Sunnudagur 05.04.2009 - 14:57 - 12 ummæli

Hvað nú, Þorgerður Katrín?

Álit annars minnihluta menntamálanefndar í þingmáli 406 hefur ekki hlotið verðskuldaða athygli. Þar mæla  Einar K. Guðfinnsson og Ragnheiður Ríkarðsdóttir móti því að fleiri fái nú starfslaun úr sjóðum fyrir listamannalaun, og telja slíka ráðstöfun óskiljanlega í ljósi kreppu og fjárlagahalla. Þó er aðeins um að ræða svolitla leiðréttingu við heildarúthlutun sem hefur verið eins síðan hún var negld niður með lögum árið 1996.

Það skiptir fulltrúa Sjálfstæðisflokksins heldur engu máli að einmitt núna kemur samfélaginu einkar vel að heldur fleiri fáist við listsköpun því aðrir fá undireins störf þeirra sem njóta aukamánaðanna — fyrir utan að liststarf skapar mörg ,,afleidd störf“ — miklu fleiri til langtíma litið en álversdjobbin svo tekið sé nærtækt dæmi.

Ég er reyndar ekki sáttur heldur við lagafrumvarp menntamálaráðherra um fleiri listamannalaun, hefði viljað sirka tvöfalda heildartímann, og hækka líka launin sjálf. Tel að fé sé jafnvel og betur varið til þess en í ýmislegt átak þessa daga vegna atvinnuleysis. Í grein sem ég skrifaði í Moggann um þetta í mars var líka rakið að sérstaka fjárveitingu til listamannalauna nú í kreppunni mætti binda því skilyrði að listamennirnir störfuðu að hluta með fólki án atvinnu. Það mundi gagnast hvorumtveggju og ekki síður samfélaginu í heild.

Afturhaldsemi íhaldsins í þessu máli kemur svosem ekkert á óvart — ekki heldur þeim sem höfðu talið þau Ragnheiði og Einar tiltölulega þokkaleg eintök af þeirri tegund. Það vekur hinsvegar furðu að flokkurinn skuli koma svona illa í bakið á hinum nýendurkjörna varaformanni sínum, Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, fyrrverandi menntamálaráðherra. Hún undirbjó nefnilega þessa svolitlu fjölgun listamannalauna undir lok sinnar tíðar í ráðuneyti menningarmála, og ég skildi ekki betur en hún styddi frumvarpið af ráðum og dáð þegar það barst í tal milli okkar í byrjun febrúar.

En kannski hefur auglýsingastofan hans Bjarna Ben ákveðið eitthvað annað í millitíðinni?

Flokkar: Óflokkað

«
»

Ummæli (12)

  • hvers vegna ekki að beina þessum listamönnum inn á atvinnuleysisbætur eins og öðrum. Þá sitja þeir við sama borð og aðrir. Með þeim bótum geta þeir síðan stundað list sína. Reyndar verða þeir að vera tilbúnir til að taka starfi bjóðist þeim það. En þá mætti kannski leyfa viðkomandi að afþakka boð um starf, t.d. 3svar sinnum ef starfið tengist ekki listsköpun. Hinsvegar ef væri verið að óska eftir störfum hans í fjórða sinn þá gæti hann ekki skorast undan og jú þá hlýtur nú að vera einhver eftirspurn eftir viðkomandi. Hinsvegar þarf einnig að skoða hvernig þeir gefa upp tekjur sínar af sölu listar sinnar. Því er það ekki það sem við viljum, þ.e. að listamaðurinn verði sjálfbær, lifi af list sinni. En þar veit ég um dæmi þar sem sala listar hefur ekki verið gefin upp til skatts.
    Mörður, myndir þú kannski vilja vera svo vænn og óska eftir rannsókn á skil á skatttekjum listamanna.

  • Sérstaklega góð smjörklípa hjá þér orn. Benda á möguleg skattsvik þessa liðs sem nennir ekki að vinna við neitt nema gera lífið skemmtilegra fyrir okkur hin.

  • Listamenn eru nú akkurat sá hópur sem svíkur mest undan skatti. Kemur ekki á óvart að lið frá samspillingu vilji koma fleiri af þeim á ríkisspenann!!

  • Jakob Bjarnar

    Sæll Mörður!

    „Það skiptir fulltrúa Sjálfstæðisflokksins heldur engu máli að einmitt núna kemur samfélaginu einkar vel að heldur fleiri fáist við listsköpun því aðrir fá undireins störf þeirra sem njóta aukamánaðanna …“

    Það virðist vera sem svo að stjórnarflokkarnir sjái helstu lausn málanna í þessari setningu hér: Það kemur samfélaginu einkar vel að flestir séu undir pilsfaldi ríkisins eins og árar núna.

