Fimmtudagur 20.10.2016 - 13:29 - Lokað fyrir ummæli

Er myntráð lausnin?

Vaxtaokur og verðtrygging er afleiðing af lélegri efnahagsstjórnun og rangri peningamálastefnu. Það er gríðarlegt hagsmunamál heimilanna að finna stjórnmálamenn sem geta tekið heilstætt á þessum málum og innleitt varanlegar lausnir.

Stjórn efnahagsmála hefur batnað frá hruni en peningamálastefnan hefur setið á hakanum. Það er engin lausn að láta Seðlabankann marka langtíma stefnu í peningamálum. Seðlabankinn á að sjá um tæknilega útfærslu á stefnu sem þjóðin ákveður, t.d. í þjóðaratkvæðisgreiðslu.

Í dag virðist peningamálastefnan byggja á einhvers konar flotgengi með verðbólgumarkmiði og stjórnum á fjármagnsflæði. Það getur vel verið að það sé einhver hagfræðilegur elegans yfir þessu mixi en svona stefna þjónar atvinnulífinu og heimilunum illa, en er aftur á móti afskaplega þægileg í útfærslu fyrir Seðlabankann. Það er enginn fyrirsjáanleiki í gengismálum og ekkert gert til að auka hann. Hvers vegna eru ekki gerðar meiri kröfur til Seðlabankans um að halda genginu stöðugu þegar hann er með öll stjórntæki til þess?

Þar sem íslenska krónan verður aldrei frjáls flotgengisgjaldmiðill er spurningin hvernig á að stjórna henni? Stjórnmálamenn verða að mynda sér skoðun á þessu máli og leiða umræðuna. Í þeirri umræðu á Seðlabankinn að miðla upplýsingum og leiðbeiningum.

Nú hefur einn stjórnmálaflokkur komið fram með hugmynd um myntráð sem er næsti bær við upptöku evru. Með myntráði hverfur verðtryggingin og vextir lækka, en málið er ekki alveg svona auðvelt. Myntráð krefst gríðarlegs samfélagslegs aga sem ekki er til staðar á Íslandi í dag. Þá tekur það áratugi að taka upp trúverðugt myntráð, eins og reynslan frá Danmörku og Hong Kong sýnir. En það breytir ekki því að myntráð getur verið skynsamlegt langtíma markmið. Fyrsta skrefið að myntráði er að finna skynsamlegt viðmiðunargengi á körfu helstu viðskiptamynta og láta Seðlabankann síðan fá það markmið að stjórna krónunni að þessu markmiði innan ákveðinna vikmarka, t.d +/- 15% í upphafi sem síðan má þrengja. Þessi leið myndi auka fyrirsjánleika í gengismálum og hjálpa við áætlanagerð í helstu atvinnugreinum landsins. Þá mun vaxtarstig smátt og smátt nálgast vexti í myntkörfu og vægi verðtryggingar minnka. En þetta gerist ekki á einu kjörtímabili, þetta er áratuga verkefni sem næsta kynslóð fær í arf.

Flokkar: Stjórnmál og samfélag

«
»

Lokað fyrir ummæli.

Höfundur

Andri Geir Arinbjarnarson
Höfundur er verkfræðingur.
RSS straumur: RSS straumur