Kjartan Gunnarsson er ekki hættur í pólitík – og auðvitað er spennandi að fylgjast með honum særa fram andstæðinga sína (og Davíðs?) innan FLokksins út af styrkjamálunum.
Athyglisvert er hinsvegar þetta: Kjartan segist í viðtali við fréttastofu Útvarps vera í aðstöðu til að kynna sér hvernig Landsbankastyrkinn bar að. Hann viti nú hverjir komu að málinu af hálfu Sjálfstæðisflokksins. Kjartan vill ekki skýra frá þessu í fjölmiðlum (= við almenning) en segist þegar hafa sagt forystumönnum Sjálfstæðisflokksins hverjir voru að verki.
Fyrrverandi formaður bankaráðs Landsbankans hefur sumsé notfært sér þá stöðu sína til að finna styrkbeiðendurna. Þótt Landsbanki Kjartans sé nú á framfæri almennings (okkar og nokkurra næstu kynslóða!) vill hann ekki skýra opinberlega frá vitneskju sinni. Fyrrverandi formaður bankaráðs Landsbankans er nefnilega líka fyrrverandi framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins, og trúnað sýnir hann bara flokknum – ekki almenningi.
Ég þekki Kjartan Gunnarsson frá því í gamla daga og veit að þar fer hæfileikamaður, og prinsippmaður á sinn hátt. En hann er líka einn hinna innvígðu í launhelgum Valhallar. Fastur í veröld sem vonandi var.
Og þá er það Samfylkingin.
Menn ættu nú að hafa það rækilega hugfast að Valhöll sá ekkert bogið við þetta fyrr en upp komst. Að ætla að henda einhverjum fyrir úlfana nú í von um syndaaflausn er makalaus hugmynd. Hvaða máli skiptir það hvaða agentar flokksins fóru eftir fénu?
Mér finnst þetta gott hjá Kjartani.
Hann segir við sökudólgana: „Ég veit hverjir þið eruð, ég gef ykkur sólarhring til að gefa ykkur fram, annars…“
Þetta er miklu flottara heldur en að æða sjálfur með það í fjölmiðla. Er alls ekki liður í gamla tímanum. Hann setur pressu á bæði sökudólga og núverandi forystu, um að gera hreint fyrir sínum dyrum.
Flott hjá Kjartani!
Mörður
Þú hefðir auðvita notað tækifærið og slegið
þig til riddara í leiðinni
Samfylkingin fékk 12 milljónir (12 000 000) frá Baugi. Hvað fékk svo Ingibjörg Sólrún persónulega mikið frá Baugi? Allt upp á borðið, er það ekki frasi ættaður frá Samfó.
hg.
Hvaða heimyldir hefu þú, hg, fyrir því að ISG hafi fengið eitthvað persónulega frá Baugi? Ef þú veist eitthvað um það væri þá ekki heiðarlegra að segja það bara hreint út?
Er það yfirlýst stefna samfylkingarinnar að það sé enginn tilgangur með flokkum og því eigi að leggja þá alla niður. Við tæki hópar fólks undir engri forustu, án allra stefnu sem fólk gæti fylgt og … já líklega stjórnleysi. Það er lýðræði í þessu landi og að segja að 25-40 prósent þjóðarinnar hafi alltaf rangt fyrir sér er einfaldlega ekki lýðræðislegt. Þó sjálfstæðisflokkurinn hafi barist hart fyrir sínum málefnum þá er á bak við hann stór hluti þjóðarinnar, þessu má ekki gleyma í öllum hleypidómum og Sjálfstæðisflokkurinn veit alveg að þeir geta ekki án stuðnings verið, þess vegna eru þeir að reyna að leysa úr sínum málum… það er lýðræði, eða allavega besta tegund lýðræðis sem þekkist í heiminum… komið með nýtt lýðræði ef þið hafið það.