Föstudagur 27.03.2015 - 08:57 - Lokað fyrir ummæli

Sparisjóður riðar til falls

Mál Sparisjóðs Vestmannaeyja er allt hið furðulegasta.  Svo virðist samkvæmt blaðafréttum að útlánasafn sjóðsins hafi verið ofmetið og það aðeins komið í ljós eftir athugun FME í lok árs 2014.

Þetta vekur upp spurningar um störf stjórnar sjóðsins, Bankasýslunnar og FME.  Ef rýnt er í ársskýrslur SV kemur í ljós að stjórn sjóðsins og endurskoðendur hafa varað við óvissu um mat á eignum sjóðsins og áhrif þess á rekstrarhæfi allt frá árinu 2010.  Þá hefur sjóðurinn átt í basli með að uppfylla eiginfjárkröfur FME og tap hefur verið á rekstrinum síðustu misserin. Eða eins og segir í árskýrslu fyrir árið 2011:

“Þetta [eiginfjárþáttur 13.9%] ásamt þeirri óvissu sem ríkir um mat eigna sjóðsins samanber skýringu 35 leiðir til að ljóst er að óvissa ríkir um rekstrarhæfi sjóðsins … Stjórnendur Sparisjóðsins hafa jafnframt átt fund með Fjármálaeftirlitinu og gert þeim grein fyrir stöðu Sjóðsins.”

Óvissa um mat á eignum hefur verið viðvarandi frá 2010 en furðu lítið virðist hafa verið gert til að greina þetta vandamál frekar hvað þá leysa það samkvæmt upplýsingum úr ársskýrslum.  Þá er erfitt að sjá að FME hafi skipt sér mikið af málum fyrr en í lok 2014?  Hvers vegna var ekki gripið í taumana strax 2011?

Ef slitastjórn verður skipuð yfir Sparisjóðinn er það áfall fyrir alla aðila, sérstaklega FME.  Slitastjórn á aðeins að vera úrræði í neyð.  Allt bendir til að FME og eigendur hafi haft rúman tíma til að bjarga sjóðnum.  Sú staða sem nú er komin upp að sjóðurinn vilji leggjast á ríkisjötu Landsbankans, mínútum áður en hann fellur, bendir til að enn er rými til að skerpa á og bæta eftirlit með fjármálastofnunum.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur