Þriðjudagur 29.12.2015 - 09:43 - Lokað fyrir ummæli

Ríghaldið í gamla tímann

Í hinum vestræna heimi ríkir oftast góð samvinna á milli ríkisframtaks og einkarekstrar. Þessi samvinna er öllum til góða. Á þessu eru nokkrar undantekningar og þar er Ísland líklega fremst í flokki. Það er leitandi að OECD landi þar sem ríkisafskipti og ríkisrekstur eru jafn viðamikil og á Íslandi. Og skilin á milli ríkis og einkageirans eru hvergi óljósari en jafnframt skarpari – allt er svart og hvítt, engu má blanda saman, ekkert nýtt má prufa. Viðhorfin eru oft Orwellian, ríkisrekstur góður, einkarekstur vondur.

Hvers vegna skyldi einkarekstur hafa svona slæmt orð á sér á Íslandi? Er það formið eða fólkið? Eða er íslenskur ríkisrekstur bestur í heimi? Ef litið er til annarra landa eru “bestu” sjúkrahús og menntastofnanir ekki ríkisreknar? Hvað kunna aðrar þjóðir í einkarekstri sem Íslendingar geta ekki?

Þegar reynsla stærri þjóða er skoðuð betur er erfitt að draga aðra ályktun en að á Íslandi liggi vandamálið í einkageiranum. Ekki að ríkisrekstur sé betri hér en annars staðar. Og vandamálið liggur ekki í rekstrarforminu heldur miklu meira í fólkinu og afskiptum sjórnmálamanna. Í báðum þessum hópum er það þekkingarleysi og klíkuskapur sem eitrar allt frá sér og skemmir. Menn eru lokaðri inn í einsleitum sandkassa og sjá aldrei heildarmyndina. Þá haga menn sér eins og hundar, fórna sér fyrir húsbóndann í stað þess að hugsa sjálfstætt og standa í lappirnar.

Það er mjög skiljanlegt að almenningur sé skeptískur á íslenskan einkarekstur, sporin hræða. Og þó að hin almenna regla sé að ríkisrekstur sé ekki besta rekstrarformið, er Ísland enn undantekning og verður líklega um langan tíma. Það er fátt sem bendir til að menn séu tilbúnir í þær róttæku breytingar sem þarf að gera, ef einkarekstur í örríki á einhvern tíma að ná upp á sama plani og í nágrannalöndunum. Það hreinlega hentar ekki valdastéttinni sem notfærir sér fámennið og einangrunina til að ríghalda í gamla tímann.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur