Yðar einlægur var feimnislega upp með sér í gærkvöldi, rétt einsog barn eftir óvænt hrós.
Ég fékk nefnilega allt í einu að vera framsögumaður menntamálanefndar og skilaði af mér nefndaráliti um þingsályktunartillöguna um íslenska málstefnu – sem er í fyrsta sinn sem Íslendingar samþykkja formlega að tala íslensku á Íslandi. Það verður gert í atkvæðagreiðslu seinna í dag, og vonandi verða allir á græna takkanum.
Framsagan sprettur af því að þegar ég kom inn á þingið í forföllum ISG eftir stjórnarskiptin bað Árni Páll mig að sinna verkum sínum í menntamálanefnd. Þar var þá einmitt verið að fjalla um málstefnuna, og nefndarmenn ákváðu að reyna að flýta einsog verða mætti þeirri umfjöllun til að hún kæmist á dagskrá þingsins áður en allt færi á fullt í hasarmálunum. Þetta tókst – en þegar loksins kom að málinu á þingfundinum í gær voru bæði nefndarformaðurinn og varaformaðurinn veðurteppt fyrir austan, Einar Már Sigurðarson og Þuríður Backman, en ég var hinsvegar á vappi í þinghúsinu að bíða eftir Helguvíkurfrumvarpinu.
Málstefnan er vandað og ýtarlegt rit þar sem er fjallað um margvísleg notkunarsvið tungumálsins, farið yfir stöðuna í hverjum um sig og gerðar tillögur um úrbætur eða nýja tilhögun. Þetta er ákaflega vel unnið eftir skynuglegum aðferðum – það er ekki einkum verið að huga að einstökum þáttum sjálfs tungumálsins sjálfs –það er ekki verið að leiðrétta málvillur! – heldur er áherslan fyrst og fremst lögð á það að við virðum íslenskuna og bætum hana með því að þjálfa okkur í að tala eigið mál um alla hluti forna og nýja. Fyrirmyndin er ekki skrýtni Spaugstofukennarinn með slaufuna og prikið heldur frekar íslenski heimsborgarinn Einar Ben: Ég skildi að orð er á Íslandi til um allt sem er hugsað á jörðu.
Á þinginu var tekinn upp þessi þráður frá höfundum málstefnunnar. Athugasemdir sem bárust um stefnuplaggið voru athugaðar og skráðar vandlega en ákveðið að beina þeim til framhaldsstarfs – ákveðið að líta ekki svo á að hér væri komin HIN ÍSLENSKA MÁLSTEFNA í eitt skipti fyrir öll, höggvin í stein og sett á Þjóðminjasafnið, heldur ætti að líta á þetta sem merkilegt og nauðsynlegt verkefni í stöðugri mótun og þróun.
Það var hugsun þeirra sem stóðu að þessari stefnumótun, Guðrúnar Kvaran, Þórarins Eldjárns og félaga í Íslenskri málnefnd, og fjölmargra annarra sem tóku þátt í verkinu. Þau héldu meðal annars ellefu málþing allt árið 2008, um lagastöðu íslenskunnar, um íslensku í fjölmiðlum, í skólastarfi, í listum, í viðskiptalífinu, um kennaramenntun og svo framvegis, og síðan tók við úrvinnsla og umræða og skriftir. Og auðvitað á svona stefna sér miklu lengri aðdraganda – vinnu og umhugsun á undanförnum árum, alla síðustu öld – og þessvegna aftur í Fjölnismenn og aðra endurnýjunarmenn íslensku á tímum þjóðfrelsisbaráttunnar. Því ekki að nefna líka húmanista 17. og 18. aldar sem fyrstir uppgötvuðu verðmætin í íslenskri tungu og bókmenntum – með Árna Magnússon í fararbroddi.
Og þá er að hrósa fyrrverandi menntmæalaráðherra, Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, fyrir að flytja málið og hafa unnið vel að því. Það hrós er sjálfsagt eftir alla þá hildi sem ég hef háð við hana um önnur efni.
Undanfarið hefur íslenska og íslenskt ekki verið mikið í tísku. Við höfum meira verið í því að gleypa við nýjungum og gera sjálf okkur út á erlend mið til að vera betri útlendingar en útlendingarnir. Þó með undantekningum – einmitt hjá þeim sem hefur gengið best – þar sem er unnið úr íslenskum arfi og hann sambræddur straumum samtímans: Björk, Marel, Sigurrós, rithöfundarnir, Össur, fisksalar nýrra tíma á þróuðum neytendamörkuðum, hönnuðir, ýmsir myndlistarmenn, Baltasar og Friðrik Þór.
Ég held að á Nýja Íslandi – eða kannski frekar Nýja-Gamla Íslandi? – verði íslenskan höfð í metum upp á nýtt. Þetta eru ótrúleg auðæfi fyrir fámenna þjóð, að búa við fullkomið tungumál, þúsund ára gamalt en lagað að nútímaþörfum, með sögur, ljóð, orðtök, spakmæli sem hver menningarþjóð gæti verið stolt af. Við eigum að vera glöð að hafa fengið þennan arf frá öfum okkar og ömmum – og við eigum að færa hann enn aukinn börnum okkar og barnabörnum.
Áður en ég hníg niður úr væmni: Sagan fer sennilega ekki mildum höndum um 134.–136. löggjafarþing 2007–2009. Menn eiga samt eftir að minnast björgunarlaga núna eftir áramótin og laga um umbætur í lýðræðis- og stjórnkerfismálum, sem sum eru þegar samþykkt en önnur bíða enn í málþófi Sjálfstæðisflokksins. Kannski verður óbrotgjarnasti bautasteinn þingsins í vetur sá í sögunni að hafa samþykkt í fyrsta sinn íslenska málstefnu sem síðan hafi haft mikinn ávöxt? Það mærðar timbur ber ég nú úr orðhofi máli laufgað.
Íslensk tunga er mjög merkileg fyrir margra hluta sakir. Fá lifandi tungumál í heiminum geta t.d. státað sig af því að hafa lifað lítt breytt undanfarin 1000 ár á vörum íslensku þjóðarinnar. Oft var vegið að íslenskunni en hún lifði af allar náttúruhamfarir, stríð, pestir og ný mennigaráhrif.
Þrennt er sem okkur ber að vera meðal fremstu ríkja heims um þessar mundir : það er utan varðveislu íslenskrar menningar að vera í forystu um útbreiðslu jarðhitanýtingar í heimi vísinda með að hér á landi er starfræktur Jarðhitaskóli Sameinuðu þjóðanna. Þessi skóli er okkur mjög dýrmætur enda hefur Ísland átt verulegan þátt í að ryðja braut jarðhitarannsókna víða um heim. Þá höfum við með Hafrannsóknarstofnun miðlað gegnum Matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) mikilsverða reynslu okkar sem fiskimannaþjóð um nýtingu fiskistofna og aðgæslu um þessar auðlindir.
Varðandi tunguna þá lýst mér mjög vel á hugmynd þína Mörður, að í væntanlegri nýrri stjórnarskrá verði ákvæði sem víkur að íslenskunni, gildi hennar og varðveislu.
Með bestu kveðjum úr Mosfellsbæ
Guðjón Jensson (Mosi)