Laugardagur 24.08.2013 - 11:35 - Lokað fyrir ummæli

Íslenska leiðin að klikka?

Eitthvað er farið að fjara undan íslensku leiðinni sem farin var hér eftir hrun.  Hin sveigjanlega króna sem átti að koma hagvexti hér á fleygiferð og skjóta evrulöndum ref fyrir rass er að klikka.  Viðhorf Íslendinga er að þetta sé allt að koma, aðeins þurfi að taka snúning á kröfuhöfum og aflétta gjaldeyrishöftunum og þá reddist þetta allt saman.  Tölurnar segja hins vegar aðra sögu.

Hagvöxtur er á fallandi fæti, náði hæst eftir hrun 2.9% árið 2011, 1.6% 2012 og í ár er varla búist við meiri hagvexti en 1.2%.  Á sama tíma hefur atvinnuleysi fallið stöðugt.

Þetta gerist varla nema að hálaunasörfum sé að fækka á kostnað láglaunastarfa.  Íslenskt atvinnulíf er því að aðlaga sig að breyttum aðstæðum þar sem aðgangur að erlendu fjármagni er lítill og dýr en laun lág.  Þetta eru eðlileg viðbrögð markaðarins en það getur orðið erfitt að snúa þessari þróun við, sérstaklega í landi þar sem full atvinna trompar aðrar hagstærðir.  Nauðsynlegar kerfisbreytingar sem munu auka tímabundið atvinnuleysi verða erfiðar.

Hálaunastörf eru að jafnaði mun fjármagnsfrekari en láglaunastörf.   Til að skapa slík störf þarf aðgang að ódýru fjármagni en það er aðeins byrjunin, fyrirtæki fara ekki að taka óþarfa áhættu þó þau hafi yfir ódýru fjármagni að ráða.  Umhverfið verður að vera samkeppnishæft og laust við óþarfa áhættur, annars leita fyrirtæki annað með sína starfsemi og fjárfestingar.

Hér er Ísland langt á eftir nárgrannalöndunum.  Eigin gjaldmiðill í höftum, há verðbólga, léleg lánshæfiseinkunn ríkisins, há skuldastaða, séríslenskt lagakerfi og hræðsla við nána erlenda samvinnu eru allt þættir sem gera Ísland áhættusamara fyrir erlenda fjárfesta.

Vandamálið er að þó að Íslandi takist að losa gjaldeyrishöftin, lækka verðbólgu og bæta lagakerfið þá hverfur áhættan ekki á sama tíma.  Óvissan um hversu varanlegar þessar umbætur verða, heldur áfram enda segir sagan að gjaldeyrishöft, lagabreytingar og hækkandi verðbólga geta alltaf sprottið upp í íslensku umhverfi líkt og arfinn á vorin.

Það mun taka tíma að sannfæra varkára fjárfesta að íslenska leiðin séu fjárfestavæn og varanlega.  Ekki bætir úr þegar helstu ráðamenn Ísland gefa lítið fyrir athugsemdir og ábendingar AGS og matsfyrirtækjanna, og afgreiða ESB eins og blauta tusku.

Séð erlendis frá er hætta á að íslenska leiðin sé að breytast í argentísku leiðina þar sem betra er að vera ferðamaður en fjárfestir.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur