Fimmtudagur 05.03.2009 - 17:37 - 8 ummæli

Síðast þegar við borguðum ekki

Í upphafi kreppunnar í haust fóru ólíklegustu menn í fötin hans Daríós Fós og brugðust við tíðindum um þjóðvæðingu bankaskulda með því að hrópa: Við borgum ekki!

Frægastur varð Davíð Oddsson kvöldið góða í Kastljósi – sjálfur Seðlabankastjóri landsins – en margir hafa síðar fórnað höndum yfir ástandinu og fundið þessa útleið eina: Við bara borgum ekki.

Eðlileg viðbrögð þegar himinninn hrundi ofan á okkur. Neita bara öllu, gefa skít í staðreyndirnar. Og stundum er alveg sjálfsagt að barasta borga ekki.

Hjá Daríó Fó var anarkísk lágstéttaruppreisn, og þegar Kastró hvatti fátæku löndin til að borga ekki fyrir nokkrum áratugum voru lánardrottnarnir Alþjóðabankinn og ríku löndin. Ekki einsog í okkar tilviki: sveitarfélög, slökkviliðsstöðvar og fuglaverndarfélög með Bretland og Evrópusambandið á bak við sig.

Enn eru samt uppi þau ráð við vandanum að borga með einhverjum hætti ekki. Reyna að láta hina erlendu kröfuhafa splæsa í 20% af íslenskum húsnæðisskuldum – eða gera sem minnst og athuga hvort reikningurinn gufar kannski upp. Þessvegna er hollt að rifja upp hvað gerðist síðast þegar Íslendingar „borguðu ekki“ (ég þakka snöggvast ábendingar um þetta efni norðan úr landi). Í stuttu máli var afleiðingin sú að heimskreppan mikla uppúr 1930 varð hér miklu dýpri og langærri en í öllum grannlöndunum.

Íslandsbanki fellur 1929

Elsti Íslandsbankinn var stofnaður 1904. Það var hlutafélag og átti landssjóður 2/5 en aðrir hluthafar voru fyrst og fremst útlendingar, Danir og Norðmenn. Bankinn starfaði við hlið Landsbankans en var þó falin seðlaútgáfa – þetta var fyrsti seðlabanki landsins. Á þriðja áratugnum hallaði mjög undan fæti fyrir bankanum, og kann íslensk pólitík að hafa valdið nokkru. Bankamálin urðu bitbein í miklum átök hægrimanna og Framsóknarflokksins, og var Íslandsbanki talinn á áhrifasvæði hinna fyrrnefndu. Á þessum fyrstu árum fullveldisins blésu þjóðernisvindar líka gegn stórbanka í erlendri meirihlutaeigu á Íslandi. Mestu skipti þó að Landsbankinn hafði verið rekinn sem einskonar sparisjóður, segir Ólafur Björnsson prófessor og alþingismaður í ágætri bók um bankann, en Íslandsbanki veitti lán með meiri áhættu til atvinnurekstrar, einkum útgerðar. Útgerðin lenti í vanda í lok áratugarins, og bankinn þar með líka. Þessir erfiðleikar leiddu að lokum til þess að bankanum var lokað í febrúar 1929.

„óbætanlegur hnekkir“

Þá upphefjast strax deilur um það hvort taka eigi bankann til skipta eða endurreisa hann í einhverri mynd. Ólafur segir í bók sinni að bankinn hafi alla ævi sína „haft með höndum mestan hluta gjaldeyrisviðskipta landsins. Er bankanum var lokað skuldaði hann allmiklar fjárhæðir erlendis. Öllum mátti vera ljóst að það væri hin mesta hneisa fyrir landið og óbætanlegur hnekkir fyrir lánstraust þess erlendis ef ekki væri staðið við þessar skuldbindingar bankans“ – en meðal þeirra var hið fræga ,enska lán‘ frá 1921 í Hambro-banka í Lundúnum. Yfirmenn í Hambro skoruðu á stjórnvöld að endurreisa bankann, og það voru líka eindregin ráð Sveins Björnssonar, þá sendiherra í Höfn, síðar forseta Íslands.

Skemmst er frá því að segja að Mörlandinn þráttaði um það í rúmt ár hvað ætti að gera við bankann, og jafnt lánardrottnar sem erlendir hluthafar (sem raunar höfðu engin ráð lengur í bankanum) biðu þann tíma með óþreyju þess sem verða vildi í íslenskri pólitík. Ýmsir töldu að hér við ætti að sitja – að það ætti ekkert að vera að borga „skuldir óreiðumanna“ í Íslandsbanka 1929 og 1930.

Að lokum var þó ákveðið að stofna Útvegsbankann á rústum hins fyrsta Íslandsbanka og var það gert í mars árið eftir, 1930. Seint og um síðir var samið um að borga að mestu skuldir bankans, en á hinn bóginn ákveðið með lögum að afskrifa hlutaféð. Skaðinn var skeður hvað lánin varðaði, en lögin um afskrift hlutafjárins segir Ólafur hafa bakað lánstrausti Íslendinga á norrænum fjármagnsmörkuðum „mikinn álitshnekki“, en margt annað gátu Íslendingar yfirleitt ekki leitað á þessum tíma eftir lánsfé.

Kreppan mikla fram að stríði

Niðurstaða hins varfærna fræðimanns Ólafs Björnssonar er merkileg um þetta mál: „Má telja víst að sá álitshnekkir sem lokun Íslandsbanka hlaut að valda íslenskum stjórnvöldum á erlendum vettvangi hafi átt eigi lítinn þátt í því að allan fórða áratug þessarar aldar mátti heita að erlendir fjármagnsmarkaðir væru Íslendingum lokaðir, en það leiddi aftur til þeirra miklu gjaldeyrisörðugleika sem settu svip sinn á allt athafnalíf hér á landi á þessum tíma og voru því fjötur um fót.“

Kreppan mikla skall á vestra í október 1929 og hafði strax áhrif um allan heim. Í Bandaríkjunum er batinn yfirleitt tímasettur á misserin eftir embættistöku Roosevelts í ársbyrjun 1933, og margir fræðimenn telja að kreppunni vestra hafi lokið um miðjan áratuginn. Á Íslandi varpaði kreppan hinsvegar skugga yfir atvinnulíf og lífskjör allan fjórða áratuginn, og í grófum dráttum má segja að kreppunni miklu á Íslandi hafi ekki lokið fyrr en breski herinn stökk á land 10. maí 1940 og fór að bjóða atvinnu við braggabyggingar, vegi og flugvelli. Og svo kom Kaninn.

Ákvarðanir stjórnvalda í bankamálum frá ársbyrjun 1929 fram á útmánuði 1930 – eða ákvarðanafælni þeirra? – ollu því að kreppan mikla varð dýpri og stóð lengur á Íslandi en nokkur ástæða var til. Þær eyðilögðu aðgang að lánsfé, afli þeirra hluta sem gera skyldi til að hrinda kreppunni af höndum sér einsog Roosevelt tókst í Ameríku, og orðspor Íslendinga í fjármálum var lengi að taka við sér.

Þannig var það síðast þegar við borguðum ekki.

(Heimild einkum: Saga Íslandsbanka hf. og Útvegsbanka Íslands 1904–1980 e. Ólaf Björnsson. Rv. 1981.)

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (8)

  • Hvað ertu að meina? Stendurðu í þeirri meiningu að við séum að borga skuldir bankanna, eða?

    Staðreyndin er sú að „við borgum ekki“, nema örlítið brot af skuldum bankanna.

  • Pétur Tyrfingsson

    Svona bara pínulítið smáatriði: Fídel hvatti aldrei fátæk ríki að borga ekki. Það var komið að honum að vera í forsvari bandalags óháðra ríkja að mig minni 78 eða 79 og það var stefna þessa lauslega þjóðabandalags að sýna fram á að geiðsla skuldanna væri hinum fátæku þjóðum gersamlega ofviða og hefti allar framfarir í hvaða skilningi sem er. Því var krafan á hendur Alþjóðabankanum og ríku löndunum að afskrifa skuldirnar.

    Ef ég skil þig rétt þá ertu að benda á að þótt það kunni að vera fullkomlega ómórölsk krafa að íslenskur almenningur „borgi“ – að Íslendingar standi við skuldbindingar sínar eins og það er orðað – þá spyr hinn kapítalíski markaður ekki um móral heldur hvort viðskiptasamningar á markaði eru virtir. Svona svipað og menn fara ekki að spila fótboltaleik við menn sem breyta honum í handbolta inni í vítateig andstæðinganna.

  • Elías Pétursson

    hvað vilt þú að við borgum mikið eða ekki mikið af þessum þúsundum milljarða sem bankarnir skulda?????

    Um áramót voru skuldir íslendinga ef ég man töluna rétt 13 þúsund milljarðar, bankarnir eiga mjög stóran hlut þar…….., talað er um að eignir séu til upp í 10 til 30% svo þú verður eiginlega að nefna tölu sem þú villt að við greiðum…..

    mætti nefna til fróðleiks að ef við tökum 10% af tekjum ríkissjóðs í afborganir þá erum við 25 ár með hverja þúsund milljarða………þeir hinir sömu þúsund gera reyndar afborganir + vexti að stærð sem er 20 til 25% af tekjum ríkissjóðs ca helming af öllum launagreiðslum þess sama sjóðs..

  • Mörður Árnason

    Rétt túlkun hjá Pétri. Við verðum að ,,borga“ — það sem reglur og samningar segja til um. Ef það er eitthvað sem ekki gengur þá er það að segja sig úr lögum við alþjóðasamfélagið, þar á meðal fjármálamarkaðina. Þessvegna er hollt fyrir okkur dæmið sem Ólafur Björnsson rekur frá fjórða áratugnum. Að halda fram einhverju öðru er að afvegaleiða þjóðina og koma okkur í enn verri mál. Förum svo ekki á taugum, Elías, fyrr en við vitum endanlegar tölur. Þá getum við athugað með alþjóðlega ,,greiðsluaðlögun“ eða ,,nauðasamninga“. Þetta verður erfitt — en þá er að leggja áherslu á hina einföldu hamingju í mannlífinu og standa þétt saman.

  • Elías Pétursson

    13 þúsund og eitthvað milljarðarnir eru af vef SI, tölur um uppgjör og eignastöðu og skil eru frá skilanefndum……

    ég held að menn ættu að gæta sín á svona tali um að greiða allt, staðan er sú að við munum ekki geta greitt allar okkar skuldir til baka.

    í besta falli munum við geta staðið við skuldbindingar okkar samkvæmt milliríkjasamningum, þó mun það þíða gríðarlega erfiða skuldastöðu fyrir ríkið og þar með okkur.

    minni á að tekjur ríkisins eru áætlaðar 400 milljarðar 2009 og útgjöld 550 milljarðar, þar af eru vaxtagjöld áætluð 86 milljarðar og eru þá engar afborganir þar inni.

    möo. við þurfum fyrst að skera niður um 150 milljarða eða auka tekjur sem því nemur áður en við leggjumst í einhverja umræaðu um að gera alla ánægða í útlöndum.

    allt verður þetta erfiðara á meðan sumir þingmenn eða hugsanlegir tilvonandi þingmenn standa líka í vegi fyrir atvinnusköpun af stærri gerðinni….

  • Kristján Sveinsson

    Ágæt er samlíking Péturs um leikreglur í boltaleikjum. Leikendur og áhorfendur og allir aðrir ætlast til þess að leikreglur gildi og ekki bara hluta leiksins heldur allan leikinn. Enginn sættir sig við að leikreglum sé breytt í miðjum leik, jafnvel þótt eitthvað beri útaf. Neyðarlögin fólu slíkt í sér. Reglunum var breytt í einni svipan. Fyrir því voru auðvitað brýnar ástæður. En var þetta risavaxna kennitöluflakk, þegar „nýju“ bankarnir voru búnir til skynsamlegt og trúverðugt?

    Án þess að þekkja til viðhorfa þeirra skuldareigenda sem eiga fé sitt í hættu hér — eða hafa tapað því, þá þykir mér líklegast að þeim sé efst í huga að leikreglurnar verði virtar. Að jafnræði ríki við uppgjör skuldanna. Slík hugsun fólst ekki í orðum fyrrverandi seðlabankastjóra, nú frægum að endemum, þess efnis að erlendar skuldir óreiðumanna yrðu ekki greiddar. Það fólk sem við fésýslu fæst veit mæta vel að fjárfestingar og lánastarfsemi getur reynst áhættusöm iðja. Gróði getur snúist í tap á skömmum tíma — eins og mörg dæmi eru um nú um stundir. Þessu fylgir jafnan tjón og tap og mikilvægt er að við uppgjörið sé farið að reglum og jafnræðis gætt.

    Það er ágætt að benda á dæmið um Íslandsbanka frá upphafi 4. áratugar 20. síðustu aldar. Það má vel taka undir það með Ólafi Björnssyni að aðferðin við skuldaskil hins fallna banka hafi verið ótrúverðug. Eðlilegra hefði sjálfsagt verið að taka bankann til gjaldþrotaskipta með venjulegum hætti. Þá hefði verið farið að leikreglum og jafnræðis verið gætt.

    Maður missir ekki traust á heiðarlegu fólki þótt það lendi í ógæfu og viðbrögðin við ólánsatburðum sýna einmitt oft skýrt hvern mann þeir hafa að geyma sem fyrir verða. Sama gegnir áreiðanlega um heildir eins og íslensku smáþjóðina. Það skiptir ekki minna máli hvernig farið verður út úr vandanum heldur en hvernig komist var í hann. (Sem skiptir þó vitanlega heilmiklu.)

  • Vinstri menn fjármagnsins. Þetta eru heldur betur öfugsnúnir tímar.

    Niðurstaðan er sem sagt: það á að borga skuldir óreiðumanna (varstu með gæsalöppunum að gefa í skyn að þetta séu ekki óreiðumenn?).

    Kapítalið lærir þá lexíu að það er allt í lagi að fjármagna 25% viðskiptahalla og mestu útlánaþenslu sögunnar. Ef í harð bakkann slær þá borgar bara almenningur brúsann (auðvita gildir einu þótt skuldsetja þurfi börn og skera menntun þeirra niður við nögl).

    Og Roosvelt tókst að redda kreppunni með því að vera góður við bankamenn og virða skuldbindingar fjármálastofnanna. Þegar hann gerði gull almennings upptækt þá var hann að virða leikreglur fjármálakerfisins. Jæja.

    Skuldir þróunarlandanna, auðvita eru þær líka í fínu lagi. Þriðjungur þjóðartekna Haítí fer í afborganir af erlendum lánum (m.a. til IMF og WB). Helmingur þjóðarinnar lifir á minna en tveimur dollurum á dag. Innviðir landsins eru varla til að tala um. En auðvita eiga þeir að borga skuldir sinna óreiðumanna.

    Hún er traustvekjandi hugmyndafræði vinstri manna. Þetta er góð byrjun á vinstri sveiflunni.

  • Það mun fara fyrir okkur eins og Weimarlýðveldinu ef við reynum að borga skuldir sem atvinnuvegirnir standa ekki undir. Það er fólkið eða fjármagnið! Maður stendur ekki með báðum á þessum tímum.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og sex? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur