Fimmtudagur 07.04.2016 - 06:25 - Lokað fyrir ummæli

Höftin hjá Pírötum

Ríkisstjórnin taldi í byrjun kjörtímabils að létt yrði að afnema gjaldeyrishöftin. Það var vanmat og nú er stjórnin að falla á tíma.

Ein ástæða þess að erfitt er að dagsetja kosningar er að þá er komin föst tímasetning á afnám hafta, sem er eitt aðalmál ríkisstjórnarinnar, en AGS og aðrir sérfræðingar hafa varað við fastri dagsetningu.

Frá sjónarhóli fjárfesta er aðalvandamálið pólitísk óvissa á Íslandi. Enginn veit hver raunveruleg efnahagsstefna Pírata verður í nýrri ríkisstjórn. Það er mjög óvenjulegt að sá flokkur sem mælist með lang mesta fylgið hafi enga reynslu af efnahagsstjórnun landsins. Í því felst fjárhagsleg áhætta. Leið fjárfesta til að mæta þeirri áhættu er að færa krónur í gjaldeyrisskjól fram yfir kosningar þar til meiri reynsla er komin af stjórn Pírata. En útflæðisþrýstingur á krónuna er einmitt það sem þarf að varast þegar höftin eru afnumin. Þannig er ljóst að afnám hafta við núverandi pólitískan raunveruleika er hættulegt. Það þarf ekki annað en á líta á veika stöðu breska pundsins, rúmum tveimur mánuðum fyrir þjóðaratkvæðisgreiðslu um ESB aðild, til að sjá að gengi krónunnar gæti fallið hressilega, ef höftin verða losuð fyrir kosningar.

Hraðvirkasta leiðin til að losa höftin er að flýta kosningum og eyða þeirri óvissu sem stjórnarflokkarnir ráða ekki við, en er á borði Pírata.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur