Miðvikudagur 11.03.2009 - 09:20 - 6 ummæli

Frakkar eru ekki asnar

Frakkar eru ekki asnar, segir Eva Joly en Jóhanna hefur nú skipað Evu ráðgjafa ríkisstjórnarinnar við rannsókn bankahrunsins og hugsanlegra sakamál í tengslum við það. Ég var að lesa viðtalið við hana í Mogganum (missti af henni hjá Agli) og þessi Frakki er allavega enginn asni. Það var svo sannarlega kominn tími til að fá erlendan mann – gestsaugu – til að horfa yfir þennan þátt í uppgjöri okkar eftir tíðindin í haust.

Nú eru liðnir fimm mánuðir – þar af fóru fjórir í rugl og bið og „Maybe I should have“ hjá síðustu ríkisstjórn. Auðvitað grunar fleiri en Spaugstofuna að tætararnir hafi verið í stöðugum gangi allan þennan langa tíma, og fé nú komið fyrir á órannsakanlegum reikningum. Vanti menn til hins sérstaka saksóknara á að útvega þá strax. Sé saksóknarinn sjálfur ekki nógu góður á að skipta.

Frakkar eru engir asnar, og það er einhvernveginn ekki gæfusvipur á því að hinn sérstaki saksóknari skuli í Mogganum hafna umsvifalaust þeirri skipan að hafa í þessu verki sjálfstæðan rannsóknardómara sem enginn getur hróflað við. Víst búum við að hefðum í lögreglu- og dómskerfi og ber að virða þeir svo langt sem þær ná. Hefðirnar dugðu okkur samt ekki gegnum bankahrunið – ekki til að stöðva fjárflótta til Tortola og álíka staða – ekki til að upplýsa eitt einasta sakamál hingað til í aðdraganda hrunsins og eftirleik.

Er hann annars í alvöru, þessi sérstaki saksóknari? Er hann eitthvað að gera? Býr hann að raunverulegri hæfni til að takast á við verkefni sitt? Þetta þarf kannski að skoða uppá nýtt. Ólafur Þór þessi Hauksson varð frægur fyrir að „leysa“ hlerunarmálin sem þeir Jón Baldvin Hannibalsson og Árni Páll Árnason vöktu máls á um árið. Mér fannst það satt að segja ekki afar traustleg rannsókn. Kannski hefði franskur rannsóknardómari farið öðruvísi að – og tekið minna tillit til álits og hagsmuna þáverandi dómsmálaráðherra?

Frakkar eru engir asnar. Í vetur var ágæt grein í Mondinum þar sem einn af efnahagsblaðamönnunum hrósar franska hagkerfinu –- sem Engilsaxar hafa lengi hætt og nítt – fyrir að standa sig vel í kreppunni. Skrifa kannski meira um þetta seinna –- en í stuttu máli er franska hagkerfið blandara en nýlíberalískir kreddukallar  þola og traustur korpóratismi við lýði: Ríkisvald, verkalýðshreyfing, atvinnurekendur, háskólar og rannsóknastofnanir – hvað sem líður hægri og vinstri (sem sameinast reyndar þar í samfelldum gaullisma! hvað sem forsetinn ætlar sér í hvert skipti). Þeir eru vissulega seinni upp í góðærisskrúfum en standa höggin betur af sér þegar bólurnar springa. Kannski er kominn tími til þess fyrir okkur að litast um og víðar en í Economist og Forbes eftir fyrirmyndum við endurrreisnina?

Að lokum: Nafn franska lögfræðingsins hefur sætt ótrúlegri misþyrmingu í fjölmiðlum undanfarna daga. Ættarnafnið Joly er best að bera fram á íslensku [sjólí]. Á frönsku er fyrsta hljóðið raddað s sem er borið er fram með tungubrodd við tannberg (einsog í ensku measure). Joly er sjálfsagt í upphafi einhver sveit eða hérað í Frans, en er samhljóða algengu frönsku lýsingarorði, joli, sem merkir skemmtilegur, sætur, sniðugur — og djarfir orðsifjafræðingar hafa giskað á að sé skylt hinu háíslenska orði jól. Þannig að Eva sæta er svo sannarlega velkomin til Íslands.

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (6)

  • 10% atvinnuleysi og nettó ríkisskuldir í kring um 100% af VLF og kolsvartar hagvaxtarhorfur eru vitaskuld víðsfjarri frönskum veruleika.

    Ég þekki einn Frakka sem vill meina að ástandið í heiminum núna sýni að Frakkland hafi áratugum saman verið á undan í hagþróun 🙂

  • Mörður Árnason

    Þetta Frakkablogg má ekki skilja svo að Frakkland sé nokkur almenn fyrirmynd um t.d. atvinnuleysi, tekjujöfnun eða fjölmenningu! Hinsvegar kann franska ,módelið’ að vera sterkara en meiraðsegja þeim sjálfum hefur fundist undanfarið. Sarkozy talaði mikið um ,skil’´(rupture) við gamla kerfið í kosningabaráttunni 2007 og var mjög dáður í bresk-bandarískri bissnespressu (birtur sem nýr Napóleon á leið yfir Alpana framan á Economist!) en hefur nú snúið við blaðinu og tekur gamal-gaullíska hagstjórnarafstöðu í kreppunni.

  • Eysteinn Kristjánsson

    Hvort sem eftirnafnið er Sjólí eða Jólí, hefði nú frekar viljað fá Angelínu. Hún myndi gera svipað gagn í þessum rannsóknum, en er þó meira fyrir augað í skrípafréttatímum næstu mánaða.

    Að halda að þessi franska kvensa eigi eftir að góma alla skúrkana eins og einhver leigu-Elliot Ness, er alveg hroðaleg bjartsýni.

  • Rómverji

    „Er hann annars í alvöru, þessi sérstaki saksóknari? Er hann eitthvað að gera? Býr hann að raunverulegri hæfni til að takast á við verkefni sitt? Þetta þarf kannski að skoða uppá nýtt. Ólafur Þór þessi Hauksson varð frægur fyrir að „leysa“ hlerunarmálin sem þeir Jón Baldvin Hannibalsson og Árni Páll Árnason vöktu máls á um árið. Mér fannst það satt að segja ekki afar traustleg rannsókn. Kannski hefði franskur rannsóknardómari farið öðruvísi að – og tekið minna tillit til álits og hagsmuna þáverandi dómsmálaráðherra?“

    Eitthvað í þessa veru hafa margir hugsað. Ólafur Hauksson VAR það eina sem við höfðum. Og mikið rétt: Tímabært að hugsa málið upp á nýtt.

  • Ha? Er Eva Joly Evu-ráðgjafi ríkisstjórnarinnar?

  • Afar kurteist gagnvart okkur að orða þetta svona: „Frakkar eru engir asnar.“

    Ætli hún viti að 87% treysti ekki Alþingi en ætli samt að kjósa sömu flokka og þingmenn aftur?

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af þremur og þremur? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur