Föstudagur 14.08.2015 - 08:39 - Lokað fyrir ummæli

Hin nýja eignastétt

Krónan og EES samningurinn er ómótstæðilegur kokteill spákaupmanna. Það sýndi sig fyrir hrun og nú eru menn komnir aftur á stjá. Í þetta sinn sleppa menn alveg íslensku bönkunum og halda sig við þær íslensku eignir sem standast hrun, íslenskar fasteignir og ríkisskuldabréf. Verð á þessum eignum er á uppleið enda hafa skapast kjöraðstæður fyrir erlenda spekúlanta að græða á Íslendingum. Þær felast í eftrifarandi:

  1. Rífandi uppgangur er í íslensku atvinnulífi og hagtölur óvenju góðar
  2. Seðlabankinn viðheldur hávaxtastefnu
  3. Gengi krónunnar er undir sögulegu meðaltali og ekki í takt við hagtölur eða vaxtamun
  4. Fasteignaverð er lágt miðað við leiguverð
  5. Áætlun um losun hafta hefur verið kynnt
  6. Erlendir aðilar fá að taka nýjar fjárfestingar og ágóða úr landi
  7. Íslenskir fjárfestar hafa ekki aðgang að erlendum lánamörkuðum

Hér hefur því skapast óvenju spennandi tímabundið fjárfestingatækifæri fyrir erlenda aðila með aðgang að erlendu lánsfé og þá sérstaklega í mynt þar sem gengisskráning nálgast sögulegt hámark á meðan vextir eru í sögulegu lágmarki. Hafi einhvern tíma verið viturlegt að taka lán í svissneskum frönkum og kaupa fasteignir á besta stað í Reykjavík er það í dag. Stærsta áhættan sem þessir fjárfestar taka er pólitísk áhætta á Íslandi, það er nefnilega ekki gefið að hinir nýju „kröfuhafar“ fái ekki sömur útreið og þeir gömlu þegar útflæðið byrjar og allir vilja komast út með sína peninga!

En þegar einn græðir tapar oft einhver annar og í þessu dæmi er það unga kynslóðin og eignalausir Íslendingar sem tapa. Það verður enn erfiðara fyrir þennan hópa að eignast þak yfir höfuðið og leiguverð mun bara hækka.

Já, svona virkar blessuð krónan innan EES, skapar forréttindi fyrir erlenda spákaupmenn til að eignast besta húsnæðið á Íslandi á meðan íslenskum launamönnum eru boðnar kompur í úthverfum á okurvöxtum eða okurleigu.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur