Mánudagur 22.09.2014 - 14:38 - Lokað fyrir ummæli

Fjárfesting í vanda

Fjárfesting í atvinnulífinu er lítil og áhyggjuefni margra. Hér er komið upp gamalt og vel þekkt vandamál sem ætti ekki að koma á óvart.

Að mörgu leyti er fjárfestingaumhverfið komið aftur til fortíðar síðustu aldar. Besta fjárfestingin er steinsteypa og ríkisskuldabréf. Þegar ávöxtunarkrafa 10 ára ríkisskuldabréfa er komin upp í 6.8% í 2.2% verðbólgu er lítill hvati fyrir fjármagnseigendur að leita annað. Til að lokka fjárfesta yfir í hlutabréf þarf arðsemi á eigið fé að vera viðunandi sem hún er ekki í mörgum tilfellum, þar sem fyrirtækin eru flest of skuldsett og sligast áfram með dýra skuldabagga sem soga allan hagnað til sín.

Þá eru lág taxtalaun á Íslandi lítill hvati fyrir fyrirtæki að fjárfesta í framlegðaraukandi verkefnum. Það er hreinlega ódýrara að ráða fólk en að fara í fjárfestingar. Þetta er leysir tímabundinn atvinnuleysisvanda en heldur launafólki í gíslingu lágra launa. Ef framlegð er ekki aukin munu launahækkanir hreinlega brenna upp í verðbólgu. Allt er þetta vel þekkt.

Til að hækka raunlaun þurfa vextir á Íslandi að vera samkeppnishæftir við vaxtaumhverfið í nágrannalöndunum. Fjármagn þarf að vera ódýrara en fólk. Þannig virka þróuð hagkerfi. Einkenni vanþróaðra landa er að fólk er ódýrara en fjármagn. Á Íslandi er sjávarútvegurinn eina stóra atvinnugreinin þar sem fjármagn er ódýrara en fólk. Ísland er því í raun hálfvanþróað.

Íslenska leiðin að redda þessu með gjaldeyrishöftum og láta lífeyrisþega “niðurgreiða” fjármagn til atvinnulífsins er engin lausn. Hún færir aðeins fjármagn frá lífeyrissjóðum til þeirra sem eru duglegir að duppa upp fyrirtæki og selja þau á bjöguðu markaðsverði til lífeyrissjóða sem hafa lítið val.

Afnám hafta mun aðeins leysa þennan vanda að hluta til, eftir situr hár fjármagnskostnaður í krónum og lágu launin sem gera framlegðaraukandi fjárfestingar “óarðbærar”. Það er vandamálið sem þarf að leysa.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur