Föstudagur 06.03.2009 - 09:54 - 3 ummæli

Og allt í einu allir sammála!

Það var notaleg stund fyrir yðar einlægan varaþingmann að samþykkja ný lög um eftirlaun ráðherra og þingmanna í gær. Afnema einfaldlega þessi forréttindi og setja þarmeð afar hæfilegan punkt aftan við söguna um eftirlaun Davíðs, Halldórs og félaga frá 2003.

Og nú voru allir sammála! Jafnvel gamlir Sjálfstæðisflokksráðherrar greiddu frumvarpinu atkvæði. Raunar sat Björn Bjarnason nokkuð gneypur í sæti sínu við þessa endanlegu niðurlægingu Heimastjórnarflokksins sem einusinni fór með öll völd í landi og þingi. Aðrir gamlir Davíðsmenn reyndu að dreifa athyglinni – Sigurður Kári vildi öll völd til Kjararáðs og Pétur Blöndal berst fyrir því að alþingismenn fái (einir launamanna!) að velja sér lífeyrissjóð. Pétur segir reyndar réttilega að þingmenn séu ekki opinberir starfsmenn og því ekki sjálfsagt að þeir séu þar í sjóði. Til að gera gott úr málinu var svo lagt til — munnlega — í annarri umræðu að frumvarpinu yrði breytt þannig að Pétur H. Blöndal fengi að velja sér lífeyrissjóð.

Til að afnema sérréttindin þurfti að koma Sjálfstæðisflokknum í stjórnarandstöðu. Þetta var orðin opinber stefna Samfylkingarinnar og fleiri flokka fyrir síðustu kosningar og Valgerður Bjarna „fékk“ að flytja frumvarpið sitt sem varaþingmaður strax fyrsta veturinn, en þrátt fyrir ákvæði í stjórnarsáttmála tókst Samfylkingunni ekki að fá íhaldið með í þetta mál eftir hrunið – og þá var það of lítið og of seint. Okkur fannst mörgum að forystumenn flokksins ættu að leggja meiri áherslu á þetta í byrjun stjórnarsamstarfs og mér leiddist að sjá félaga mína flækta í þetta núna fyrir jólin.

Auðvitað var það svo þjóðin sem hafði vit fyrir þinginu – fyrst með miklum mótmælum jólin 2003 og svo að lokum með því að gera afnám eftirlaunalaganna að einni af meginkröfunum haustsins á Austurvelli og öðrum mótmæla- og umræðufundum.
Ég talaði bert í umræðunum um þetta mál núna í þingsalnum. Málið var auðvitað ákaflega táknrænt fyrir stjórnartíð Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks. Ráðherrar flokkanna bjuggu til frumvarp um eigin kjör, héldu áfram að byggja upp forréttindi kjörinna fulltrúa og juku greiðslur til sjálfra sín allra mest.

Allra erfiðast var að sjá flækta í þetta forystumenn stjórnarandstöðuflokkanna, Steingrím, Guðjón Arnar og Össur. Ég veit ekki enn hvernig það bar nákvæmlega til og bíð bara eftir ævisögum þeirra félaga – verð að láta mér nægja að núna hafa þeir allir iðrast. Reyndar tók Össur út sína refsingu fyrir löngu, því ef eitthvert einstakt mál felldi hann úr formannsstóli Samfylkingarinnar árið 2005 fyrir Ingibjörgu Sólrúnu, þá var það einmitt eftirlaunamálið. Við Össur erum gamlir vinir, og ég trúi aldrei uppá hann neinu ljótu – til þess hefur hann alltof indæla nærveru einsog Maggi bróðir hans segir – og tel þessvegna að hann hafi flækst inní þetta af fljótfærni og nánast einsog af skyndilegum barnaskap. Ég held hinsvegar að bakvið samvinnu forystumanna okkar, ekki síst Guðmundar Árna Stefánssonar, við menn Davíðs í þessu máli hafi legið sá draumur hjá hluta af þingflokknum að það væri einhvernveginn hægt að kljúfa stjórnina og mynda nýja með Sjálfstæðisflokknum. Stuðningurinn í eftirlaunamálinu hafi átt að sýna að flokkurinn væri stjórntækur. Viðreisnardraumurinn kraumaði lengi og víðar en í JBH. — Hvaða leik VG og Frjálslyndir svo voru í veit ég ekki, og kannski ekki þeir sjálfir heldur.

Inni í þingflokknum kom strax fram andstaða við málið, fámenn en hávær, og smám saman fjölgaði í þeim hópi, einkum eftir að ASÍ lét í sér heyra. Enn eru á kreiki sögur um „konuna“ sem hafi komið og snúið þingflokknum á einu kvöldi. Ingibjörg Sólrún átti vissulega þátt í sinnaskiptunum – en það er rétt að upplýsa núna að sá sem kallaði hana til (hún var þá varaformaður en utan þings) á þingflokksfundinn var yðar einlægur – ég hringdi daginn eftir að frumvarpið kom fram og bað hana um hjálp vegna þess að hér væru alvarleg tíðindi á ferð og ekki nógu margir með fullum fimm í þingflokki Samfylkingarinnar.

Þetta var mikil prófraun fyrir nýjan þingmann, flokkshollan vissulega en með innbyggða óstýriláta samvisku. Í umræðunum um frumvarpið urðum við að sætta okkur við að taka ekki til máls, og forystumennirnir reyndu að lokum að fá alla til að sitja hjá – nema Guðmund Árna sem sneri upp á sig og sagðist vesgú ætla að samþykkja sitt eigið frumvarp. Bryndís og KLM voru í stjórn þingflokksins og kölluðu hvern þingmann á sérstakan fund til að pína hann í hjásetu – en fljótt kom í ljós að það gekk ekki hjá öllum. Minn fundur með þeim var stuttur.

Fyrir utan þinghúsið óx ólgan í samfélaginu en Davíð brást við einsog alltaf: Setti undir sig hausinn gegn andstæðingunum og keyrði frumvarpið í gegn. Ég held reyndar að fáum hafi liðið vel að samþykkja þetta, og kannski er þeim létt núna þótt þeir hafi ekki um það mörg orð, sumum Frömmurum og Sjöllum sem gátu í gær ýtt á græna takkann.

En meðal hinna ánægðustu eru þó sennilega þeir sem sögðu nei 2003, bara fjórtán þingmenn og varaþingmenn, og höfðu allir þurft að hafa fyrir þeirri afstöðu í flokkunum sínum. Nefnilega:

Anna Kristín Gunnarsdóttir
Ágúst Ólafur Ágústsson
Ásta R. Jóhannesdóttir
Grétar Mar Jónsson
Gunnar Örlygsson
Helgi Hjörvar
Hlynur Hallsson
Jóhanna Sigurðardóttir
Jón Bjarnason
Katrín Júlíusdóttir
Mörður Árnason
Sigurjón Þórðarson
Steinunn K. Pétursdóttir
Ögmundur Jónasson.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (3)

  • Rómverji

    Eg hlustaði á þig við 2. umræðu og var mjög ánægður. Þú hafðir sóma af þessu máli.

    Þessi kenning – þótt rétt væri – finnst mér hins vegar ekki geta orðið neinum til málsbóta. Þvert á móti: „Stuðningurinn í eftirlaunamálinu hafi átt að sýna að flokkurinn væri stjórntækur.“ Fremur er þetta sterk áminning um nauðsyn þess að almenningi verði gert kleift að veira þingmönnum sínum miklu miklu meira aðhald en nú er. Sérstaklega er þeim hætt við að gleyma sér sem lengi hafa setið á þingi, mönnum á borð við Össur Skarphéðinsson og Steingrím J. Sigfússon. Fyrst góðir drengir koðna svo niður, hvað má þá segja um hina?

    Frumvarp um persónukjör verður að ná fram að ganga. Fjórflokkurinn verður að láta af sýndarmennsku í því máli.

    Já, og það var stór(ó)merkilegt að sjá sjá Sigurð K. Kristjánsson, Björn Bjarnason og Sturlu Böðvarsson greiða atkvæði með frumvarpinu í gær. En batnandi mönnum er best að lifa og vonandi er batinn varanlegur.

    Sigur í þessu jafnréttismáli er mikilvægari en margur hyggur. Hér má aldrei verða til sérstök stétt stjórnmálamanna sem býr um sig ofan og handan við almenning, og þykist yfir hann hafinn.

    Þingmenn eru úr okkar röðum og þeir fara með umboðsvald. Því mega þeir aldrei gleyma og þeirri staðreynd þarf almenningur stöðugt að halda á lofti. Með pottum og sleifum ef svo ber undir.

  • Rómverji

    Verð að bæta því við að þingmennirnir Ögmundur Jónasson og Valgerður Bjarnadóttir voru Alþingi til sóma og öðrum þingmönnum til eftirbreytni í þessu máli.

    Eg vona að kjósendur launi þeim eftir því. Við þurfum á heiðarleika og réttsýni að halda.

  • Einar Jón

    Mér finnst nú ósköp aumt af Samfylkingu að hafa ekki komið þessu í gegn fyrr. Ef allir hinir flokkarnir hefðu stutt þetta frumvarp hefði það farið í gegn með 37 atkvæðum.
    Hvað með það þó Sjálfstæðisflokkur hafi verið í stjórn?
    Hefðu þeir farið í fýlu og slitið stjórnarsamstarfinu?

    Og svo er engin ástæða fyrir því að halda inni 50% „bónusgreiðslum“ til formanna stjórnarandstöðuflokkanna. Af hverju eru þeir svona spes?

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af sex og einum? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur