á Akdamar (júlí 2014)

Í lok níundu aldar var eyjan Akdamar hins vegar í eign Armeníukonungs (Gagik I Artsruni) sem byggði sér þar litla sumarhöll og ræktaði upp eyjuna, en sem síðar eftirlét munkum og heilagkrossreglunni (Holy cross) eyjuna til umráða. Á eyjunni má í dag sjá kirkjubyggingu (dómkirkju) frá 10 öld (915) og veggskreytingar af norrænum hermönnum, ásamt Davíð og Golíat úr biblíusögunum. Einnar heillegustu kirkjubyggingu frá þessum tíma í þessum heimshluta. Þessi nálgun við menningarheim okkar Íslendinganna var mjög sérstök.

Ræturnar okkar til upprunanas og Íslendingasagna voru hvergi augljósari í allri ferðinni til Tyrklands en í samsvöruninni við litlu Akdamar og þar sem fyrsta byggð á Íslandi varð augljósari. Allt á eyjunni litlu var tengt þessum tíma og sem hafði lítið breyst og aðrar byggingar sárafáar. Síðustu munkarnir voru drepnir og reynt að afmá öll tengsl við kristna menningu í þjóðarhreinsun Tyrkja 1915.  Kirkjan sjálf er furðu heilleg, þótt Tyrkirnir hafi eyðilegt mikið af innviðunum og rústað að hluta sambyggðri kapellu með sprengingum. Þeir hlífðu þó sjálfri kirkjunni að mestu að utan, enda sögulegt mannvirki sem hefur varðveist einstaklega vel í um 1100 ár. Paparnir voru fljótt hraktir eða drepnir á Íslandi þar sem nú aðeins finnast óljósar hellisleyfar, en munkarnir fengu að vera í friði lengst af á Akdamar þar sem miklar menningarminjar er nú að finna. Jarðfræðin og hraun af öllum gerðum, ásamt hrjóstugu landslagi á hásléttunni í Agri, átti síðan eftir að tengja okkur enn betur við heimahagana, ásamt vinsemd Kúrda á svæðinu.

image

Íslendingar að snæðingi í Nemrut gígnum (júlí 2014)

Flokkar: Óflokkað · Bloggar · Dægurmál · Lífstíll · Menning og listir · Stjórnmál og samfélag

«
»

Facebook ummæli

Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli.
Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Höfundur

Vilhjálmur Ari Arason
Höfundur er heimilislæknir (1991) en starfar nú á Slysa- og bráðamóttöku LSH. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins frá 2009 - 2015. Sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja. Hef átt sæti í Sóttvarnaráði sem fulltrúi LÍ, skipaður af heilbrigðisráðherra árið 2013 og 2017.
RSS straumur: RSS straumur

Færslusafn