    Frjálslyndir menn hlaupa sem fætur toga eins langt frá Samfylkingunni nú skömmu fyrir kosningar og þeir komast því S virðist ætla að kokgleypa allt það grunnhyggna forræðishyggjurugl sem frá Vg kemur. Það er sorglegt. Þessi listamannalaun halda rökfræðilega engu vatni. Hver ákvarðar hver er þess umkominn að fá listamannalaun? Hvað ræður því að þessi á að fá listamannalaun en ekki hinn? Ef svar við þessum einföldu grundvallarspurningum lægi fyrir þá fyrst er hægt að fara að ræða að þetta Listamannalaunarugl fái yfirhöfuð staðist. Annað er einföld mismunun. Og það virðist skuggalega grunnt í slíkar hugmyndir hjá stjórnarflokkunum.

    „… því aðrir fá undireins störf þeirra sem njóta aukamánaðanna.“ Bíddu, hvað var aftur Matthías Johannessen lengi ritstjóri á Mogga samhliða því að vera á listamannalaunum? Þú átt ekki að bjóða uppá þessa dellu, Mörður – og ættir þess í stað að beita þér fyrir því að leggja þetta viðbjóðspólitískahrossakauparugl af.

    Og ég held ég sleppi því að ræða ruglið sem Árni Páll form. alsherjarnefndar mælti fyrir frumvarðið með nektarstaðina. Að þið skulið ætla ykkur að taka þátt í þessu! En það á sem sagt að vaða fram með alla vitleysuna. Sko, það að Sjálfstæðisflokkurinn hafi verið í ruglinu í efnahagsmálum, sem er náttúrlega eitthvað sem menn ættu að hamra á, þýðir ekki að öll vitleysan sem kom frá stjórnarandstöðunni hvað varðar að telja sig svo gott fólk að því beri að hafa vit fyrir öðrum og nota til þess lög, sé rétt. Það er ekkert ergó súmm í því. Enda fylgjast lögfræðingar landsins með í forundran. Er ekki rétt munað hjá mér að Árni Páll sé lögfræðimenntaður? Hvað kemur mönnum sem ætla mætti að hefðu eitthvað milli eyrnanna taki þátt í þessari vitleysu? Lýðskrum? Menn eru að koma sér í verri stöðu en stuttbuxnadrengirnir þegar þeir þurftu allt í einu óvænt að verja kommúníska tilburði Davíðsarmsins.

    Kveðja,
    Jakob

  • Mörður

    Jú, Jakob, um er að ræða starfslaun listamanna sem sérstakar úthlutunarnefndir sjá um, í þær skipa samtök listamanna án afskipta ríkisvaldsins. Ég veit vel að deilur eru tíðar um þessa úthlutun en sé enga aðferð betri. Enda stafa deilurnar einkum af því að launin eru takmörkuð, hafa frá 1996 numið 100 árslaunum (1200 mánaðarlaun á lektorslaunum), en nú er lagt til að fjölga í 133,3 árslaun (1600 mánuði). — Matthías Johannesen hefur held ég aldrei fengið starfslaun, sem ég efast þó ekki um að hann geti átt skilin, heldur hefur hann og um 25 aðrir fengið heiðurslaun frá alþingi, sem er alltönnur Ella, og sem betur fer lægri upphæð.

    Það sem ég bendi á er einfaldlega þetta: Nú fer saman að starfslaunum hefur ekki fjölgað frá 1996 þótt landsmenn séu um fimmtungi fleiri en þá — og að hér er atvinnuleysi sem menn reikna ekki með að leysist á næstunni. Þessvegna er góður leikur að fjölga starfslaunum listamanna — meðal annars vegna þess að sköpunarstörf eru oft uppspretta fyrir önnur störf og að ýmsu leyti lík sprotavinnustöðunum.

    Sumir hafa haft listamannalaun mjög á hornum sér, og ekki bara frjálshyggjublesar. Einhverjir þeirra töldu þegar auðmennirnir slógu sem mest um sig þyrftu listir og menning ekki lengur á ríkisvaldinu að halda. Nú er lítið orðið eftir af þessum skoðanahópi.

    Um nektina er svo endilega að spyrja Árna Pál sjálfan! — hef ekki skipt mér mikið af nektarmálunum hingaðtil nema fólk má vera nakið mín vegna hvar sem vera skal … meðan ekki fylgir nauðung og svinarí.

  • Jakob Bjarnar

    Hæ aftur, Mörður!

    Já, eitthvað er ég að rugla saman heiðurslaunum listamanna og svo starfslaunum listamanna sem slíkum. Og biðst velvirðingar á því. En… það breytir ekki grundvallarspurningunum: Hver ákvarðar hver er þess umkominn að fá listamannalaun? Hvað ræður því að þessi á að fá listamannalaun en ekki hinn? Ég er ekki frá því að það sé hreinlega verra að úthlutunarnefndir á vegum samtaka listamanna ráði þessu en hreinlega að um hrossakaup stjórnmálamanna sé að ræða. Bæði slæmt. List er mjög afstætt fyrirbæri og þetta þýðir alltaf mismunun. Eðli málsins samkvæmt.

    Kveðja,
    Jakob

  • Eurovision á íslensku!

  • Jónas Egilsson

    Mörður

    Þessi ummæli þín um afleiður listamannalauna eru alveg dæmigerð fyrir gamla kommúnista:

    Ríkið skattleggur almenning og fyrirtækin og dreifir verðmætunum aftur og af því verða til fleiri störf en við atvinnusköpunina sjálfa sem leggja til skattana upphaflega.

    Tær snilld. Verst að við skyldum ekki hafa sérflokk listamannalauna fyrir „efnahagslistamenn“

    M. kveðjum úr sveitinni.
    Jónas

  • Sæll Einar,

    skemmtileg nálgun…nú get ég ákveðið að skilgreina starf mitt sem list og tel mig því engan veginn falla undir þau ákvæði að þurfa að greiða skatta af launum mínum. Hafði ekki dottið þetta í hug en frábær lausn. Veit til þess að margir hafa gaman af starfi mínu og því fellur þetta klárlega undir þetta…..

  • Ólafur I Hrólfsson

    ÁSKORUN TIL SJÁLFSTÆÐISMANNA
    TÖKUM HÖNDUM SAMAN OG GREIÐUM HVERT UM SIG KR. 5.000.-
    Í STYRKTARMANNAKERFIÐ – TIL VIÐBÓTAR ÞVÍ SEM VIÐ GREIÐUM VENJULEGA.
    LÍKA ÞIÐ SEM ERUÐ EKKI INNI Í STYRKTARMANNAKERFINU NÚ ÞEGAR.
    10.000 MANNS – 50 MILLJÓNIR – MÁLIÐ LEYST.
    20.000 MANNS – 100 MILLJÓNIR – OG ALLT Í GÓÐUM GÍR.
    Ólafur I Hrólfsson

  • Matthías Bjarnason

    http://www.listamannalaun.is/log.php?vis1=1

    skoðið aðeins hvað þarna segir.

    „Starfslaun miðast við lektorslaun II við Háskóla Íslands eins og þau eru á hverjum tíma.“

    Svo er verið að vandræðast með hvernig á að mennta þá háskólanema sem ekki finna sér vinnu í sumar.

    Hér er um að ræða starfslaun til 12 mánaða til stöðugilda 100 lektora við Háskóla Íslands.

    Það mætti mennta marga með þeim lektorum og leyfa þessum ágætu listamönnum að lifa af list sinni með fullri virðingu fyrir þeim sem þar eiga í hlut.

    Nú á að fjölga þessu úr jafngildi 100 lektora í jafngildi 133 lektora og skilja íslenska námsmenn eftir til að ráfa og mæla göturnar í sumar.

    Ef þið hyggist kjósa Samfylkinguna gerið þá sjálfum ykkur þann greiða að strika Mörð Árnason út af þeim lista.

    Sjálfstæðisflokkurinn hafði þó vit á að bakka og sjá að þetta gengur ekki hjá stórskuldugri þjóð sem horfir uppá að missa heimili sín og atvinnu.

    Það er árið 2009 ekki 2007.

  • Matthías Bjarnason

    Ekki skal rugla þessum listamannalaunum við „Heiðurslaun Listamanna“ en lög um þau má finna hér:
    http://www.althingi.is/altext/131/s/0145.html
    Þar segir „Heiðurslaunin séu að jafnaði veitt allt að fjörutíu íslenskum listamönnum hverju sinni og ekki færri en tuttugu og fimm. Sá sem hefur fengið heiðurslaun skal halda þeim ævilangt. Launin skulu að fjárhæð miðast við lífeyriskjör kennara.“

    Meðal styrkþega eru Erró & Björk Guðmundsdóttir en bæði lifa við bágan kost erlendis og Björk kýs að greiða skatta sína í skattaparadís sökum fátæktar.

    Lesið hver er flutningsmaður þessarar tillögu.

    Flm.: Mörður Árnason.

    Mörður Árnason takk fyrir að heiðra kennara með að gefa 25-40 stöðugildi á ári til listamanna sem eru löngu farnir að lifa af list sinni.

Rita ummæli

Kæfuvörn:   Hver er summan af tveimur og sjö? Svar:

Höfundur

Mörður Árnason
sjálfstætt-starfandi íslenskufræðingur og stjórnmálamaður. Netfang: mordurarna@gmail.com. Vinir velkomnir á Fb.:
www.facebook.com/mordurarna.
RSS straumur: RSS straumur