Fimmtudagur 26.03.2015 - 08:19 - Lokað fyrir ummæli

Láglaunalandið Ísland – hvað veldur?

Launafólk er langþreytt á lágum launum og vill leiðréttingu þar sem annars staðar.  Ríkisstjórn sem setti “leiðréttingu” sem sinn hornstein hlýtur að taka á þessu eins og tekið var á húsnæðislánunum. Það var jafn mikill forsendubrestur hjá launafólki og húsnæðiseigendum í hruninu.

En það getur orðið hægara sagt en gert að hækka launin á sjálfbæran hátt.  Atvinnuuppbygging á Íslandi er frumstæð. Það er hægt að keyra hlutina hér á léglegri framlegð.  Auðlindir landsins sjá til þess.  Þá er erfitt að fara út í miklar og dýrar fjárfestingar til að bæta framlegð eða innleiða nýjar fjármagnsfrekar atvinnugreinar vegna hárrar arðsemiskröfu fjárfesta.

Þetta leiðir til þess að allt hjakkar í sama farinu.  Núverandi staða er í ákveðnu jafnvægi – launin hafa verið stillt þannig að full atvinna er í boði .  Ef hækka á launin án þess að breyta um kerfi riðlast jafnvægið og atvinnuleysi mun aukast eða verðbólgan æðir af stað.

Ef menn vilja raunverulegar launahækkanir þarf að breyta um kerfi og auka framlegð og framboð af hálaunastörfum.  En þá þarf að ná arðsemiskröfu fjárfesta niður á svipað stig og í nágrannalöndunum og þar er nú aldeilis á brattann að sækja.

Fjárfestar líta oft á arðsemiskröfu á 10 ára ríkisskuldabréfum sem mælikvarða á “áhættulausa” vexti. Þetta er ákveðin núllstilling, verkefni sem ráðist er í þurfa alla jafna að bera hærri ávöxtun en 10 ára ríkisskuldabréf.

Í dag er raunávöxtunarkrafa á 10 ára ríkisskuldabréf á Íslandi 5.7% en hliðstæð krafa í Svíþjóð er 0.3% og í Danmörku 0.1%.  Þetta er þrátt fyrir svokallað skjól gjaldeyrishaftanna!  Þessar tölur sýna vel í hverri órafjarlægð Ísland er frá hinum Norðurlöndunum þegar kemur að fjárfestingaumhverfi.

Líklega hefur raunvaxtamunur á milli Íslands og hinna Norðurlandann sjaldan verið hærri.  Í svona umhverfi eru það aðeins atvinnugreinar sem nota auðlindir landsins eða legu sem geta þrifist og þá oft aðeins ef launin eru lág svo hægt sé að standa undir sligandi fjármagnskostnaði.

Ein mesta kjarabót launþega til lengri tíma litið er að lækka þennan vaxtamun og gera hann stöðugan. En til þess þarf samstillt átak sem byggir á skýru framtíðarplani.  Nauðsynlegt er að ráðast á þá séríslensku áhættuþætti sem kynda undir og viðhalda háum vaxtamun. 10 helstu áhættuþættirnir eru vel þekktir, þó auðvitað greini menn á um mikilvægi þeirra og forgangsröðun og sumum þeirra verður ekki breytt:

1.   Ófjármagnaðar launakröfur sem auka verbólguvæntingar
2.   Pólitísk óeining og hringlandaháttur um efnhagsleg markmið og leiðir
3.   Hagsmunir auðlindageirans
4.   Óstöðugur gjaldmiðill sem styðst við verðtryggingu
5.   Há innlend skuldastaða
6.   Greiðslujafnaðarvandi landsins og óvissa um varanlega lausn á fjármagnshöftum
7.   Lega landsins og smæð hagkerfisins
8.   Dýrt og óskilvirkt fjármálakerfi
9.   Lagaleg óvissa fyrir fjárfesta
10. Evrópuland utan ESB

Í Evrópu og Bandaríkjunum hafa vextir verið lækkaðir til að örva hagkerfin og vinna á atvinnuleysi, á Íslandi þarf að lækka hið séríslenska vaxtaálag til að hægt sé að hækka launin og gefa ungu fólki tækifæri á að eignast þak yfir höfuðið.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur