Föstudagur 10.10.2014 - 14:27 - Lokað fyrir ummæli

Gengisfelling á leiðinni?

Ný skýrsla Seðlabankans um fjármálastöðuleika er um margt athyglisverð. Þar er talað um að gengið þurfi að falla um 8% ef ekki er samið um lengingu á skuldabréfi Landsbankans. Þetta er eflaust vanmetið og líklegra að fallið verði á bilinu 10-15%, en látum það liggja á milli hluta.

Ef hins vegar samið er um bréfið og farið í að afnema höftin er einnig gefið í skyn að gengið geti fallið, þ.e nálgast aflandsgengið, en bilið þarna á milli er í sögulegu lágmarki. Fallið yrði líklega á svipuðu reki um 10-15%.

Þetta verður varla túlkað á annan veg en að gengisfelling sé í kortunum sama hvaða leið verði farin! Þá er það aldrei traustvekjandi þegar fjármálaráðherrar fara að lofa að gengið falli ekki. Þá er betra að hafa vaðið fyrir neðan sig. Það er þvi ekki amalegt að fá skuldaleiðréttingu og lækkun á vörugjöldum á flatskjám og ísskápum svona rétt fyrir gengisfellingu.

Þeir munu fá mest út úr skuldaniðurfellingunni sem ná að kaupa varning á gamla genginu. Þetta þekkja menn vel sem komnir eru á miðjan aldur.

Á endanum verður það líklega Samsung sem græðir mest á íslensku skuldaleiðréttingunni.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur