Vegna umræðunnar um skólphreinsislysið stóra hjá borginni sl. mánuð og sem uppgötvaðist fyrir tilviljun. Góð skólpkerfi hafa verið meginforsenda bætts almenns heilbrigðis íbúa stórborga um aldir og sem í raun allt stendur og fellur með varðandi smitsjúkdómana og fyrri drepsóttir mannkynssögunnar.
Fulltrúar í borgarstjórn mættu gjarnan leggja fyrirspurn til borgarstjórnar og Dags, hvernig menn hafi hugsað sér skólpfrárennsli og sótthreinsun á því frá Nýjum Landspítala í framtíðinni og sem virðist eiga að veita beint í almennu skólpgatnaveituna og sem er úr sér gengin í gamla miðbænum! Það voru gerðar strangar kröfur um skólpreinsitöð við nýja hótelið í Reykjahlíð við Mývatn vegna viðkvæms lífríkis sem þar er að finna í vatninu. Ekki þegar hins vegar kemur að framkvæmdum nú við þjóðarsjúkrahúsið nýja og þar með hugsanlega heilbrigði höfuðborgabúanna sjálfra!
Við hönnun á nýjum sjúkrahúsum eins og t.d. í Herlev í Danmörku nú og þar sem verið er að reisa stóran nýjan meðferðarkjarna, var sér skóphreinsistöð byggð fyrir spítalann og sem kostar sennilega hátt í tug milljarða króna. Þetta er gert vegna hugsanlegrar dreifingar á ónæmum smitsjúkdómavöldum í umhverfið, ekki síst sýklalyfjaþolnum saurbakteríum og veirum sem borist getur með líkamsvessum og saur sýktra einstaklinga í almennar skólplagnir og síðan í umhverfið. Þegar nýr þjóðarspítali er byggður á Íslandi þarf auðvitað að hugsa líka til allra enda og sem erfitt verður að gera eftir á og skaðinn skeður.
Helst þyrfti allt skólp frá Nýjum Landspítala, hvar svo sem hann verður byggður, að vera aðskilið frá almennu skólpkerfi höfuðborgarinnar, auk sótthreinsistöðvar og sem verður mjög erfitt og kostnaðarsamt að koma fyrir á Hringbrautinni en miklu auðveldara og kostnaðarminna á besta stað.