Það var merkileg stund í gær þegar Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra bað Breiðavíkurdrengina afsökunar fyrir hönd íslenskra stjórnvalda og almennings á meðferðinni sem þeir fengu á sínum tíma. Einfalt, beint frá hjartanu, einmitt það sem þurfti að segja. Hún lét svo ekki sitja við afsökunarbeiðnina eina heldur viðurkenndi að slík ummæli væri lítils virði ef þeim fylgdi ekki stefnubreyting í samningastappi sem fyrrverandi forsætisráðherra lét sér sæma að standa í við þessa menn sem líf þeirra margra hefur markast af því að gæslumenn á vegum ríkisins kipptu undan þeim fótunum á barnsaldri.
Auðvitað þarf að halda vel utan um almannasjóði. Hér er þó á ferð einstakt réttlætismál, og hugleiðingar allar um fordæmi eiga að víkja því við ætlum einmitt ekki að skapa neinskonar fordæmi: Svonalagað skal aldrei koma fyrir aftur á Íslandi.
Nú leysir Jóhanna þau mál þannig að allir geti sæmilega vel við unað – en það er augljóst af viðbrögðum Bárðar Ragnars Jónssonar í Fréttablaðinu – hann er forustumaður í félagsskap Breiðavíkurdrengja – að afsökunarbeiðnin sjálf úr munni forsætisráðherra Íslands skiptir miklu máli.
Og sá glaðlyndi við ofninn …
Meðan Jóhanna stendur sig sem aldrei fyrr í upphafi fjórða áratugar síns í stjórnmálum er ekkert nema þreytumerki að sjá á öðrum gamalreyndum stj´ronmæalamanni hinumegin litrófinu, nefnilega Birni Bjarnasyni. Björn er búinn að vera óvenju svipljótur síðan umstjórnarskipti, situr gneypur á þinginu í horninu sínu við ofninn og stafar af honum pirringurinn í allar áttir – einna helst að hann skipti orði við sessunaut sinn Jón Gunnarsson. Fer einkar vel á því að þeir félagar sitji saman í ofnshorninu.
Björn gagnrýnir í gær Jóhönnu Sigurðardóttur fyrir „losaralega túlkun“ á „ýmsum grunnreglum stjórnarskrárinnar“ af því þinglausnir og kosningar eiga ekki að fara fram einsog Björn og aðrir Sjálfstæðisflokksmenn vilja helst – að þingið hætti strax og sem fæst mál afgreidd þannig að allt sé upp í loft þegar kosningabaráttan hefst. Björn tínir ekki til rök að hinni kórréttu túlkun sinni á stjórnarskránni nú eða á valdaárum sínum löngum og ströngum, sem einmitt hafa einkennst af óheflaðri umgengni við stjórnarskrána, heldur setur sig á háan hest gagnvart Jóhönnu Sigurðardóttur sem tækifærissinna og hálfgerðum kjána:
„Losaraleg túlkun á ýmsum grunnreglum stjórnskipunarinnar við myndun og síðan í störfum ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur vekur efasemdir um, að forsætisráðherrann átti sig á ábyrgð sinni. Hitt kemur ekki á óvart, að hún hafi ráð um eðlilega varúð að engu eða láti stjórnarskrána ekki njóti vafans, sem var þó höfuðmál hennar og Steingríms J. Sigfússonar í stjórnarandstöðu. Nú er allt sagt leyfilegt, af því að fólkið heimti það!“
Af því að fólkið heimtar það! – Það er auðvitað það síðasta sem virðulegir valdsmenn einsog Björn Bjarnason hlusta á. Fólkið sem hann og forfeður hans af ýmiskonar aðalsætt hafa haft vit fyrir öldum saman! Og svo kemur einhver kvenmaður – er hún ekki flugfreyja? – með sína losaralegu túlkun og hefur alla varúð að engu – og heldur að hún viti eitthvað um stjórnarskrána sem langafi fékk hjá kónginum!
Óvenju skýr hér sjálfur kjarninn í skapgerð Björns Bjarnasonar: Yfirlætið.
Nú og þá
Það er fróðlegt að virða fyrir sér þessa stjórnmálamenn tvo, á svipuðum aldri með svipaða reynslu af stjórnmálastörfum og setu í ríkisstjórn – þótt Jóhanna hafi setið lengur á þingi vegur Björn það upp með störfum á Morgunblaðinu og stjórnarráðinu – og bæði búa þau að pólitískum arfi að heiman, Björn frá föður sínum og frændum, Jóhanna frá foreldrum sínum en ekki síst ömmu sinni og nöfnu Egilsdóttur sem var í dýrlingatölu meðal verkakvenna þegar ég var að alast upp.
Munurinn er sá að annað þeirra er að hætta. Hinn kalda heimsmynd Björn Bjarnasonar er búið spil, hugmyndafræði félaganna góðu í rúst, landið sem hann stjórnaði á hausnum, flokkurinn í tilvistarkreppu. Hann yfirgefur hinn pólitíska vettvang með klofinn hjálm og rofinn skjöld, brynju slitna, sundrað sverð – og syndagjöld.
Jóhanna stendur á hátindi ferils síns og fæst þar við einhver erfiðustu stjórnarverk Íslandssögunnar. Það er kallað á hana til forustu í flokki sínum, sem nú um stundir mælist fylgismesti stjórnmálaflokkur landsins, og hvað eftir annað kemur í ljós að nú treysta Íslendingar henni best til leiðsagnar næstu örlagaár. Á þessum tíma biður hún lítilmagna afsökunar á gömlum misgerðum, skammar bissnesmenn á viðskiptaþingi fyrir bruðl og óhóf, og stjórnar björgunarstarfinu fyrir hag heimila og fyrirtækja.
Annar stjórnmálamaðurinn er maður fortíðarinnar. Nútíminn pantar hinn.
Sammála. Takk.
Það er oft einkar fróðlegt að lesa greinar eftir Mörð. Hann er vissulega ritfær maður en efnislega eru þó flestar pólitísku greinarnar hans eins. Maður yfirleitt engu nær um annað en afar djúpa óvild hans á pólitískum andstæðingum, svo djúpa að það jaðrar við heift.
Ekki þekki ég Mörð persónulega en gæti það verið að það geti verið hættulegt að mæta honum á götu? Er hann eins og stóru strákarnir í æsku minni, tuddarnir, sem lögðu aðra í einelti og börðu þá af og til? Er ég að taka áhættu með því að rita þessar athugasemdir?
Vissi maður ekkert um stjórnmál mætti halda að til dæmis Björn Bjarnason væri sá vondi sjálfur og allar hans ættir væru samansafn illfygla sem og samflokksmenn mannsins. Rétt eins og Björn hafi getað valið sér fjölskyldu og forfeður. Jóhanna forsætisráðherra hefur greinilega getað það svo sviphrein og fögur sem hún er, algjör andstæða hins svipljóta Björns.
Ekkert fjallar Mörður um hvað það er sem honum mislíkar við Björn annað en að heimsmynd Björns er ónýt sem og land, þjóð og miðin, allt honum að kenna. Og svo er því laumað inn að forsætisráðherrann sviphreini hafi verið uppnefndur með starfi sem hún gengdi fyrir margt löngu. Er Björn slíkur svíðingur að kalla Jóhönnu flugfreyju? Þetta flugfreyjutal minnir óneitanlega á dýralækninn sem gengdi stöðu fjármálaráðherra. Sú menntun var að mati Marðar og annarra samflokksmanna hans heldur klén fyrir hið háa embætti. Um þessar mundir dugar fjármálaráðherra að vera jarðfræðingur.
Ill tunga Marðar um fólk og flokka er honum örugglega ekki til framdráttar.
Slíkur stjórnmálamaður er maður fortíðarinnar. Númtíminn pantar hinn, þann sem er málefnalegur, ber virðingu fyrir andstæðingum sínum og gagnrýnir fyrir skoðanir, ekki ættir, útlit, menntun eða annan „hégóma“.
Ansi nákvæm lýsing á þeim tveimur. Gaman að þessu.
ps Sigurður, kaldhæðni er ekki þinn kostur. Notaðu bloggið þitt við að skrifa færslur.
Ég hef lesið sumt af því sem birtist á bjorn.is og amx.is eftir Björn Bj. og verð að segja: Maðurinn er innilega fúll og sérstaklega út í Jóhönnu.