Laugardagur 29.08.2015 - 10:55 - Lokað fyrir ummæli

Rekstur borgarinnar

Reykjavíkurborg er sú höfuðborg í Evrópu sem býr við meiri hagvöxt og minna atvinnuleysi en flestar borgir í álfunni. Allt er fullt af ferðamönnum og atvinnulífið er í miklum vexti og skilar sívaxandi hagnaði. Í slíku árferði er hægt að ætlast til að borgin skili rektrarafgangi og geti byggt upp eigið fé til að mæta verra árferði. En það er ekki raunin, því miður.

Á fyrstu sex mánuðum ársins varð Reykjavíkurborg að ganga á eigið fé til að halda sér á floti. Eigið fé lækkaði um 3.4% á þessum tíma og með sama áframhaldi verður það búið á næstu 15 árum. Þetta er mun alvarlegri staða en margir gera sér grein fyrir og hún mun aðeins versna á næstu misserum. Launahækkanir eru ekki að fullu komnar fram í tölum fyrsta árshluta og með hækkandi vöxtum og lántökum mun fjármagnskostnaður borgarinnar aukast. Þá hefur það sýnt sig að hættulegt er að stóla upp á B-hluta borgarinnar til að redda málum. Nú er álverð í frjálsu falli og þar með er líklegt að B-hlutinn magni upp tapið, alla vega tímabundið.

En hvað er til ráða? Lítið er um svör frá stjórnmálastéttinni nema upphrópanir. Það þarf að grípa til aðgerða segja menn, en hverjar eru þær? Um það vilja stjórnmálamenn ekki ræða af skiljanlegum ástæðum. Það þarf engin sérstök gleraugu til að sjá að vandi borgarinnar er fyrst of fremst kostnaðarvandi. Til að ná rekstri borgarinnar (A-hluta) aftur niður á núll þarf að lækka rekstrarkostnað um 10% sem aftur þýðir að fækka þarf stöðugildum um 500 enda er launakostnaður orðinn 55% af tekjum borgarinnar.

Reykjavíkurborg þarf að læra að spara og fara vel með peninga. Með lagni ætti að vera hægt að spara 10% án þess að það komi niður á þjónustu við borgarbúa. Hins vegar er stóra spurningin, hver ætlar að leiða það starf?

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur