Sunnudagur 15.03.2009 - 13:00 - 6 ummæli

Jamm

Jamm. Ég fór í þetta prófkjör með mín málefni, mínar aðferðir og minn stíl og þótt niðurstaðan hafi ekki verið eftir væntingum verður eftirleikurinn að vera í samræmi við þetta: Á mínum forsendum eða enginn. My Way.

Jóhanna vann góðan sigur í Reykjavíkurprófkjörinu og það er sjálfsagt að óska henni og öðrum sem vel gekk þess að árangur þeirra verði þeim, þjóðinni og flokknum til hamingju, sérstaklega árangur nýja fólksins, Sigríðar Ingibjargar, Skúla og Valgerðar.

Mér fannst allan tímann vera hálfgerður óraunveruleikablær yfir þessu prófkjörsstappi í kreppunni miðri, og hef sjálfsagt ekki staðið mig nógu vel í því sem þarf að standa sig vel í til að vera kosinn í prófkjöri. Ég hef verið á þinginu sem varamaður þennan tíma og reynt að standa mig þar líka. Það hefur sennilega ekki verið skynsamlegt, en það er bara minn stíll og engum öðrum um að kenna. Takk samt þið öll sem studduð mig, ég veit að slíkum stuðningi fylgir sú ábyrgð að nota hann til góðra verka.

Jamm.

Í sporum Ellerts? var spurt í SMS-i í gærkvöld þegar úrslitin lágu fyrir, og væntanlega átt við 5. sæti norður. Kannski, og út af fyrir sig er það heiður fyrir mig að standa í sporum þeirrar glæstu æskuhetju minnar af Melavellinum. Vonandi bara maður skori þá! En þetta er ekki bindandi kosning, og má vera að aðrir hafi meiri áhuga á 5. norður en ég.

Annars var þessi prófkjörstíð með köflum ágæt skemmtun, einkum karlakvöldið. Ég saknaði þess þó að kandidatarnir hefðu tækifæri til að tala saman fyrir framan kjósendur, jafnvel takast á. Sumir þeirra töluðu ekki hátt um afstöðu sína til atburða haustsins eða ríkisstjórnarinnar með Sjálfstæðisflokknum – og aðrir virðast komnir á þing til að gera þar það sem stjórnlagaþingið átti að annast! Það er svo eiginlega soldið fyndið í öllu kallinu eftir endurnýjun og annarri hugmyndafræði að hinir eiginlegu nýjungamenn og endurnýjunar í þessu prófkjöri voru einna helst jafnaldri minn Pétur Tyrfingsson og öldungurinn Jón Baldvin Hannibalsson – og fékk hvorugur verðugan stuðning.

Í stóra samhenginu skiptir þetta auðvitað ekki máli. Þar er það vinstristjórnin sem þarf að vinna kosningarnar og ráðast í verkin, og til þess eru S-listarnir tveir í Reykjavík nú tilbúnir.

Nokkra næstu daga verður yðar einlægur fjarri þeim vettvangi og bloggar ekki heldur gengur á skíðum í Noregi með gömlum félaga sem þar býr, Snævari Guðjónssyni, bróður Árna Péturs og Kjartans. Í ofanverðum Gubbrandsdal. Þetta er gamall draumur hjá okkur Snævari og löngu ákveðið einmitt núna þessa útmánuði, hvað sem kreppum líður, prófkjörum, landsfundum og kosningum. Hviss, hviss

 

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (6)

  • Ég tók nú bara nærri mér hve neðarlega góðir menn lentu í þessu prófkjöri og er þó ekki í flokknum. En ég endurtek orðrétt það sem ég sagði í athugasemd á bloggi Dofra – og óska þess um leið innilega að hafa rangt fyrir mér:

    „Mér finnst mjög athyglisvert að tveir af helstu talsmönnum náttúruverndar í Samfylkingunni, þú og Mörður, fengu ekki meira fylgi en raun ber vitni. Sorglegt.

    En líklega er Samfylkingin þar með að stimpla sig formlega og opinberlega inn sem virkjana- og stóriðjuflokkur í anda Össurar Skarphéðinssonar. Dapurlegt.

    En þá vitum við það. Fagra Ísland er horfið sjónum.“

  • stefán benediktsson

    Mig grunar að Lára Hanna sé að hitta nær helv. naglahausnum en maður vill viðurkenna upphátt en við þekkjum það að í þessum þrönga hópi (lokað prófkjör) eru trúlega enn margir menn sem láta sig litlu varða hvaðan atvinnan kemur. Viðmiðin eru valin eftir hentugleikum. Annan daginn erum við stærsta þjóð í heimi en hinn daginn bara fluguskítur á steini. Það sýnir best pólitískt skarpskyggni mitt að mér datt aldrei í hug að þú færir niður fyrir áttunda.

  • María Kristjánsdóttir

    Vond finnast mér örlög náttúrverndarmanna í prófkjörinu en verra þó að SF-félagar gefa skít í okkar „ástkæra,ylhýra“.

  • Verst er ef sameining jafnaðarmann í einn flokk: – Samfylkingu er í uppnámi. Verst ef þeir sem skipast í framlínuna reynast ekki færir um að leysa vanda fólksins og fyrirtækjanna – þannig að neytendhagkerfið og framleiðsluhagkerfið komist aftur af stað. Verst ef framlína jafnaðarmanna teiknar ekki upp framtíðarsýn – fyrir fólkið og með fólkinu – sem byggist á innihaldsríkum gildum jafnaðarmanna.
    Ráðgjafar „okkar fólks“ eru uppteknari af því að draga skammsýnan taum fjármagnsins . . . . .
    . . . . slíkt er líklegast til að stefna okkur efnahagslega og félagslega í verulegt óefni . . . .
    Mörður farðu á skíðin með félaga þínuum . . . en láttu ekki henda þér út af mælendaskrá Samfylkingarinnar á meðan . . . þú svífur um brekkur Guðbrandsdalsins . . . .

  • Kristján Sig. Kristjánsson

    Gallinn við þig Mörður að þú vilt breytingar, fólk vill ekki breytingar þessvegna var það hárrétt hjá Ingigbörgu Sólrúnu þegar hún sagði við mótmælendur „þið eruð ekki fólkið“. Fólkið vill Davíð aftur inn.

  • Jón Bragi Sigurðsson

    Ef sá gamli sanntrúaði kommúnisti Pétur Tyrfingsson er nýjungamaður, þá bið ég nú barasta alla góða vætti að hjálpa Samfylkingunni og íslensku þjóðinni!

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af fjórum og átta? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur