Kátir voru karlar í SÁÁ-salnum í gær og fóru auðvitað allir á kostum enda gáfaðir, sterklega vaxnir, snjallir ræðumenn og einstaklega velheppnaðir frambjóðendur. Þetta var líka gott fundarform, við stóðum sinn við hvert púlt, lagt hárauðu pappírsáklæði og töluðum ekki lengur en þrjár mínútur í einu en stjórnandinn var hinn undurfagri og röggsamlegi borgarfulltrúi Sigrún Elsa Smáradóttir. Og hóf karlakvöldið með glúrnum svipmyndum af karlmennsku frambjóðendanna fimm eftir ítarlega könnun meðal kvenna í flokknum!
Við ræddum auðvitað talsvert um karla og hlutskipti þeirra í heiminum – og vönduðum okkur við að hafa uppivið hina hrjúfu karllegu viðkvæmni án þess að detta í væmni. Auðvitað yrði að viðurkenna að þáttur í útrásardellunni og græðgissamfélaginu sem kennt er við árið 2007 væri öfgakarlmennska sem birtist í slagsmálum um gróða, völd og leiktæki á borð við fjallajeppa, einkaþotur og skemmtisnekkjur. Í hefð karlmennskunnar væru þó líka önnur gildi: Hin raka hlýja búningsklefans (orðtak Sigga Svavars) og karlfaðmurinn opni – einlægni og ábyrgð, hugrekki, æðruleysi (Traustur vinur / getur gert / kraftaverk / tralala). Á hinn bóginn – sagði ég – væri varasamt að alhæfa á þessum nótum um 2007-samfélagið. Það væri miklu rökréttar að virða það fyrir sér með hugtökunum vinstri og hægri. Við höfum einfaldlega misst sjónar á þeim gildum og því skipulagi sem jafnaðarstefna síðustu alda hefur fært okkur, og alltof margir tekið í praxís trú á þá kenningu Thatchers og Hólmsteins að samfélag sé ekki til heldur bara einstaklingar að hlaupa á eftir viðskiptahagsmunum.
Ný skýring á kvennafylginu
Pétur Tyrfingsson bar náttúrlega af á fundinum, ræðumaður af guðs náð og hefur einskis í misst frá Fylkingunni og Dagsbrún forðum tíð. Hann talaði meðal annars um hlutskipti karla í hjartnæmri ræðu: Þeir lentu í erfiðleikunum í skóla, þeir yrðu fórnarlömb alkóhólisma og einsemdar á efri árum – það þyrfti sannarlega að beina sjónum að sérstökum erfiðleikum karlkynsins. Dofri var litlu síðri að lýsa eigin raunum sem leitandi karlmaður í æsku – hann hefði til dæmis haft gaman af leikföngum í líki lítils fólks – og ekki uppgötvað fyrren um seinan að strákar leika sér ekki að dúkkum. Hörður þurfti auðvitað ekki annað en að opna faðminn en Helgi reyndi að svara lúmskri spurningu Lindu Vilhjálmsdóttur um það af hverju Samfylkingin nyti sífellt minni stuðnings karla en kvenna. Ég man ekki hvort það var Helgi eða einhver annar sem fann að lokum út að kvennafylgi Samfylkingarinnar hlyti að stafa af því hvað karlarnir í Samfylkingunni eru gjörvulegir!
Mikki mús og krónan
Við vorum líka í hefðbundnari pólitískum málum – kreppunni auðvitað, aðdraganda hennar og afleiðingum, ræddum talsvert um verðtryggingu og lausnir fyrir skuldsettar fjölskyldur, og þar með um Evrópusambandið – sem allir voru sammála um – og um gjaldmiðilinn. Dofri upplýsti meðal annars að íslenska krónan væri aumari en Mikkamús-peningarnir í Disneylandi! Þar koma 600 þúsund á ári, tvöfalt fleiri en nota krónuna, og Mikkamús-peningurinn hefur þann mikla kost að ef maður á fyrir einum hamborgara með Mikkamús-seðli getur maður geymt seðilinn og komi aftur eftir heilt ár – og enn dugar Mikkamús-seðillinn fyrir einum hamborgara. Við féllum allir í stafi yfir þessum merkilega gjaldmiðli, og strax komu upp hugleiðingar um það hvernig Íslendingar gætu skipta út krónunni fyrir þessa góðu hamborgaramynt …
Össur og VG
Össur Skarphéðinsson stórframbjóðandi heiðraði okkur með nærveru sinni nokkra stund og spurði Pétur meðal annars eftir mikið lof af hverju hann hefði nú valið Samfylkinguna fram yfir VG – Pétur svaraði því ágætlega og svo töluðum við allir nokkuð hlýlega um VG og lofuðum bandalagi eða blokk í kosningunum, meira að segja Hörður, sem þolir þó misjafnlega ýmsa í þeim flokki frá óeirðunum í Allaballa forðum daga. Ég sagði frá reynslu minni í þinginu af VG síðan nýja stjórnin tók við, og hældi forystumönnum VG á hvert reipi. Þeir eru núna að leggja sig fram um að bregðast ekki trausti og vera ábyrgir. Við eigum að halda áfram þessu stjórnarsamstarfi, með stuðningi annarra félagshyggjuafla eða án. Þar eiga landsins gagn og nauðsynjar að ganga fyrir – en það er heldur ekkert fráleitt að ímynda sé að náin samvinna flokkanna tveggja geti leitt til nýrra áfanga á langri leið við að sameina íslenska vinstrimenn. Því hverju munar í raun og veru? Ekkert mjög miklu öðru en ESB – og um það er eðlilegast að þjóðin dæmi sjálf með sem minnstum milliliðum í flokkakerfinu.
Kapítalisminn er vondur
Svo töluðum við að ósk fundarmanna um stóriðju og sprota (Dofri, Hörður, ég), um heilbrigðiskerfið (Hörður, Pétur), um lífeyrissjóðina, stefnu þeirra og vald (Helgi – það þarf meira af þeim ræðum seinna!), um vanræktan arf okkar frá Gamla Íslandi bænda og sjómanna (ég: vinnusemi, þrautseigja, nægjusemi, samtök , samhjálp), og um sjálfan kapítalismann (Pétur): – Það er ekkert vit að vera að tala þannig að fólkið á Íslandi hafi ruglast eða að við þurfum einhver gildi fram og aftur. Hér bara kom í ljós að það var alltof mikill kapítalismi! Kapítalisminn hugsar ekkert um fólkið heldur bara um forstjórana og hlutabréfin. Við eigum að einbeita okkur að honum. Fólkið er ekkert vont – það er kapítalisminn sem er vondur.
Og af ánægju út að eyrum hver einasta kerling hló.
Thad vaeri skadi fyrir thjodina alla held eg og serstaklega tha thingflokk Samfylkingarinnar ef ad Pétur naer ekki kjöri. Thvilikur munadur vaeri thad fyrir thingflokkinn ef hann hefdi Pétur Tyrfingsson innan sinna rada. Thad segi eg eftir ad hafa thekkt manninn i rúm 20 ár.