Það er undarlegt að fylgjast með þingflokki Sjálfstæðisflokksins í villtasta málþófi Íslandssögunnar. Það felst í því að þæfa allt önnur mál en þeir eru raunverulega á móti, og finna ótrúlegustu umræðuefni og athugasemdir út af frumvörpum og tillögum sem þeir eru í raun og veru sammála. Hlýtur til dæmis að vera nokkuð furðulegt fyrir kvikmyndafólk að heyra þingmenn Sjálfstæðisflokksins hylla Árna Johnsen fyrir ræður sínar um hækkun endurgreiðsluhlutfallsins og gildi listarinnar.
Og hvað er það sem þeir hamast svona gegn í miðri efnahagskreppunni? Bara eitt: Þær breytingar á stjórnarskránni sem staðfesta þjóðareign á helstu auðlindum þjóðarinnar, þar á meðal fiskinum í sjónum. Og sannarlega er þetta mikilvægt mál, og rammpólitískt. Sjálfstæðisflokkurinn vill að ákveðinn forréttindahópur eignist endanlega auðlindir sjávar – önnur stjórnmálaöfl telja þjóðina vera eigandann, þótt þar hafi menn vissulega ekki ennþá náð saman um aðferðir.
Að baki er svo andstaða íhaldsins við ESB-aðild, vegna þess að þeir vita að það er erfitt að ganga þar inn meðan þetta mál er uppí loft.
Einkennilegt er samt að þetta hátterni Bjarna Ben, Toggu og Árna Johnsens á alþingi virðist sýna að þau séu strax búin að tapa kosningunum. Ennþá er þetta nefnilega þannig að það þarf nýtt þing til að staðfesta stjórnarskrárbreytingu, og þessvegna er hægt að kjósa um breytingarnar í kosningunum í mánaðarlok, ef Sjálfstæðisflokkurinn vill.
En í þann slag þora þeir ekki.
Mörður
Mér finnst þú snúa mörgu á haus í þinni rökræðu um Sjálfstæðisflokkin.
Það er reyndar ekki minn flokkur, en sama samt. Er það ekki ríkistjórnin sjálf sem hefur verið að forgangsraða málum með þeim hætti að setja alltaf
málefni fyrirtækja og heimila aftarlega í röðina, bæði á dagskrá þingsins og í röð þeirra mála sem listuð eru upp sem mál sem nauðsynlega þarf að afgreiða fyrir þinglok. Þannig er verið að þrýsta málum í gegn sem vel mega bíða nýs þings með því að nota málefni fjölskyldna og fyrirtæka til að þvínga mál í gegnum þingið. Hvað málþófið varðar , þá man ég ekki betur en það hafi nú áður verið tíðkað í sölum alþingis hvað með fjölmiðlafrumvarpið. Hefur þú sjálfur tekið þátt í málþófi? Ég hef enga samúð með Sjálfstæðisglokknum né þeirri stöðu sem hann hefur komið sér í, en skil ekki hvað þið sleppið við að axla ábyrgð og finnst það reyndar frekar lítilmótleg
framkoma gagnvart þjóðinni að bjóða upp á 3 fyrrum ráðherra hrunastjórnarinnar í efstu sæti framboðslista og þar að auki forsetisráðherra
Er það ekki vanvirðing við Alþingi að flutningsmenn frumvarpa láta ekki sjá sig þegar að umræða er um frumvarpið, evar annar þeirra eins og gerðist í gær. Þá voru aðeins tveir þingmenn stjórnaflokkanna viðstaddir og var annar þeirra forseti þingsins.
Ekki er virðing ríkisstjórnarinnar mikil gagnvart hinu háa Alþingi. Að kalla það málþóf að vilja ræða breytingar á stjórnarskrá og á sama tíma mæta ekki til andsvara á Alþingi er hneyskli.
Ingvar